Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham segir að Harry Kane gæti yfirgefið félagið næsta sumar.
Framherjinn öflugi hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid að undanförnu og þá er Manchester United einnig sagt áhugasamt um leikmanninn.
Kane er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar og hefur verið það, undanfarin ár en Tottenham hefur gengið illa að vinna titla, undanfarin ár.
„Staðreyndin er sú, að í dag er mjög erfitt fyrir ensku félögin að halda sínum bestu leikmönnum,“ sagði stjórinn.
„Liverpool er eitt sterkasta félag í heimi en um leið og Coutinho vildi fara þá gat félagið ekki gert neitt. Ronaldo vildi fara á sínum tíma og hann fór.“
„Harry Kane er magnaður leikmaður og hann gæti líka farið einn daginn,“ sagði stjórinn að lokum.