Ólafur Ragnar og Dorrit á fyrsta bollanum – Vigdísarbolli í bígerð
Loksins hafa Íslendingar eignast sína útgáfu af „konunglegum minjagripum.“ Fyrsti vísir að þessu er minningarbolli um Ólaf Ragnar Grímsson forseta – í tilefni 20 ára forsetatíðar hans. Glæsileg mynd af forsetahjónunum í fullum skrúða, fyrir framan Alþingishúsið, prýðir bollann eða drykkjarfantinn. Það er BF – útgáfa ehf. sem stendur fyrir framleiðslu á bollanum. Forsvarsmaður þar er Jónas Sigurgeirsson.
„Þetta er bolli sem sver sig mjög í ætt við konunglegu minjagripabollana sem eru í boði í flestum nágrannalöndum okkar. Tími til kominn að við Íslendingar getum einnig boðið ferðamönnum og auðvitað líka landsmönnum upp á þessa vinsælu vöru,“ sagði Jónas í samtali við DV í gær, fimmtudag.
Dreifing á bollunum stendur nú yfir og voru þeir komnir í margar verslanir Eymundsson í gærdag. Jónas gerir ráð fyrir fleiri bollum í framtíðinni með merkum Íslendingum, til dæmis með mynd af Vigdísi Finnbogadóttur.
En hvað með næsta forseta? Ertu búinn að spá í bollann?
„Jú, það kemur mjög til greina, en við metum auðvitað viðtökurnar á bollanum með Ólafi og Dorrit okkar áður en við hendum í framleiðslu á nýjum forseta.“
Jónas segist hafa fengið góð viðbrögð hjá þeim sem hann hefur sýnt bollann. „Viðbrögðin hafa verið framar vonum – það er almenn ánægja með þessa bolla, sem eru auk þess hinir vönduðustu.“