Bristol City tók á móti Ipswich í ensku Championship deildinni um helgina en leiknum lauk með 1-0 sigri heimamanna.
Það var Milan Djuric skoraði eina mark leiksins á 64. mínútu og lokatölur því 1-0 fyrir Bristol City. Hörður Björgvin Magnússon var í byrjunarliði Bristol um helgina og spilaði í hjarta varnarinnar en honum var skipt af velli á 71. mínútu.
Bristol tilkynnti það svo eftir leik að hann hefði meiðst á hné en meiðslin eru ekki eins alvarleg og talið var í fyrstu.
„Ég fór í skanna í morgun. Ég fékk mjög góðar niðurstöður, og hitti svo samstundis sérfræðing sem mældi mig út og taldi mig hafa verið mjög heppinn. Hann sagði að ég hefði verið heppinn með að fara úr lið og aftur í lið, án þess að eyðileggja neitt,“ sagði Hörður við mbl.is en hann heldur nú til Bandaríkjanna og hittir íslenska landsliðið.
,,Það eru því góðir möguleikar á að ég verði ekki lengi frá, ég get farið að styrkja hnéð strax og er jafnvel leikfær strax, segir hann [sérfræðingurinn]. Það er samt auðvitað bara í höndum þjálfara og sjúkraþjálfaranna í landsliðinu að meta hver staðan mín nákvæmlega er, en þetta voru mjög góðar fréttir.“