Ingibjörgu Reynisdóttur, leikkona, var mjög brugðið eftir að innbrotsþjófur lét greipar sópa heima hjá henni á meðan hún og eiginmaður hennar sváfu. Hún segir óhugnanlegt að hugsa til þess að þjófurinn hafi verið inni hjá þeim á meðan þau sváfu. Henni finnst þetta vera ákveðin árás á friðhelgi þeirra. Ingibjörg vill vara aðra við og hvetur fólk til að vera á varðbergi. Hún kveðst viss um að þjófurinn hafi verið búinn að kanna aðstæður fyrir innbrotið. Þá lýsir hún undarlegu og dularfullu fólki sem hefur verið á ferli í hverfinu undanfarið.
Óskar, eiginmaður Ingibjargar, vaknaði í nótt við „robot-ryksugu“ , um er að ræða ryksugu sem ryksugar sjálf. Ingibjörg telur að þjófurinn hafi líklega rekið sig í ryksuguna. Maðurinn hennar fór á neðri hæðina og sá að einhver hefði brotist inn. Það sem Óskar vissi ekki var að þjófurinn var enn þá inni í íbúðinni.
„Innbrotsþjófurinn hefur líklegast farið í felur inni í þvottahúsi þegar hann heyrði að maðurinn minn væri kominn á fætur. Þjófurinn var búinn að troðfylla bakpoka með alls konar hlutum og setja fartölvuna mína og fleiri hluti í poka. Hann hefur ekki náð að taka tölvuna mína því hann hefur örugglega ekki lagt í að sækja pokann eftir að hafa heyrt að einhver væri kominn á fætur. Um leið og maðurinn minn kíkti í annað herbergi þá kippti þjófurinn bakpokanum með sér og rauk út,“ segir Ingibjörg.
„Fullt af yfirhöfnum voru í hrúgu á gólfinu og það var greinilegt að þjófurinn hefði farið í gegnum flíkurnar til að ákveða hvaða yfirhafnir hann ætlaði að taka með sér.“
Ingibjörg segir að þjófurinn hafi einnig tekið föt af snúrum, peningabuddur, alls konar krem og hárvörur og bíllykil.
„Við þurftum að gera ráðstafanir með bílinn enda annars um mikið tjón að ræða. Það getur hver sem er farið í bílinn hvenær sem er.“
Ingibjörg segir að þau séu hægt og rólega að átta sig á því hvað þjófurinn nam á brott með sér.
Það var einnig brotist inn hjá nágranna Ingibjargar í nótt. Hún segir að þar hafi innbrotsþjófurinn reynt að hafa á brott með sér sjónvarp.
Grunar þig að þetta hafi verið sami innbrotsþjófur að verki?
„Já það er engin spurning. Það er búið að vera rosalega dularfullt fólk á ferli hér á Norðurbrún.“ Ingibjörg segir að atvinnuhúsnæðið sem stendur við Norðurbrún 2 sé í mikilli niðurníðslu og þar hafi engin starfsemi verið síðastliðin fimm ár. Í apríl á þessu ári greindi DV frá að kassar fullir af notuðum sprautunálum, mannaskítur og annar óþrifnaður fannst á lóð húsnæðisins.
„Það er alls konar lýður sem er að sniglast í þessu húsi að næturlagi og það hefur verið mjög undarlegt lið að flækjast í hverfinu.“
Ingibjörg bendir blaðamanni á tvær færslur inni á Facebook-síðu Langholtshverfis þar sem fólk hefur verið að láta vita af innbrotum. Í einu tilfelli var úlpu stolið úr þvottahúsi um hábjartan dag á meðan fólk var heima.
Ingibjörg segir að nágranni hennar hafi tekið eftir dularfullum karlmanni á öðrum tímanum í nótt. Maðurinn var kíkja inn um glugga og skoða bílskúrinn hjá Ingibjörgu.
„Nágranni minn hringdi á lögreglu sem kom og keyrði um hverfið en sá engan. Þjófurinn hefur örugglega flúið í garð nágranna minna og brotist inn heima hjá þeim. Hann hefur komið til okkar seinna um nóttina.“
Innbrotsþjófurinn komst inn til Ingibjargar með því að brjóta upp þil sem var skrúfað fyrir glugga í anddyrinu og teygja sig í hurðarhúninn. „Þjófurinn var örugglega búinn að stúdera þetta.“
Ingibjörg segist vita lítið um rannsókn máls annað en að lögreglan hafi fundið karlmann í hverfinu sem var færður á lögreglustöð.
Hvernig er andleg líðan ykkar hjóna?
„Við erum óvenju róleg. Það er slæmt að geta ekki verið á bílnum. Það er einnig mjög óhugnanlegt að það var komið inn til okkar á meðan við sváfum. Það er eins og það sé verið að ráðast inn á friðhelgi okkar. Ég er hálf fegin að hafa ekki gengið í fangið á innbrotsþjófnum, maður hefur ekki hugmynd um hvernig þetta lið er.“