fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Maðurinn með skeggið

Ritstjórn DV
Laugardaginn 25. júní 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hann flýgur um heiminn, gistir á fyrsta flokks hótelum, fær alltaf eitthvað gott að borða og bíður og bíður og bíður. Þannig er líf leikarans hér um bil. Jóhannes Haukur Jóhannesson er ekki lengur á barmi heimsfrægðar, enda er hann kominn þangað. Hlutverkin rúlla inn á passlegum hraða og inni á milli utanlandsferðanna nýtur hann lífsins með fjölskyldunni. Ragnheiður Eiríksdóttir hitti Jóhannes (og skeggið hans) yfir kaffibolla og fékk að vita sannleikann um stjörnulífið sem er kannski dálítið meira en lúxus og bið.

Hann hleypur við fót inn á kaffihúsið Pallett í Hafnarfirði. Klæddur hvítri kaðlapeysu, gallabuxum og með hárið flaksandi. Hann knúsar mig, og þegar ég næ aftur andanum reyni ég að halda röddinni stöðugri og spyr hvort hann eigi heima í nágrenninu. „Nei, ég bý í Laugardal, en er samt fastagestur hérna. Ég elska svona kaffiperverta sem pæla í hverju einasta smáatriði varðandi upplifunina. Svo eru allar veitingarnar búnar til af svo mikilli ástríðu, hefurðu ekki smakkað uxahalakássuna hérna?“ Ég neita því, en á látbragði viðmælanda míns er ljóst að það þarf að gerast hið fyrsta.

Leitar uppi kaffipervertinn

„Það er nefnilega hár standard á kaffihúsamenningunni á Íslandi. Ég er svo oft í útlöndum vegna vinnunnar og hangi stöðugt á kaffihúsum. Þar er mest um þessar stóru keðjur sem hafa ekki sama sjarma og ekki þessir alvöru pervertar. Ég hef reynt mitt besta á hverjum stað til að finna lókal kaffipervertinn. Gaurinn með lífrænu baunirnar frá Gvatemala, þennan sem leggur sálina í kaffið.“ Við dveljum um stund við ástríðu annars fólks. „Ég kann að meta hana hjá öðru fólki, þó að ég viti kannski ekkert um viðfangsefnið. Það er gaman að hlusta á fólk tala um eitthvað sem kveikir eld inni í því.“

Fyrir fyrsta jáið komu 40 nei. Núna fær Jóhannes hlutverk hér um bil fyrir eina af hverjum 10 prufum.
Þarf líka að þola höfnun Fyrir fyrsta jáið komu 40 nei. Núna fær Jóhannes hlutverk hér um bil fyrir eina af hverjum 10 prufum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hvað með mat, geturðu orðið lýrískur yfir trufflusveppum eða einhverju?
„Ég hef gaman af því að borða góðan mat. Þegar ég er ekki á kaffihúsum í útlöndum er ég líklega á veitingahúsum. Leikarahópurinn fer út að borða á hverju kvöldi, enda væri rugl að reyna að elda sjálfur í eldhúskróki á hóteli. Ég reyni að fara á mismunandi staði og prófa sem mest, yfirleitt eru litlu staðirnir bestir, þar sem matarperrarnir ráða ríkjum. Uppáhaldið mitt hér heima var til dæmis Friðrik V. Hann var matarpervert eins og þeir gerast bestir, tók alltaf fimm mínútur eða meira í að ræða um hvaðan allt á disknum var, nafngreindi bændur og svoleiðis. Maður var hreinlega farinn að titra úr spenningi yfir að byrja á máltíðinni. Þegar ég dvaldi í Marokkó fórum við leikararnir saman á

Það er gaman að hlusta á fólk tala um eitthvað sem kveikir eld inni í því.

pínulítinn franskan stað. Þar var frönsk kona sem var með mikinn dólgshátt við eina í hópnum sem var vegan. Hún átti eiginlega ekki orð yfir þessu rugli. Gat ekki einu sinni steikt grænmeti upp úr smjöri. Eftir mikið þref kom hún með hráan svepp á diski sem hún skellti á borðið fyrir framan leikkonuna með orðunum: „er það ekki þetta sem þú vilt?“. Svo minnir mig að hún hafi hreytt í hana með þykkum frönsku hreim: „what are you even doing here?“. Þetta vakti talsverða kátínu hjá okkur.“

Skeggið

Já það er vinna að líta svona út!

