Leonardo Jardim, stjóri Monaco segir að félagið gæti neyðst til þess að selja Thomas Lemar, sóknarmann liðsins.
Lemar hefur verið sterklega orðaður við bæði Arsenal og Liverpool en síðarnefnda félagið vill fá hann til þess að leysa Philippe Coutinho af hólmi.
Þá vill Arsenal fá hann, ef Alexis Sanchez fer en bæði lið lögðu fram stór tilboð í leikmanninn, síðasta sumar.
„Í dag er markaðurinn opinn og það vita allir hversu klikkaður markaðurinn er í dag,“ sagði stjórinn.
„Stundum gerast hlutir, sem félag eins og Monaco getur ekki einu sinni sagt nei við. Það gerðist hjá Liverpool, svona er þetta bara í dag.“
„Tölurnar í dag eru ótrúlega háar og það breytir öllu. Ég vil auðvitað halda Lemar, hann er frábær leikmaður en eins og markaðurinn virkar í dag þá gæti reynst erfitt fyrir okkur að segja nei,“ sagði hann að lokum.