Manchester United tekur á móti Liverpool í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á morgun klukkan 12:30.
United situr sem stendur í öðru sæti deildarinnar með 62 stig á meðan Liverpool er í þriðja sætinu með 60 stig og því ljóst að það er mikið undir á morgun.
Síðast þegar að liðin mættust á Anfield lauk leiknum með markalausu jafntefli en Jose Mourinho stillti upp afar varnarsinnuðu liði í leiknum og varðist mjög aftarlega á vellinum.
Dejan Lovren, varnarmaður Liverpool segir hins vegar að hann sé ekki að mæta á Old Trafford til þess að verjast aftarlega heldur vilji Liverpool fá öll þrjú stigin í leiknum.
„Þegar að þeir mættu hérna síðast þá vörðust þeir aftarlega,“ sagði Lovren.
„Þetta snýst kannski um stigið hjá þeim en ekki hjá okkur, við spilum aldrei upp á stigið.“
„Við munum mæta og gera allt sem við getum til þess að vinna leikinn,“ sagði hann að lokum.