Emre Can, miðjumaður Liverpool er sterklega orðaður við Juventus þessa dagana.
Sky Sports greindi frá því í dag að leikmaðurinn væri búinn að gera munnlegt samkomulag við félagið um að ganga til liðs við ítalska liðið í sumar.
Samningur hans rennur út í sumar og því getur hann farið frítt frá félaginu en enskir miðlar greina frá því í dag að Liverpool ætli sér ekki að missa hann svona auðveldlega.
Samkvæmt Mirror þá telur félagið að þeir geti ennþá haldið Can og hafa þeir ekki gefið upp vonina um að hann skrifi undir nýjan samning.
Can kom til Liverpool frá Bayer Leverkusen árið 2014 og hefur verið lykilmaður í liðinu að undanförnu.