Lionel Messi var hetja Barcelona þegar Atletico Madrid heimsótti liðið í spænsku úrvalsdeildinni í gær.
Fimm stig voru á milli liðanna fyrir leikinn og gat Atletico því komið sér í góða stöðu og sett pressu á topplið Barcelona. Lionel Messi var ekki til í það og ákvað að taka verkið í sínar hendur og skoraði eina mark leiksins.
Messi sem hefur verið öflugugr í ár skoraði markið á 26 mínútu leiksins. Barcelona er með átta stiga forskot á toppi La Liga þegar ellefu leikir eru eftir.
Messi hefur nú skorað 600 mörk fyrir félagslið og þjóð sína. Guilem Balague sérfræðingur Sky Sports um La Liga segir hann magnaðan.
,,La Liga er deildin hans Messi,“ sagði Balague um afrek Messi.
,,Hann hefur skorað 600 mörk sem atvinnumaður og meira en þúsund mörk frá því að hann byrjaði að spila fótbolta.“
,,Ég veit að fólk reynir að setja saman tölu um allan feril hans en 600 mörk sem atvinnumaður, það er magnað.“