fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

„Þið eigið séns – góðan séns“

Ole Gunnar Solskjær ræðir möguleika Íslands í riðlinum á EM – Ungverjaland ekki sterkt lið og hentar Íslandi vel – Skil vel ef Eiður hættir eftir EM

Ritstjórn DV
Laugardaginn 4. júní 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ole Gunnar Solskjær er þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Molde, sem Eiður Smári Guðjohnsen leikur með. Solskjær er eitt af stóru nöfnunum í enska boltanum enda lék hann með Manchester United í ellefu ár og það á þeim tíma sem veldi Alex Ferguson reis hvað hæst, bæði á Englandi og í Evrópu. Eggert Skúlason hitti þennan glaðlega og unglega þjálfara í Molde á björtum sumardegi. Umræðuefnið var fótbolti. Evrópukeppnin og möguleikar íslenska landsliðsins á að komast upp úr riðlinum og einnig var rætt um Ole Gunnar og hápunktana hjá United.

Ole Gunnar var holdgervingur „ofur varamannsins“ eða „super-sub“ þegar hann lék með Manchester United. Óteljandi sinnum gerðist það að honum var skipt inn á og hann breytti gangi leiksins. Ýmist skoraði eða lagði upp mark eða mörk á síðustu mínútum. Frægasta dæmið er úrslitaleikurinn í Champions League árið 1999. Til úrslita léku Manchester United og þýska stórveldið Bayern München. Vettvangurinn var heimavöllur Barcelona, Nou Camp. Bayern komst yfir á sjöttu mínútu og þannig stóðu leikar allt þar til einungis uppbótatími var eftir. Teddy Sheringham hafði komið inn á fyrir Manchester United á 67. mínútu og Ole Gunnar kom inn sem varamaður á 81. mínútu. Sheringham jafnaði á fyrstu mínútu í uppbótartíma og Ole Gunnar skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndum leiksins.

Ferguson elskaði mig

„Ég vissi alltaf að þegar við vorum undir eða ef staðan var jöfn, þá myndi ég koma inn á seint í leikjunum. Ef við vorum 1–0 yfir vildi hann ekki breyta. Ef við vorum 2–0 yfir vissi ég að ég fengi að spila síðustu 15–20 mínúturnar. Ég var alltaf inni í hans plönum og ég vissi að ég fengi að spila marga leiki á tímabilinu þó að ég væri sjaldnast að byrja. Ferguson elskaði mig og vildi hafa mig í hópnum. Ég fann það alltaf.“

Þú átt nú nokkur augnablik sem íþróttasagan geymir.

„Já, leikurinn gegn Bayern er klassískur. En ég man að í átta liða úrslitum spiluðum við gegn Milan og ég kom ekki inn á eina sekúndu. Í undanúrslitum mættum við Juventus. Það var sama staða. Ég spilaði ekki eina sekúndu. Svo var það í hálfleik í úrslitaleiknum að ég sá að Ferguson var að ræða við Sheringham sem líka sat á bekknum. Ferguson sagði við hann: „Ef við skorum ekki ekki eftir fimmtán til tuttugu mínútur þá skipti ég þér inn á.“ Sheringham hitaði upp og kom svo inn á. Þá varð ég reiður og virkilega fúll. Sheringham var búinn að skora einhver fimm mörk en var búinn að setja sextán. Ég hugsaði með mér: Hvað er að, af hverju skiptir hann mér ekki inn á. Ég fór að hita upp fyrir framan Ferguson og reyndi að ná athygli hans. Ég þoldi ekki að hann skyldi horfa framhjá mér í þessari stöðu. Svo skipti hann mér loks inn á og flestir þekkja framhaldið.“

