Jose Mourinho, stjóri United er að skrifa undir nýjan samning við Manchester United en það er James Ducker, blaðamaður hjá Telegraph sem greinir frá þessu.
Hann tók við liðinu árið 2016 af Louis van Gaal og hefur náð fínum árangri með liðið en United vann m.a Evrópudeildina á síðustu leiktíð.
Þá situr liðið í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 50 stig og er nú 12 stigum á eftir toppliði Manchester City.
Núverandi samningur Mourinho á að renna út á næsta ári en félagið vill, eins og áður sagði halda Portúgalanum á Old Trafford.
Hann hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá PSG í Frakklandi en hann hefur sjálfur gefið það út að hann vilji vera áfram á Old Trafford.