Ef spá völvu DV reyndist rétt mun íslenska landsliðið ekki gera neinar rósir á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi næsta sumar.
Völvan segir að Ísland tapi fyrir Argentínu og Króatíu en muni vinna sigur á Nígeríu.
Það myndi líklega verða til þess að liðið færi ekki upp úr riðli sínum.
,,Völvan segist ekki vera mikil íþróttakona en býðst þó til að skyggnast inn í íþróttaheim næsta árs. Þar ber vitanlega hæst Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi. Riðillinn er of erfiður fyrir okkar menn, segir völvan og liðið mun ekki komast áfram,“ skrifar völvan.
Völvan sér það þó fyrir sér að stuðningsmenn Íslands haldi áfram að slá í gegn.
,,Við töpum leiknum við Argentínu 3-0 þar sem Lionel Messi skorar eitt mark. Við vinnum leikinn við Nígeríu og mætum Króatíu í síðasta leik og töpum honum. Hún segir stemningsfulla stuðningsmenn Íslands verða þjóðinni til sóma í Rússlandi og munu þeir vekja mun meiri athygli fjölmiðla en liðið sjálft. Gleðin verður við völd hjá Íslendingum þrátt fyrir tapið.“