Morðinginn með barnsandlitið

„Tíu dögum áður höfðum við spilað við Tottenham og vorum undir, en urðum að vinna. Hann kallaði inn á völlinn þegar seinni hálfleikur var byrja og staðan jöfn: „Haldið áfram að spila. Ef þið skorið ekki set ég Ole inn á þegar tíu til fimmtán mínútur eru eftir.“ Það kom ekki til þess. Andy Cole skoraði og við unnum. Samt var ég hamingjusamasti maðurinn á vellinum, því ég vissi þarna að ef á þyrfti að halda myndi ég spila í úrslitaleiknum. Og það kom á daginn.“
Ole Gunnar fékk fljótlega viðurnefnið „Morðinginn með barnsandlitið“ eða „The Baby-faced Assassin.“ Hann kannast við þetta viðurnefni og hlær. „Ég er enn unglegur. Það sést ekki á mér að ég er orðinn 43 ára gamall.“
Blaðamaður viðurkennir að hann líti vel út og viðurkennir líka að öfunda hann vegna þessa. Hann hlær eins og vitlaus maður. „Sjáðu til. Ég gæti hlaupið út á völlinn hér í Molde og liti ekki út fyrir að vera eldri en þessir strákar. Ég er ánægður með það.“

En hvaðan kom þetta viðurnefni?

„Ég átta mig ekki alveg á því. Þetta var hengt á mig strax fyrsta tímabilið sem ég kom til United. Ég var 23 ára gamall og leit út eins og barn. Assassin kom til vegna þess að ég kom inn á, oftast seint í leikjum, og skoraði og gekk frá hinu liðinu. Ég held að blöðin hafi búið þetta til.“

Með betra lið en Ungverjaland

Aðeins að EM. Ísland mætir Portúgal, Austurríki og Ungverjalandi. Hvaða möguleika telur þú að við eigum á að komast upp úr riðlinum?

„Ég held að þið eigið betri séns en Ungverjaland, það er alveg á hreinu. Ísland er með betra lið en Ungverjaland. Þetta mun verða á milli ykkar og Austurríkis. Ég held að þið eigið betri möguleika á að komast áfram en Austurríki.“

Ertu hreinskilinn þegar þú setur þetta svona fram. Ég skil þig þannig að þú teljir meiri en minni líkur á að Ísland komist upp úr riðlinum?

„Þið eigið góðan möguleika myndi ég segja. Ég vissi ekki hvaða liðum þið voruð með í riðli fyrr en þú þuldir þau upp. Ég hugsaði um leið og þú nefndir Portúgal að þeir fara pottþétt áfram, sérstaklega ef Ronaldo er í stuði. En maður veit aldrei með hann. Austurríki er með tvo til þrjá mjög góða leikmenn. Ég man eftir Christian Fuchs sem vann deildina á Englandi með Leicester og David Alaba hjá Bayern. En samt; Austurríki á ekki að hræða neinn. Ungverjaland er ekki með sérlega gott lið og það hentar Íslandi einstaklega vel. Það er ekki langt síðan Noregur spilaði við þá og þeir eru ekki öflugir. Þið þurfið samt að passa ykkur á þeim. Noregur gerði þau mistök að fara að slást við þá. Við féllum í þá gildru að fara að beita sömu brögðum og þeir, létum hörkuna taka völdin.“

Skynsemi ekki átök

Noregur mætti Ungverjum í umspili fyrir EM og tapaði báðum leikjunum 0–1 og 2–1. Með þessum sigrum í nóvember í fyrra tryggði Ungverjaland sér þátttökurétt í lokamótinu í Frakklandi.

„Þegar þið mætið Ungverjum þá skiptir miklu máli fyrir ykkur að hafa snjalla leikmenn eins og Eið. Hann er kannski ekki sá öflugasti í tæklingunum en hann kann að finna samherja fram á við og sendingarnar hans gætu gert gæfumuninn. Sjáðu svo mann eins og Finnbogason [Alfreð], sem ég tel frábæran í hlaupum og í að koma róti á vörn andstæðingsins og skora mark. Þetta yrði mitt upplegg fyrir leikinn ef ég væri að þjálfa íslenska liðið. Þið eigið líkamlega sterkt lið en þurfið að sýna skynsemi. Ég myndi horfa til Eiðs hvað það varðar. Jafnvel bara síðasta hálftímann.“

Hversu mikilvægt er fyrir Ísland að hafa jafn reynslumikinn þjálfara og Lars Lagerbäck þegar kemur að lokakeppninni?

