Jurgen Klopp, stjóri Liverpool var mættur á blaðamannafund í morgun þar sem hann ræddi leik liðsins við Swansea á mánudaginn.
Liverpool vann frábæran 4-3 sigur á Manchester City um helgina en Klopp tilkynnti það á dögunum að Loris Karius væri orðinn markmaður númer eitt hjá félaginu.
Stjórinn ítrekaði það á blaðamannafundi í dag að Karius þyrfti að standa sig en hann var gagnrýndur eftir frammistöðu sína gegn Manchester City.
„Það er erfitt hlutskipti að vera markmaður eða varnarmaður hjá Liverpool því þú mátt ekki gera nein mistök,“ sagði Klopp.
„Frá mínum bæjardyrum séð þá er það alltaf stórslys þegar að markmaður okkar gerir mistök en aðrir markmenn mega gera sín mistök en samt eigum við að kaupa þá.“
„Ég er ánægður með mína markmenn. Karius hefði getað varið skotið í fyrsta marki City en þetta var líka frábærlega klárað hjá Sane. Hann fær núna tækifæri og það er hans að nýta það.“
„Hann býr yfir mörgum góðum kostum sem markmaður og ég er hrifinn af því. Hann verður samt að standa sig ef hann ætlar sér að halda stöðunni og hann veit það,“ sagði Klopp að lokum.