Já það er vinna að líta svona út!

Sumir vilja meina að Jóhannes skarti myndarlegasta skeggi á Íslandi, og jafnvel sé ástæða til þess að það fái sína eigin kennitölu. Hann segist ekki ennþá vera búinn að tryggja það sérstaklega, en dregur þó ekki dul á að það hafi gert útslagið varðandi hlutverk sem hann hefur hreppt að undanförnu. Um þessar mundir er hár Jóhannesar síðara en það hefur nokkru sinni verið, og segja má að leikarinn hafi þurft að taka upp nýja fegurðarhætti.

Um skegg og hárhirðu segir Jóhannes: „Lykillinn að fallegu skeggi er að nota olíu. Ég nota arganolíu daglega en hana keypti ég í lítravís í Marokkó fyrir klink. Það þarf að nudda húðina, losa dauðar húðfrumur, setja hárnæringu í skeggið og svo get ég ekki lagt næga áherslu á olíuna. Ég skil líka núna hvers vegna konur með sítt hár geta ekki bara skellt sér í sturtu og drifið sig út. Hárið krefst líka vinnu. Ég nota sjampó og næringu frá Tigi – spái kannski ekkert mikið í tegundina en það þarf að líta fagmannlega út. Maður þarf að nudda vel, setja sjampó helst tvisvar og svo gefa næringunni tíma. Ég hef enga trú á sjampóum sem innihalda næringu líka.“

Jóhannes segist nokkuð duglegur að elda heima hjá sér. En hikar þegar ég spyr hvar styrkleikar hans liggi í eldhúsinu. „Líklega mundi konan mín ekki segja að ég væri góður í neinu. En ég elda oft, oftar en hún. Þegar maður er með þrjú börn er einfaldlega ekki annað í boði. Konan mín er hins vegar snillingur í eldhúsinu. Hún tekur alveg heilan dag í máltíðina og býr til alls konar fínerí.“

Heimilið er nokkuð stórt á nútímamælikvarða, en Jóhannes og Rósa Björk kona hans eiga þrjú börn; átta ára, fimm ára og tveggja mánaða, og að auki eru þau með hund.

Það sem kom öllu af stað

Fjarvistir vegna leiklistarverkefna í útlöndum hafa verið miklar hjá Jóhannesi undanfarin tvö ár, enda hefur hann nánast eingöngu sinnt erlendum verkefnum á þeim tíma. Ævintýrið byrjaði eiginlega með hlutverki hans í íslensku kvikmyndinni Svartur á leik, sem gerð var efir skáldsögu Stefáns Mána 2012. Þar lék Jóhannes hrottann Tóta, og kom í fyrsta sinn fyrir augu almennings kviknakinn, vöðvastæltur og (gervi)flúraður. Athyglin sem hann fékk fyrir myndina einskorðaðist þó ekki við íslenska kvikmyndaunnendur. Þorvaldur Davíð, sem fór með aðalhlutverkið í myndinni og var á þeim tíma að ljúka námi í leiklist við Julliard-háskólann í New York, sýndi umboðsmönnum sínum myndina, og þeir heilluðust af hinum ómennska Tóta.

Það er æðislegt að þurfa ekki að vera í harki lengur þegar ég dvel heima. Ég get gefið börnunum og fjölskyldunni allan tímann í heiminum.

Ég spyr Jóhannes hvort hann hafi lengi stefnt að því að verða alþjóðleg súperstjarna. Hann glottir undan skegginu og hlær. „Ég hef aldrei haft aðra stefnu en að hafa atvinnu af því að leika. Á meðan ég get gert það sem mér finnst æði er ég glaður. Í vinnunni er ég alltaf að læra meira og bæta mig, í raun að gera mitt besta. Svo hefur þetta undið upp á sig. Það gerist ekki á hverjum degi að erlendir umboðsmenn hafi samband, svo ég á Þorvaldi Davíð mikið að þakka. Þegar símtalið frá umboðsmanninum kom sagði ég bara já, síðan tóku við þrjú ár af prufum áður en hlutverkin fóru að rúlla inn.“ Prufurnar sem Jóhannes talar um fara þannig fram að leikarinn fær senda rullu og er beðinn um að búa til myndband, sem svo er sent til umboðsmannsins. „Þessar prufur eru mikil stúdía og ég hugsa að ég hafi gert 40 myndbönd áður en ég fékk hlutverkið í amerísku sjónvarpsþáttunum A.D. í Marokkó.

