Chelsea tók á móti Arsenal í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska Deildarbikarsins í kvöld en leiknum lauk með markalausu jafntefli.
Heimamenn voru sterkari aðilinn í leiknum og fékk Andreas Christensen besta færi leiksins í síðari hálfleik en inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan því markalaust jafntefli eins og áður sagði.
Antonio Conte, stjóri Chelsea var svekktur með færanýtingu liðsins í kvöld.
„Ef þú ert í vafa um eitthvað þá er gott að vera með myndbandstæknina til þess að taka af allan vafa,“ sagði Conte eftir leikinn.
„Á Ítalíu er uppbótartíminn stundum sjö, átta eða níu mínútur. Ef við tökum mið af því þá á myndbandstæknin alveg heima í nútíma fótbolta.“
„Við viljum vinna hvern einasta leik sem við spilum og við reyndum allt hvað við gátum til að vinna. Við fengum færin en tókst ekki að skora. Þeir sátu djúpt í dag og reyndu að beita skyndisóknum. Síðasti leikur gegn þeim var talsvert skemmtilegri,“ sagði Conte að lokum.