Ole Gunnar Solskjær ræðir möguleika Íslands í riðlinum á EM – Ungverjaland ekki sterkt lið og hentar Íslandi vel – Skil vel ef Eiður hættir eftir EM
Ole Gunnar Solskjær er þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Molde, sem Eiður Smári Guðjohnsen leikur með. Eggert Skúlason hitti þennan glaðlega og unglega þjálfara í Molde á björtum sumardegi. Þar tjáir Ole Gunnar sig einnig um Eið Smára.
„Þegar ég samdi við Manchester United skrifaði eitt dagblaðið hér í Noregi. „Að komast frá Kristjanssund til Manchester United er erfiðara en að ætla að verða næsti páfi.“ Það sama á við um Eið. Hann hefur brotið niður veggi og fært landamæri fyrir íslenska knattspyrnumenn.“
Hver verður framtíð Eiðs hjá Molde eftir EM?
„Ég skil ef hann vill hætta eftir EM.“ Solskjær slær saman höndum eins og hann sé að losa sig við mylsnu eða eða eitthvert kusk. „Ef hann segir: „Ég er búinn að fá nóg.“ Þá skil ég hann hundrað prósent. Gulrótin hans og hvatningin hefur verið EM. Hann er búinn að vera tvo áratugi með íslenska landsliðinu og loksins er liðið komið í lokakeppni og hann vill taka þátt í því ævintýri. Ef hann er hins vegar tilbúinn að halda áfram mun ég gera allt sem hugsast getur til að halda í hann. Ég verð tilbúinn að gefa honum það frí sem hann þarf til að hitta fjölskylduna í Barcelona og tilbúinn að gefa honum frí frá leikjum sem ég tel mig geta unnið án hans. Þetta er eitt sem ég lærði af Alex Ferguson og það er að treysta leikmönnum og reyna frekar að vinna með þeim. Ég vona hins vegar innilega að hann finni áfram áhuga hjá sér á að spila með okkur, því ég hef séð hversu frábær áhrif hann hefur haft á leikmennina og sérstaklega þá yngri.“