Bandaríski gamanleikarinn Adam Sandler var gagnrýndur vegna framkomu sinnar í spjallþætti Graham Norton á föstudagskvöld.
Gagnrýnin beindist að því að hann snerti leikkonuna Claire Foy í tvígang. Umræða um kynferðislega áreitni og yfirgang valdamikilla karla hefur verið áberandi að undanförnu.
Sandler lagði hönd sína á hné Foy og virtist henni ekki líða neitt sérstaklega vel í þessum aðstæðum. Reyndi hún að færa hönd hans af hnénu svo lítið bæri á en Sandler brást við með því að setja höndina aftur á hné hennar.
Sitt sýnist hverjum um atvikið en fjölmargir gagnrýndu Sandler á Twitter og sögðu framkomu hans taktlausa, sérstaklega í ljósi umræðu síðustu vikna. Aðrir hafa spurt hvort ekkert megi lengur. Atvikið má sjá hér að neðan og brot af umræðunni á Twitter.