Þetta eru miklar pælingar. Til dæmis skiptir máli hvað maður nefnir tölvuskrána, að hljóðið sé sem allra best, og öllu máli skiptir að fyrsti ramminn sé andlitið á manni. Það er til þess að litla myndin í tölvu viðtakans sé andlitið, sem eykur þá líkur á að hann muni eftir manni. Við Þorvaldur Davíð höfum nördast mikið saman í þessum myndböndum undanfarin ár, enda erum við nágrannar. Þegar ég skoða fyrstu prufurnar mínar í dag sé ég að þær eru alveg glataðar. Það komu líka 40 nei áður en ég fékk mitt fyrsta já, en núna er svarhlutfallið komið upp í eitt já fyrir hverjar tíu prufur sem ég sendi. Í dag er ég kominn á þann stað að ég hef jafnvel þurft að hafna tilboðum – það er svakalegt. Mig langar samt að taka þátt í einhverju á Íslandi fljótlega.“

Grátandi ísaldarmaður

Síðasta verkefni Jóhannesar var í Kanada. Þar lék hann annað stærsta hlutverkið í kvikmyndinni The Solutrean í leikstjórn Alberts Hughes. Myndin gerist í lok síðustu ísaldar og í henni leikur Jóhannes á móti Kodi Smit-McPhee, sem er aðeins 19 ára en á þó að baki langan feril í kvikmyndaleik. Jóhannes kom til Íslands í maí og þarf ekki að fara aftur frá fjölskyldunni fyrr en í byrjun júlí. „Það er æðislegt að þurfa ekki að vera í harki lengur þegar ég dvel heima. Ég get gefið börnunum og fjölskyldunni allan tímann í heiminum. Þetta er miklu betra fyrirkomulag en til dæmis vinnan í leikhúsunum. Þá eru kvöld og helgar úti, og miklu minni tími að gefa börnunum.“

Oft hafa tárin þó runnið þar sem hinn saknandi faðir hefur setið einn í fjarlægu landi og kvatt börnin sín á tölvuskjánum. „Úff, þetta var stundum skelfilega erfitt í byrjun. Sérstaklega þegar ég var í Marokkó. Stelpan mín skildi þó hvað vika var, en strákurinn var það ungur að hann áttaði sig ekkert á því hvers vegna ég var bara á skjánum en ekki heima hjá þeim. Álagið fyrir mig er andlegt, en auðvitað miklu meira á konuna mína. Við sættum okkur við fjarvistirnar því það er frábært að fá langan frítíma inni á milli.“

Fæðing í beinni

Þegar yngsta barn þeirra Jóhannesar og eiginkonu hans, Rósu Bjarkar, fæddist var Jóhannes í tökum í Kanada og hann fylgdist með í gegnum Skype. „Konan mín er svo lógísk. Við vissum frá upphafi verkefnisins að ég mundi missa af fæðingunni, enda var ég burtu í þrjá mánuði. Það var annaðhvort að gera þetta eða ekki, og svona lagað er bara eitt af því sem fylgir vinnunni, eins og hjá sjómönnum kannski. Þess vegna var aldrei nein gremja í kringum þetta. Við undirbjuggum þetta vel og ég var með í gegnum Skype. Í fyrsta sinn fæddi konan mín heima, það var alveg frábært og að okkar mati miklu betra en að fæða á spítala. Undirbúningurinn er allur svo góður og það er aldrei neitt tvísýnt ef konan er heilbrigð.“

