John Aldridge, fyrrum leikmaður Liverpool segir að leikmenn liðsins eigi að vera bjartsýnir fyrir leikina gegn City í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Liðin mætast í 8-liða úrslitum keppninnar eins og áður sagði en City er eitt af þeim liðum sem þykir líklegast til þess að vinna keppnina.
Fyrri leikur liðanna fer fram þann 3. apríl næstkomandi á Anfield og seinni leikurinn fer svo fram á Etihad þann 10. apríl.
„Við drógumst gegn City og það þýðir ekkert að væla yfir því, svona er þetta bara,“ sagði Aldridge.
„Vissulega gæti það nýst þeim betur að eiga seinni leikinn heima en á móti kemur að það er aldrei stemning á Etihad vellinum.“
„Við erum hins vegar með Anfield á bakvið okkur og ég ef ekki miklar áhyggjur af stemningunni þar,“ sagði hann að lokum.