„Reynsla hans skiptir máli. Hann er líka mjög skipulagður og hefur ákveðnar reglur. En það er ekki síður mikilvægt að ná að skapa stemninguna – andrúmsloftið – til að fá það besta út úr liðinu. Þegar lið nær því að fara á svona mót og getur notið þess í botn og notið þess saman þá gerast oft ótrúlegir hlutir. Endalausar reglur geta hreinlega drepið niður þennan dýrmæta neista. Maður verður að treysta leikmönnum upp að vissu marki. Þjálfarinn þarf að leyfa leikmönnum að njóta sín og jafnvel skemmta sér.“
Barnslega andlitið verður virkilega glaðlegt og hann rifjar upp með sjálfum sér. Svo segir hann: „Manstu þessa tíu daga sem ég nefndi við þig áðan, áður en við fórum í úrslitaleikinn við Bayern?“

Uhhh já, ég man þá.

Þrjú partí fram að úrslitaleik

„Við spiluðum við Tottenham tíu dögum áður. Unnum svo Newcastle og urðum bikarmeistarar. Við þurftum að halda upp á allt þetta. Ég ætti náttúrlega ekki að segja þetta en við héldum þrjú alvöru partí þessa daga, áður en við fórum á Camp Nou í úrslitaleikinn við Bayern. Tottenham leikurinn var á laugardegi þannig að við héldum partí bæði laugardags- og sunnudagskvöld. Laugardaginn þar á eftir lékum við bikarúrslitaleik við Newcastle svo við djömmuðum á laugardagskvöldi og svo var það leikurinn við Bayern á miðvikudegi. Þarna snerist þetta ekki aga, heldur miklu frekar að vera saman og vera samstilltur hópur, sem náði árangri.“

Hversu stórt er það í knattspyrnuheiminum, að svo lítið land eins og Ísland komist í lokakeppni?

„Það er að mínu viti risastórt. Eitt í þessu samhengi sem skiptir gríðarlegu máli er að þetta eykur svo áhuga yngri krakka á íþróttinni. Við upplifðum þetta hér í Noregi þegar við komumst á lokamót HM árið 1994. Við sáum mikla fjölgun í hópi barna og unglinga sem iðkuðu knattspyrnu og það er svo gott að hafa fyrirmyndir. Þetta unga fólk sá að við gátum gert þetta. Það skiptir afar miklu máli. Þið hafið séð þetta, Íslendingar, með handknattleikslandsliðið ykkar að góður árangur skiptir svo miklu máli fyrir yngri iðkendur. Við unnum til dæmis Brasilíu á HM 1998. Þess háttar árangur eykur trú allra á sjálfum sér.“

„Ættum að skammast okkar“

Það er svo gaman að velta sér upp úr þessu. Ég verð að spyrja meira út í þetta. Er það ekki hreint kraftaverk að 330 þúsund manna þjóð skuli ná þessum árangri?

„Við höfum ekki komist á lokamótið á EM síðan um aldamót – árið 2000. Við ættum að skammast okkar, þegar við horfum til þess að Íslands spilar í Frakklandi en ekki Noregur. Það segir okkur líka að þið eruð að gera eitthvað rétt en við ekki. Okkar tækifæri ættu að vera miklu fleiri og stærri en Íslands. Auðvitað glíma flest litlu liðin í Noregi við fjárhagsvanda en ég velti oft fyrir mér þeirri staðreynd að við borgum þjálfara sem er að þjálfa áhugamenn í 3. og 4. deild, 200 þúsund norskar (tæpar þrjár milljónir ISK.) En við erum ekki að borga neitt í líkingu við það til þjálfara sem eru að sjá um átta til tólf ára krakkana okkar, en það er einmitt þar sem er mikilvægt að þeir séu að fá góða og markvissa þjálfun frá góðum og menntuðum þjálfurum.“

Hversu mikil áhrif heldur þú að Eiður Smári hafi haft á íslenska knattspyrnu? Að komast jafn langt og hann hefur gert, hvað þýðir það?