Jóhannes sat sem sagt mörgþúsund kílómetra í burtu í kanadísku hótelherbergi þegar lítil stúlka kom í heiminn. „Frænka var staðgengill minn og tæknimaður og við vorum búin að græja þrífót fyrir símann og allt þetta tæknilega áður en ég fór. Sem betur fer fæddi hún á sunnudegi þegar ég var ekki í tökum.“
Ég tek andköf og spyr í ofvæni hvort þetta hafi ekki verið óbærilegt. „Það eina sem skipti mig máli var að allt væri í lagi með þær tvær. Reyndar vissum við ekki kynið. Ég var viss um að það yrði stelpa en konan mín þóttist vera búin að sjá í einhverjum tarotspilum að strákur væri á leiðinni. Eiginlega var það frekar gott á hana. En auðvitað var okkur alveg sama, svo framarlega að barnið væri mennskt og heilbrigt. Það var samt ekkert annað sem komst að meðan á þessu stóð, engar áhyggjur af neinu praktísku eins og að vatn skvettist á parketið. Það má kannski líkja þessu við landsleik, það er æðislegt að vera á staðnum en líka frábært að sjá hann í beinni. Ég fór svo út um kvöldið og fagnaði með leikarahópnum.“

Skotinn í konunni sinni

Það er greinilegt á tali Jóhannesar að hann er mjög skotinn í konunni sinni. Þau eru búin að vera saman í þrettán ár. Rósa Björk er hagfræðingur og vinnur í Seðlabankanum. „Hún er svo mikill snillingur og henni vegnar mjög vel í vinnunni. Alltaf að græja einhverja mjög mikilvæga hluti varðandi peningamálin í landinu.“

Ég skýt inn spurningu um hvernig gangi að halda neistanum á lífi eftir öll þessi ár, þrjú börn og heilmiklar fjarvistir. „Það gengur ágætlega, kannski sérstaklega vegna þess að ég fer reglulega í burtu. Við höfum reyndar alltaf gert þetta, vorum til dæmis aðskilin í tvö ár stuttu eftir að við byrjuðum saman, þegar hún fór til Danmerkur í nám, og byrjuðum að búa eftir þann tíma. Við erum bæði miklir einstaklingar og erum til dæmis með aðskilin fjármál. Við deilum afborgunum og öllu föstu, en svo er misjafnt hver fer og kaupir í matinn. Hún er líka góð í að setja mörk og lætur mig ekki draga sig inn í eitthvert vesen sem varðar mína vinnu, eins og að lesa með mér línur. Hún spyr mig heldur ekki hvernig ég haldi að einhver vísitala þróist.“

Ólöf Halla og Stefán Haukur alsæl í faðmi pabba.
Glöð með pabba Ólöf Halla og Stefán Haukur alsæl í faðmi pabba.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Jóhannes er maður sem getur líklega leikið hvaða týpu sem er. Hann er samt alltaf skeggjaði gaurinn – í það minnsta upp á síðkastið. „Margir leikarar hafa áhyggjur af því að festast í ákveðinni týpu, en mér er eiginlega alveg sama. Svo lengi sem ég fæ vinnu.“
Hvort er skemmtilegra að leika góða eða vonda karlinn?,
„Eiginlega vonda. Ég var ógeðslega vondur til dæmis í Svartur á leik, og það var mjög skemmtilegt. Maður getur oft leyft sér meira þegar maður leikur illmenni. Góðu karlarnir eru á margan hátt takmarkaðri, eða einfaldari. Samt getur hvort tveggja verið jafn mikil áskorun.“

Dólgurinn sem drapst

Varla hefur farið fram hjá mörgum að Jóhannes birtist í tveimur þáttum í nýjustu seríu Game of Thrones á dögunum. Þar lék hann fautann Lem Lemoncloak, sem kom fram á sjónarsviðið með dólgslæti, drap slatta af konum og börnum og hlaut svo makleg málagjöld í næsta þætti á eftir. „Það var geggjað að fá þetta hlutverk. Áður hafði ég fengið prufu fyrir hlutverk í fjórðu seríunni, en fékk ekki hlutverkið. Prufan var ekki nema 30 sekúndur og umboðsmaðurinn hringdi tveimur dögum eftir að ég sendi hana út. Í upphafi hafði ég ekki hugmynd um hvort ég yrði í einum þætti, eða öllum í seríunni. Mér var alveg sama, gleðin var svo mikil yfir að fá að verða partur af þessu. Svo kláruðu mínir menn dílinn og úr þessu urðu fimm ferðir til Írlands, þar sem tökur fóru fram.

