KSÍ samþykkti á stjórnarfundi í gær að styrkja stuðningssveitina Tólfuna vegna HM í Rússlandi í sumar. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, staðfesti þetta í samtali við Fótbolta.net í dag.
KSÍ mun fljúga tíu meðlimum út og eiga þessir aðilar að stjórna stemmingunni á leikjum liðsins.
„Stjórn KSÍ er einhuga í því að styrkja Tólfuna. KSÍ gerir sér fyllilega grein fyrir hinu mikilvæga hlutverki sem Tólfan hefur að gegna á leikjum íslensku landsliðanna,“ sagði Klara við Fótbolta.net í dag.
KSÍ gerði þetta á seinni stigum Evrópumótsins í Frakklandi árið 2016 og heppnaðist það vel.
Dýrt getur verið að fylgja íslenska liðinu alla leikina og ákvað KSÍ að bjóða nokkrum meðlimum Tólfunnar út.