Manchester United tók á móti Liverpool í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í dag en leiknum lauk með 2-1 sigri heimamanna.
Það var Marcus Rashford sem skoraði bæði mörk United í fyrri hálfleik en sjálfsmark frá Eric Bailly reyndist eina mark Liverpool í dag.
Jose Mourinho, stjóri Manchester United var að vonum afar sáttur með stigin þrjú og spilamennsku sinna manna í dag.
„Það er hægt að skipta þessum leik upp í tvo hálfleika. Við áttum þann fyrri, þeir áttu þann seinni en við spiluðum betri hálfleik,“ sagði stjórinn.
„Við stjórnuðum leiknum allan tímann, hvort sem við vorum með boltann eða ekki. Við höfðum öll völd á vellinum og áttum sigurinn skilinn. Ef þú ert með boltann allan tímann á móti liði eins og Liverpool og spilar illa þá eru þeir fljótir að refsa.“
„Mér er sama hvað fólk segir, við áttum þennan sigur skilið þótt við höfum verið minna með boltann í leiknum. Ég er ánægður og strákarnir eru ánægðir,“ sagði hann að lokum.