Sú fyrsta var bara til að mæla mig hátt og lágt, enda verkefnið risastórt og úr svo miklu að spila. Búningadeildin er ekkert að spá í hvar leikararnir eru staddir, ég hefði alveg eins geta verið í næstu götu, átti bara að mæta á svæðið á ákveðnum tíma. Þeir borga sem betur fer allan ferðakostnað. Í þeirri ferð hitti ég líka raddþjálfa til að fara yfir hreiminn minn, því ég átti að hljóma breskur eins og aðrir í þáttunum. Viku seinna flaug ég út til þess eins að máta stígvél sem búið var að sérsauma á mig.“

Tilfinningasveiflurnar geta verið miklar – þegar tilboð koma fyllist maður af lofti og sjálfstraustið fer á flug.

Stígvélin hans Lems Lemoncloaks léku reyndar stórt hlutverk í þáttunum. „Þeim var stolið af Lem og sjást sérstaklega vel í atriðinu. Svo kom reyndar í ljós að aðalfókusinn á stígvélin er þegar sá sem stelur þeim fer í þau, svo þau þurftu að passa á hann en ekki mig. Svo að þessi útpældu og sérsaumuðu stígvél voru ekki einu sinni notuð. Ferðin var fullkomlega tilgangslaus.“ Næsta ferð til Belfast snerist svo um hestamennsku. „Ég var spurður hvort ég kynni að sitja hest, og ég játaði því. Samt var ég beðinn um að koma út á reiðnámskeið, því það átti ekki að taka neina sénsa. Í einni senu kem ég ríðandi á hesti, en það fyndna er að ég sjálfur er á hestinum fimm síðustu skrefin. Í öllum öðrum tökum er áhættuleikarinn á baki. Það er nefnilega ekki hægt að taka neina sénsa á meiðslum, svo gæinn var þarna í eins búningi og ég, dressaður upp með skegg og hárkollu.“

Þægindi og huggulegheit

Jóhannes segir að það sé heilmikil upplifun að vera á setti. „Það er svoleiðis mulið undir leikarana gegndarlaust. Það sem er í rammanum skiptir öllu, umgjörðin öll og svo auðvitað leikarinn. Þess vegna er allt gert til að leikurum líði sem best. Við fáum að sofa á fimm stjörnu hótelum, því við eigum að fá góðan svefn, við erum keyrð um á lúxusbifreiðum, reyndar kannski með tveimur öðrum leikurum, og svo er hver og einn með „trailer“. Stærð og gerð hans fer reyndar eftir virðingarröðinni. Í Kanada var ég til dæmis með stærsta „trailer“ sem ég hef nokkru sinni fengið, með hornsófa og öllu, enda var ég í öðru stærsta hlutverkinu. Í Game of Thrones var ég bara með venjulegan; venjulegan sófa og venjulegan stól. Þar fær maður að slaka á þar til þörf er fyrir mann á setti. Þegar kallið kemur fer maður í „green room“ sem búið er að útbúa til hliðar við settið og þar eru merktir stólar og fínar veitingar og lið sem þjónustar leikarana. Við megum ekkert skreppa og sækja eitthvað því við þurfum að vera tilbúin í tökur – þar kemur til kasta aðstoðarfólksins. Þetta er algjör lúxusmeðferð sem við getum skiljanlega ekki leyft okkur á Íslandi.“

Fasteignasalar á fylleríi

Í Game of Thrones lék Jóhannes talsvert með „Hundinum“, Rory McCann, sem er mikilvæg persóna í þessari stórbrotnu sögu. „Hann var afskaplega góður við okkur strákana. Ég deildi með honum lúxusbifreið og einn daginn vildi hann fara með mér á barinn og kynna Guinness bjór fyrir mér, sem ég hafði aldrei smakkað. Auðvitað fór ég með Rory McCann á barinn, það var ekki spurning. Ég endaði á að drekka sjö Guinness-bjóra, en hann er víst hvergi betri en á Írlandi og ku ekki ferðast sérstaklega vel. Rory var svo mannblendinn og skemmtilegur en honum var ekkert gefið um að fólk vissi hverjir við værum. Í staðinn laug hann að öllum að við værum fasteignasalar. Ef fólk þekkti hann leyfði hann engar myndatökur, enda var algjört leyndarmál á þessum tíma að hann væri í seríunni. Rory er reyndar mjög hrifinn af Íslandi. Hann kom hingað og lék í kvikmyndinni Beowulf, sem var kvikmynduð á Íslandi, og honum líkaði það svo vel að hann var hér í ár í kjölfarið.“

