fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Breyttu nafni fyrir gjaldþrot til að klekkja á keppinauti

Eigendur fyrirtækisins Sagatours ehf. sakaðir um „ótrúlega lágkúru“

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 27. október 2017 10:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í vikunni var tilkynnt um gjaldþrot fyrirtækis sem áður gekk undir nafninu Sagatours ehf. Nokkrum mánuðum fyrir gjaldþrotið, þegar ljóst var í hvað stefndi, var nafni fyrirtækisins breytt í Hópferðir Ellerts ehf. Tilgangurinn var sá að koma höggi á samkeppnisaðila, nánar tiltekið Ellert Scheving Markússon og eiginkonu hans Rósu Ólafsdóttir, sem eiga fyrirtækið Hópferðir ehf. Ágreiningur milli eigenda félagsins nær nokkur ár aftur í tímann þegar ráðgert var að félögin myndu sameinast. Af því varð ekki og telja báðir aðilar að á sér hafi verið brotið eftir að hætt var við sameiningu. Málið hefur verið rekið hljóðlega fyrir dómstólum undanfarin misseri, allt þar til hið nýja útspil eigenda Sagatours ehf. leit dagsins ljós. „Þetta er ótrúleg lágkúra. Við höfum ekki áhuga á því að fara niður á þetta plan,“ segir Rósa í samtali við DV.

Breyttu nafni vegna óvildar

Málið komst upp á yfirborðið þegar annar eigenda Hópferða ehf., Ellert Scheving Markússon, vakti athygli á gjörningnum á Facebook-síðunni Bakland Ferðaþjónustunnar. „Samkvæmt fyrirtækjaskrá hefur félagið Hópferðir Ellerts ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 12. október síðastliðinn. Eigendur þess félags hafa vegna óvildar í minn garð breytt nafni Sagatours ehf. í Hópferðir Ellerts ehf. og stofnað nýja kennitölu fyrir Sagatours ehf.,“ segir í innleggi Ellerts. Hann segir að ástæða gjörningsins sé sú að slá ryki í augun á fólki og láta líta út sem fyrirtæki hans, Hópferðir ehf., sé komið í þrot. Það sé hins vegar fjarri sanni.

Eigendur hins gjaldþrota félags eru þeir Gunnar Örn Gunnarsson, Sigurjón Þór Óskarsson, Sigurgeir Friðriksson og Ómar Líndal Marteinsson. Gunnar Örn átti 53% hlut í félaginu, Sigurjón Þór 25%, Sigurgeir 15% en Ómar Líndal 7%. Eins og fram kemur í yfirlýsingu Ellerts stofnuðu fjórmenningarnir nýtt fyrirtæki með sama nafni, Sagatours ehf., þann 6. ágúst 2016 og hefur allur rekstur verið fluttur yfir í það. Í því eiga fjórmenningarnir allir 25% hlut.

Ásakanir ganga á víxl

Yfirlýsing Ellerts á Baklandi Ferðaþjónustunnar var ekki tekið þegjandi og hljóðalaust. Einn eigandi Sagatours ehf., Sigurjón Þór Óskarsson sendi frá sér sameiginlega yfirlýsingu stjórnar Sagatours ehf. Í henni kom fram að fyrirtækið hefði, að mati eigendanna, orðið fyrir miklu fjárhagstjóni vegna samstarfsins sem ekkert varð úr. Hélt hann því fram að áðurnefndur Ellert hefði óskað eftir samstarfinu í byrjun ágúst 2015 og fullyrti hann enn fremur að Hópferðir hefðu haldið eftir farartækjum og stórum samningi sem Sagatours ehf. var aðili að fyrir sameiningu. Fyrirtækið hefði ekki getað lifað af tafir lögsóknarinnar og því hefði gjaldþrot orðið niðurstaðan.

Ellert benti þá á að samstarfið hefði hafist tæpu ári fyrr eða í nóvember 2014 til loka maí 2015. Fullyrti hann að upp úr samstarfinu hefði slitnað því forsvarsmenn Sagatours ehf. hefðu verið óheiðarlegir í því samstarfi og dregið sér fé sem átti að renna til samstarfsins. Bendir hann á að Hópferðir hafi haft samninginn stóra í sjö mánuði en síðan hafi Sagatours ehf. tekið við honum í byrjun árs 2016 og haft af honum tekjur í tuttugu mánuði. „Varðandi farartækin þá skiluðum við öllum þeim sem tilheyrðu Sagatours en bílum sem voru keyptir á okkar kennitölu, fyrir okkar peninga var að sjálfsögðu ekki skilað,“ segir Ellert. Hann bendir á að Sagatours ehf. hafi byrjað með hreint borð í júní 2015 og því sé af og frá að gjaldþrot fyrirtækisins hafi orsakast af sameiningarferlinu.

Bíða niðurstöðu dómstóla

Forsvarsmenn Sagatours ehf. vildu ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Í samtali við DV segir fjármálastjóri Hópferða og eiginkona Ellerts, Rósa Ólafsdóttir, að eigendur félagsins hafi engan áhuga á að falla niður á það plan sem eigendur Sagatours ehf. hafi fallið. „Við teljum að á okkur hafi verið brotið í sameiningarferlinu en það sé ekki réttur vettvangur að rífast um það í fjölmiðlum. Málið er rekið fyrir dómstólum og við bíðum eftir niðurstöðu þeirra,“ segir Rósa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti