Manchester United ætlar sér að leggja fram tilboð í Toby Alderweireld, varnarmann Tottenham ef Lundúnarliðið ætlar sér að selja hann en það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu í dag.
Alderweireld hefur verið sterklega orðaður við brottför frá félaginu að undanförnu en hann vill fá nýjan og betrumbættan samning hjá Tottenham.
Tottenham er hins vegar ekki tilbúið að hækka launin hans mikið og því íhugar félagið nú að selja hann á meðan það fær eitthvað fyrir hann.
Samningur hans við enska félagið rennur út sumarið 2019 en hann kom til Tottenham frá Atletico Madrid árið 2015 og hefur verið algjör lykilmaður í liðinu síðan þá.
Tottenham keypti hann á 16 milljónir evra á sínum tíma en hann er metinn á 40 milljónir evra í dag.