Æðislegir peningar

En Jóhannes, hvernig eru peningarnir?
„O, þeir eru æðislegir,“ segir hann og lygnir aftur augunum. „Reyndar mismunandi. Fyrir næststærsta hlutverkið í stórri bíómynd fær maður til dæmis helling. Í kjölfarið á þannig verkefni getur maður leyft sér að vera afar rólegur. Fyrir Game of Thrones fékk ég nú lægri greiðslu, enda er ekki verið að spreða í hlutverk af þessari stærð þar – þar er spreðað í skó og svoleiðis hluti. Mér datt samt ekki annað í hug en að þiggja hlutverkið.“

Jóhannes kann vel að meta vinnu í ólíkum verkefnum.
Fjölbreytnin er draumastaðan Jóhannes kann vel að meta vinnu í ólíkum verkefnum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Kemur nakinn fram

Í Svartur á leik kom Jóhannes nakinn fram og minnug þess finnst mér kominn tími til að spyrja hvort það sé gaman. „Þetta var mjög skemmtilegt atriði, ég var þessi brjálaði dópsali, eins og dýr, nakinn kjötskrokkur í búri. Ég hef alls ekkert á móti nektarsenum. Samt kostar það meiri vinnu í ræktinni. Maður þarf að miða allt við tökudaginn, þjálfa eins og brjálæðingur og vatnslosa svo þremur dögum fyrir stóra daginn til að verða meira skorinn og láta vöðvana sjást sem mest.“

Ég hef alls ekkert á móti nektarsenum.

Þú hefur ekkert ákveðið að fá þér stera?
„Ég skoðaði þann möguleika reyndar, enda er ég ekki íþróttamaður, en þorði svo ekki. Ég talaði við fjölda vaxtarræktargaura sem þóttust vera miklir sérfræðingar, en þegar læknir útskýrði fyrir mér aukaverkanirnar var ég fljótur að hætta við. Ég geri helst ekki neitt nema að vel athuguðu máli. Svo þurfti ég eiginlega ekki á svona mikilli vöðvastækkun að halda, ég er stór og þurfti bara að losa mig við fitu.“

Jóhannes segist ekki eiga sér draumahlutverk lengur. „Þegar maður var yngri og nýútskrifaður leikari voru ákveðnir hlutir sem maður vildi gera. En eftir því sem ég eldist og þroskast hafa hlutirnir breyst. Sérstaklega eftir að börnin fæddust. Núna er fjölskyldan og uppeldi þeirra í forgangi og vinnan er í öðru sæti og það sem ég vinn við er eiginlega háð tilviljunum. Draumurinn er að fá að halda því áfram og njóta fjölbreytninnar. Það er frábært að þetta gangi núna, en ég veit ekki hversu lengi það varir. Tilfinningasveiflurnar geta verið miklar – þegar tilboð koma fyllist maður af lofti og sjálfstraustið fer á flug, en svo þarf maður að taka höfnun þess á milli.“

Jóhannes á 3 börn ásamt Rósu Björk konu sinni. Ólöf Halla er að verða 8 ára.
Fjölskyldumaður Jóhannes á 3 börn ásamt Rósu Björk konu sinni. Ólöf Halla er að verða 8 ára.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Næsta verkefni Jóhannesar er stórt hlutverk í sjónvarpsþáttum sem unnir verða í samvinnu BBC og Netflix. „Ég þarf að halda skegginu og fer út í lok júlí. Ég get sagt frá því að ég á að leika Skandinava í seríunni, en í prufunni hafði ég eins og vanalega talað bestu ensku sem ég mögulega gat. Eftir það hringdi leikstjórinn í mig því hann vildi athuga hvort ég gæti ekki hljómað aðeins norrænni. Þetta þótti mér mjög vænt um. Djöfull var ég sáttur!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir