fbpx
Fimmtudagur 15.ágúst 2024
Fókus

„Ættum að skammast okkar“

Ole Gunnar Solskjær ræðir möguleika Íslands í riðlinum á EM – Ungverjaland ekki sterkt lið og hentar Íslandi vel – Skil vel ef Eiður hættir eftir EM

Ritstjórn DV
Laugardaginn 4. júní 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eggert Skúlason hitti Ole Gunnar Solskjær þjálfara norska úrvalsdeildarliðsins Molde, sem Eiður Smári Guðjohnsen leikur með. Umræðuefnið var fótbolti. Evrópukeppnin og möguleikar íslenska landsliðsins á að komast upp úr riðlinum.

Aðeins að EM. Ísland mætir Portúgal, Austurríki og Ungverjalandi. Hvaða möguleika telur þú að við eigum á að komast upp úr riðlinum?

„Ég held að þið eigið betri séns en Ungverjaland, það er alveg á hreinu. Ísland er með betra lið en Ungverjaland. Þetta mun verða á milli ykkar og Austurríkis. Ég held að þið eigið betri möguleika á að komast áfram en Austurríki.“

Ertu hreinskilinn þegar þú setur þetta svona fram. Ég skil þig þannig að þú teljir meiri en minni líkur á að Ísland komist upp úr riðlinum?

„Þið eigið góðan möguleika myndi ég segja. Ég vissi ekki hvaða liðum þið voruð með í riðli fyrr en þú þuldir þau upp. Ég hugsaði um leið og þú nefndir Portúgal að þeir fara pottþétt áfram, sérstaklega ef Ronaldo er í stuði. En maður veit aldrei með hann. Austurríki er með tvo til þrjá mjög góða leikmenn. Ég man eftir Christian Fuchs sem vann deildina á Englandi með Leicester og David Alaba hjá Bayern. En samt; Austurríki á ekki að hræða neinn. Ungverjaland er ekki með sérlega gott lið og það hentar Íslandi einstaklega vel. Það er ekki langt síðan Noregur spilaði við þá og þeir eru ekki öflugir. Þið þurfið samt að passa ykkur á þeim. Noregur gerði þau mistök að fara að slást við þá. Við féllum í þá gildru að fara að beita sömu brögðum og þeir, létum hörkuna taka völdin.“

„Ættum að skammast okkar“

Það er svo gaman að velta sér upp úr þessu. Ég verð að spyrja meira út í þetta. Er það ekki hreint kraftaverk að 330 þúsund manna þjóð skuli ná þessum árangri?

„Við höfum ekki komist á lokamótið á EM síðan um aldamót – árið 2000. Við ættum að skammast okkar, þegar við horfum til þess að Íslands spilar í Frakklandi en ekki Noregur. Það segir okkur líka að þið eruð að gera eitthvað rétt en við ekki. Okkar tækifæri ættu að vera miklu fleiri og stærri en Íslands. Auðvitað glíma flest litlu liðin í Noregi við fjárhagsvanda en ég velti oft fyrir mér þeirri staðreynd að við borgum þjálfara sem er að þjálfa áhugamenn í 3. og 4. deild, 200 þúsund norskar (tæpar þrjár milljónir ISK.) En við erum ekki að borga neitt í líkingu við það til þjálfara sem eru að sjá um átta til tólf ára krakkana okkar, en það er einmitt þar sem er mikilvægt að þeir séu að fá góða og markvissa þjálfun frá góðum og menntuðum þjálfurum.“

Hversu mikil áhrif heldur þú að Eiður Smári hafi haft á íslenska knattspyrnu? Að komast jafn langt og hann hefur gert, hvað þýðir það?

„Hann hefur haft mikil áhrif, það er alveg á hreinu. Ég man bara sjálfur hvernig þetta virkaði þegar ég var ungur. Góður vinur minn, sem er tveimur árum yngri en ég, var valinn í U16 landslið Noregs, síðar komst hann einnig í U18. Við æfðum saman flesta daga og suma daga var hann betri en ég og aðra daga var ég betri. Ég mat hann mikils og fannst merkilegur árangurinn sem hann náði. Ég hugsaði einmitt með mér, að fyrst að hann kæmist í unglingalandsliðið hlyti ég að geta það líka. Ég var ekki með mikið sjálfstraust og hef aldrei verið og fann aldrei fyrir þessari ofsatrú á sjálfum mér sem ég hef séð hjá mörgum atvinnumanninum. Mitt markmið þegar ég var unglingur var að komast í aðalliðið í meistaraflokki. En þessi félagi minn hafði komist í landsliðið og það gaf mér trú á að ef ég myndi leggja harðar að mér gæti ég átt möguleika á að vera valinn.

Það er þannig með íslenska knattspyrnumenn. Þeir hljóta að horfa til þess að Eiður komst í Chelsea og svo í eitt besta lið heims, Barcelona. Ég þekki af eigin raun að þá er auðveldara að hugsa. Hann er frá Íslandi og hann gat þetta. Af hverju ætti ég þá ekki líka að eiga möguleika? Við sjáum þetta svo víða. Zlatan í Svíþjóð er fyrirmynd krakka sem hafa átt erfitt uppeldi. Það er svo mikilvægt að eiga fyrirmyndir úr nærumhverfinu. Fyrst hann gat það og hann er frá Íslandi þá ætla ég að reyna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Útskýrir hvernig hún endaði á kynlífsklúbbi í Berlín

Útskýrir hvernig hún endaði á kynlífsklúbbi í Berlín
Fókus
Í gær

Ferðast aftur til Íslands eftir hörmulegt slys – Vilja græða sárin og upplifa Reykjavík

Ferðast aftur til Íslands eftir hörmulegt slys – Vilja græða sárin og upplifa Reykjavík
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég var orðinn 16 ára þegar ég vissi það en kom í raun ekki út af alvöru fyrr en 10 árum síðar“

„Ég var orðinn 16 ára þegar ég vissi það en kom í raun ekki út af alvöru fyrr en 10 árum síðar“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýjar vendingar í „hvarfi“ Nökkva Fjalars

Nýjar vendingar í „hvarfi“ Nökkva Fjalars