„Hann hefur haft mikil áhrif, það er alveg á hreinu. Ég man bara sjálfur hvernig þetta virkaði þegar ég var ungur. Góður vinur minn, sem er tveimur árum yngri en ég, var valinn í U16 landslið Noregs, síðar komst hann einnig í U18. Við æfðum saman flesta daga og suma daga var hann betri en ég og aðra daga var ég betri. Ég mat hann mikils og fannst merkilegur árangurinn sem hann náði. Ég hugsaði einmitt með mér, að fyrst að hann kæmist í unglingalandsliðið hlyti ég að geta það líka. Ég var ekki með mikið sjálfstraust og hef aldrei verið og fann aldrei fyrir þessari ofsatrú á sjálfum mér sem ég hef séð hjá mörgum atvinnumanninum. Mitt markmið þegar ég var unglingur var að komast í aðalliðið í meistaraflokki. En þessi félagi minn hafði komist í landsliðið og það gaf mér trú á að ef ég myndi leggja harðar að mér gæti ég átt möguleika á að vera valinn.
Það er þannig með íslenska knattspyrnumenn. Þeir hljóta að horfa til þess að Eiður komst í Chelsea og svo í eitt besta lið heims, Barcelona. Ég þekki af eigin raun að þá er auðveldara að hugsa. Hann er frá Íslandi og hann gat þetta. Af hverju ætti ég þá ekki líka að eiga möguleika? Við sjáum þetta svo víða. Zlatan í Svíþjóð er fyrirmynd krakka sem hafa átt erfitt uppeldi. Það er svo mikilvægt að eiga fyrirmyndir úr nærumhverfinu. Fyrst hann gat það og hann er frá Íslandi þá ætla ég að reyna.“

Erfiðara en að verða páfi

„Þegar ég samdi við Manchester United skrifaði eitt dagblaðið hér í Noregi. „Að komast frá Kristjanssund til Manchester United er erfiðara en að ætla að verða næsti páfi.“ Það sama á við um Eið. Hann hefur brotið niður veggi og fært landamæri fyrir íslenska knattspyrnumenn.“

Hver verður framtíð Eiðs hjá Molde eftir EM?

„Ég skil ef hann vill hætta eftir EM.“ Solskjær slær saman höndum eins og hann sé að losa sig við mylsnu eða eða eitthvert kusk. „Ef hann segir: „Ég er búinn að fá nóg.“ Þá skil ég hann hundrað prósent. Gulrótin hans og hvatningin hefur verið EM. Hann er búinn að vera tvo áratugi með íslenska landsliðinu og loksins er liðið komið í lokakeppni og hann vill taka þátt í því ævintýri. Ef hann er hins vegar tilbúinn að halda áfram mun ég gera allt sem hugsast getur til að halda í hann. Ég verð tilbúinn að gefa honum það frí sem hann þarf til að hitta fjölskylduna í Barcelona og tilbúinn að gefa honum frí frá leikjum sem ég tel mig geta unnið án hans. Þetta er eitt sem ég lærði af Alex Ferguson og það er að treysta leikmönnum og reyna frekar að vinna með þeim. Ég vona hins vegar innilega að hann finni áfram áhuga hjá sér á að spila með okkur, því ég hef séð hversu frábær áhrif hann hefur haft á leikmennina og sérstaklega þá yngri.“

Hvað með samninginn hans? Gengur það að hann hætti bara?
„Hann er með samning til árs í viðbót, en ef hann upplifir eftir EM að hann hafi ekki að neinu að keppa skil ég hann vel og hann getur þá farið. Ég vona hins vegar að við getum áfram notið krafta hans. Ég sagði við hann í upphafi: „Komdu til Molde og hjálpaðu mér með þessa ungu stráka og ég skal hjálpa þér til að vera í frábæru formi og komast á EM.“ Ég mun virða þá ákvörðun sem hann tekur að lokinni lokakeppninni, hver sem hún verður. Við höfum þegar rætt þetta aðeins og hann fer í frí eftir EM og ég þekki það að menn eru oft tómir eftir svona risaáskorun. Spennan sem hefur verið svo lengi til staðar er loksins horfin og hann þarf að vega og meta hvort það sé enn áhugi hjá honum að halda áfram eða hvort hann vill leggja skóna á hilluna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir