Hin 16 ára gamla Calysta Bevier heillaði dómnefnd og áhorfendur í America´s Got Talent upp úr skónum þegar áheyrnarprufur fyrir þáttinn fóru fram síðastliðið þriðjudagskvöld. Var hinn dómharði Simon Cowell svo heillaður af flutningi hennar að hann ýtti á gullhnappinn fræga og kom henni þannig beint áfram í úrslit. Flutti hún lagið „Fight Song“ með Rachel Platten en miðað við fyrri lífsreynslu hinnar ungu söngkonu er ljóst að titill lagsins er einkar viðeigandi.
Calysta kemur frá smábæ í Ohio en áður enhún hóf flutning sinn hafði Howie Mandel orð á því að hún minnti á kvikyndastjörnuna Audrey Hepburn með sitt knallstutta hár. Svaraði Calysta þá að hárgreiðslan hefði ekki verið hennar val, þar sem hún missti hárið vegna krabbameinsmeðferðar eftir að hafa greinst með 3.stigs krabbamein í eggjastokkum.
„Það er alveg sama hvað þú hefur gengið í gegnum. Haltu áfram að elta draumana þína,“ sagði hún síðan áður en hóf flutning sinn.
Uppskar hún standandi lófaklapp í lokin og átti Simon Cowell ekki orð fyrir hæfileikum hennar. „Ég elska allt við þig. Ég er með einhverja ótrúlega góða tilfinningu gagnvart þér. Ég á von á því að það muni stórkostlegir hlutir gerast hjá þér. Það er eitthvað við þig,“ agði hann og hinir dómararnir tóku í sama streng. Sagði Howie Mandel að söngur hennar hefði verið fullur af innblæstri og snert hann að innstu hjartarótum. Þá sagðist Mel B „elska tóninn“ í rödd hinnar ungu baráttukonu, sem átti augljóslega erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum þegar fagnaðarlætin brutust út.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=9msiUy0JN64&w=600&h=480]