Justin Rosenstein er nafn sem ef til vill hringir ekki mörgum bjöllum hjá fólki þó milljarðar manna noti uppfinningu hans frá degi til dags. Rosenstein þessi var hugbúnaðarverkfræðingur hjá Facebook á árdögum þessa vinsælasta samfélagsmiðils heims og er maðurinn sem þróaði „like“-hnappinn vinsæla.
Í viðtali við breska blaðið Guardian varpar Rosenstein athyglisverðri játningu. Hann segir að hann noti ekki lengur smáforrit í snjallsímum af þeirri ástæðu að þau eru of ávanabindandi.
Í viðtalinu segir hann að samfélagsmiðlar, smáforrit og annar hugbúnaður í símum, spjaldtölvum og fartölvum sé jafn ávanabindandi og heróín. Þau hafi slæm áhrif á heilastarfsemi fólks og skerði meðal annars einbeitingarhæfni.
Rosenstein hefur sjálfur gripið til ráðstafana, sjálfum sér til hagsbóta ef svo má segja. Fartölvan hans er þannig sett upp að hann getur ekki farið á Reddit, hann er hættur á Snapchat og þá eru takmörk fyrir því hversu miklum tíma hann getur varið á Facebook. Þá er síminn hans þannig stilltur að hann getur ekki sótt ný öpp, eða smáforrit eins og þau eru gjarnan kölluð.
Í viðtalinu lætur hann að því liggja að stjórnvöld þurfi að grípa inn í og setja fyrirtækjum og framleiðendum smáforrita þrengri skorður. Í raun vill hann að þau lúti sömu lögmálum og tóbaksfyrirtækin hvað varðar auglýsingar. Lokamarkmiðið yrði að takmarka þann skaða sem þau geta valdið, líkt og í tilfelli tóbaksfyrirtækjanna.