Nóttin var erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Um sex leytið í morgun hafði lögreglan afskipti af ökuréttindalausum ökumanni á Háteigsvegi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglunnar.
Ökumaðurinn sem stöðvaður var reyndist vera unglingsstúlka en hún hafði aldrei öðlast ökuréttindi þar sem hún er rétt tæplega 17 ára gömul.
Um fimm leytið í nótt var tilkynnt um tónlistarhávaða berast frá íbúð í fjölbýlishúsi í hverfi 107. Var slökkt á tónlistinni um leið og lögreglan mætti á vettvang.
Um það bil hálftíma síðar var óskað eftir aðstoð lögreglu og sjúkraliðs vegna manns sem hafði orðið fyrir líkamsárás í miðborginni. Hafði hann m.a. verið laminn í andlitið með flösku þannig að hann hlaut skurð á höfðinu. Gerandinn var farinn af vettvangi þegar lögreglu og sjúkralið bar að. Árásarþolinn var fluttur á slysadeild LSH í Fossvogi til skoðunar og aðhlynningar.
Um átta leytið í morgun var karlmaður handtekinn vegna þjófnaðar úr bifreið í hverfi 109. Hafði hann verið þar í félagi við tvo aðra menn sem voru að ganga á milli bifreiða til þess að kanna hvort þær væru ólæstar. Karlmaðurinn fór inn í bifreið sem var ólæst og tók þaðan nokkra muni. Var hann handtekinn skammt frá vettvangi og var hann færður á lögreglustöð til skýrslutöku.