fbpx
Fimmtudagur 15.ágúst 2024
Fókus

Sigríður Elva: „Skyndilega hafði ég svo mikla framkvæmdaorku og gat skipulagt mig“

Líður best í kollsteypu á 300 km hraða – Myndi ekki vilja búa með sjálfri sér – Smíðar listflugvél í frístundum

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 19. júní 2016 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir var fastagestur á sjónvarpsskjáum landsmanna í áratug á meðan hún starfaði við dagskrárgerð á Stöð 2. Svo var hún rekin og breyttist í flugvélanörd. Ragnheiður Eiríksdóttir hitti Siggu í spjalli um háloftin, drauminn um að verða geimfari, strögglið við að haga sér eins og fullorðin manneskja og ýmislegt fleira.

Hin öra Sigríður

Eins og, hér um bil, alþjóð veit, er Sigga greind með ofvirkni og athyglisbrest, ADHD. Hún tók þátt í rómuðum sjónvarpsþáttum Lóu Pind, Örir Íslendingar, þar sem nokkrum fullorðnum einstaklingum með sjúkdóminn var fylgt eftir. Þættirnir fóru í loftið í vikunni áður en Sigga var rekin. Hún segist þó ekki hafa haft miklar áhyggjur af tímasetningunni.

Við höldum áfram að spjalla um ADHD-greininguna hennar Siggu.

„Mig langaði að prófa að fara á lyf, þess vegna ákvað ég á gamals aldri að fara í formlega greiningu. Ég var uppátækjasöm sem krakki, dálítið uppi um alla veggi. Ég var aldrei send í greiningu því mér gekk mjög vel í skóla og námið lá vel fyrir mér. Ég fann dagbók um daginn með umsögn kennarans míns frá því í sjö ára bekk. Þar segir að ég sé mjög hugmyndarík en mætti gera meira af því að klára verkefnin. Svona hef ég alltaf verið. Alltaf drasl og kaos í kringum mig. Ég var auðvitað búin að vera að grínast með þennan kvilla í mörg ár áður en ég var greind. Það getur verið erfitt að vera fullorðin manneskja sem getur ekki hagað sér eins og fullorðin manneskja. Fólk gerir ráð fyrir að manneskja á mínu reki opni póst og svari í síma og vaski upp.“

Þeytispjaldið í höfðinu

Sigga fór á lyf og er á þeim núna. Þau hjálpa til, en stóðu kannski ekki alveg undir væntingum.

„Já og nei. Upplifunin var rosaleg til að byrja með. Skyndilega hafði ég svo mikla framkvæmdaorku og gat skipulagt mig. Ég hengdi upp jólaseríur, vaskaði upp og skúraði sem aldrei fyrr og náði að gera allt rosalega vel. Svo með tímanum dvínuðu áhrifin. Ég finn samt að ef ég sleppi lyfjunum í einhvern tíma fer þeytispjaldið í höfðinu í gang aftur og ég næ ekki að festa fókus á neitt. Persónuleikinn breytist heldur ekki á því að taka pillur. Ég er sama manneskja og hef ekkert gaman af því að opna póst og vaska upp. Ef ég þarf að sitja við eitthvað og halda mig að verki gera lyfin heilmikið.“

Hún prófaði líka á tímabili að vera hjá markþjálfa. „Það gerði mikið gagn. Ég fékk hjálp við að búa til kerfi utan um lífið og koma hlutum í verk. Annars er mín besta meðferð fólgin í listfluginu, fyrir utan lyfin.“ Með því á Sigga við að listflugið veitir henni hugarró sem hún finnur ekki annars staðar. „Kosturinn við allt sem kemur adrenalíninu í líkamanum af stað er að maður neyðist til að vera í núinu. Ég er ekki að hugsa um uppvaskið á 300 kílómetra hraða lóðrétt niður á jörð. Það er bara á svoleiðis augnablikum sem ég get stundað það sem menn kalla núvitund. Flugið er tilraun mín til hugleiðslu, mitt jóga. Bara miklu skemmtilegra. Margir lýsa þessu sama, sérstaklega fólk sem er svipað innréttað og ég. Það róar svo hugann að fá þennan gríðarlega fókus. Mig grunar að margir af vinum mínum sem hafa sama áhugamál þyrftu ekki að stoppa lengi inni hjá geðlækni til að fá greiningu. Líklega er þetta einhvers konar tilraun til að ráða við ástandið. Ég ætti að gefa út sjálfshjálparbókina Hvernig á að öðlast innri ró á 300 km hraða í kollsteypu. Hún yrði líklega metsölubók. Svo er þetta meinhollt fyrir líkamann líka. Listflug setur alls konar álag á blóðrásina og vöðvana og stundum hef ég stigið út úr flugvélinni með harðsperrur. Þetta er jóga fyrir fólk sem nennir ekki í jóga.“

Sumir eru hissa á áhugamáli Siggu og kalla hana áhættusækinn spennufíkil.

„Margir halda að þetta sé stórhættulegt og að ég beri innra með mér einhvers konar dauðaósk. Það er samt ekkert hættulegt við það að fljúga á hvolfi, ef maður snýr vélinni aftur við fyrir lendingu. Í fluginu er fólk með hugann við það sem það er að gera, og búið að hugsa allt fyrirfram. Það er frekar áhættuhegðun að sitja í Yarisnum sínum og keyra á 100 á einbreiðum vegi og tala í símann á meðan. Ég er temmilega bílhrædd og það er fullkomlega rökréttur ótti. Fólk er í mun meiri hættu í sínu daglega lífi en í listfluginu, eins og sannaðist heldur betur þegar ég fótbrotnaði í eldhúsinu hjá mömmu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Útskýrir hvernig hún endaði á kynlífsklúbbi í Berlín

Útskýrir hvernig hún endaði á kynlífsklúbbi í Berlín
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ferðast aftur til Íslands eftir hörmulegt slys – Vilja græða sárin og upplifa Reykjavík

Ferðast aftur til Íslands eftir hörmulegt slys – Vilja græða sárin og upplifa Reykjavík
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég var orðinn 16 ára þegar ég vissi það en kom í raun ekki út af alvöru fyrr en 10 árum síðar“

„Ég var orðinn 16 ára þegar ég vissi það en kom í raun ekki út af alvöru fyrr en 10 árum síðar“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýjar vendingar í „hvarfi“ Nökkva Fjalars

Nýjar vendingar í „hvarfi“ Nökkva Fjalars