Nemanja Matic, miðjumaður Manchester United viðurkennir að það geti verið mjög erfitt að vinna með Jose Mourinho, stjóra liðsins.
Portúgalinn hefur verið ansi duglegur að gagnrýna leikmenn sína að undanförnu en United féll úr leik í Meistaradeildinni á dögunum eftir tap gegn Sevilla.
Matic hefur hins vegar verið frábær í liði United á leiktíðinni og hefur Mourinho hrósað honum mikið en hann hefur að sama skapi gagnrýnt aðra leikmenn liðsins.
„Það getur verið erfitt að vinna með honum því hann vill alltaf meira frá þér,“ sagði Matic.
„Jafnvel þótt þú vinnir ensku úrvalsdeildina þá vill hann vinna hana aftur á næstu leiktíð. Svona stjóri er hann og menn þurfa að taka honum eins og hann er.“
„Hann er sérstakur á þann hátt að hann vill bara vinna. Þegar að við töpum þá verður hann mjög reiður. Það er líklega ástæðan fyrir því að hann hefur unnið hátt í tuttugu titla á ferlinum,“ sagði Matic að lokum.