fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Fréttir

Nýjar reglur FME hefðu girt fyrir milljarða bónusa

Starfsmönnum fjármálafyrirtækja óheimilt að fá kaupauka frá þriðja aðila – Hefði hindrað afhendingu hlutabréfa til starfsfólks Landsbankans

Ritstjórn DV
Föstudaginn 3. júní 2016 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðeins fimm mánuðum eftir að íslenska eignaumsýslufélagið ALMC, áður Straumur-Burðarás fjárfestingabanki, innti af hendi meira en þrjá milljarða króna í bónusgreiðslur til fjölmargra núverandi og fyrrverandi starfsmanna félagsins hafa nú tekið gildi nýjar reglur Fjármálaeftirlitsins um kaupaukakerfi sem gera starfsfólki fjármálafyrirtækja óheimilt að fá greiddan kaupauka frá þriðja aðila. Á meðal þeirra sem fengu í sinn hlut háar bónusgreiðslur frá ALMC, eins og áður hefur verið upplýst um í DV, voru núverandi starfsmenn Kviku fjárfestingabanka og Fossa markaða. Ef hinar nýju reglur FME hefðu á þeim tíma verið gengnar í gildi hefðu þessir starfsmenn fjármálafyrirtækjanna því ekki mátt taka við slíkum greiðslum frá ALMC. Bónusgreiðslur til þeirra námu yfir hundrað milljónum króna á mann.

Samkvæmt breyttum reglum um kaupaukakerfi, sem stjórn FME samþykkti þann 13. apríl síðastliðinn og voru birtar í Stjórnartíðindum mánuði síðar, hefðu starfsmenn Landsbankans sömuleiðis ekki mátt taka við hlutabréfum í bankanum sem slitabú gamla Landsbankans (LBI) framseldi vorið 2013. Starfsmenn Landsbankans og dótturfélaga hans eiga í dag um eitt prósent af heildarhlutafé bankans. Ef tekið er mið af bókfærðu eiginfé Landsbankans, sem var um 268 milljarðar króna í lok fyrsta ársfjórðungs, er sá hlutur metinn á tæplega 2,7 milljarða.

Reglur FME giltu

Afhending hlutabréfanna var hluti samkomulags um fjárhagsuppgjör milli Landsbankans og LBI í árslok 2009. Þar var meðal annars kveðið á um að bankinn skyldi koma á kaupaukakerfi fyrir starfsmenn, að kröfu slitabúsins, sem tæki mið af verðþróun tiltekinna eignasafna sem lágu til grundvallar ákvörðun um fjárhæð skilyrts skuldabréfs upp á 92 milljarða og var gefið út til LBI í apríl árið 2013. Við útgáfu skuldabréfsins til LBI þurfti slitabúið samtímis að afhenda íslenska ríkinu 18,7% hlut sinn í Landsbankanum í samræmi við samkomulagið frá 2009. Því framsali fylgdu jafnframt þau skilyrði að eignarhlut slitabúsins yrði að hluta til ráðstafað til starfsmanna Landsbankans þannig að þeir fengju allt að tvö prósent af heildarhlutafé bankans.

Á hluthafafundi í lok mars 2013 var samþykkt að bankanum væri heimilt að taka við hlutabréfunum frá LBI og í kjölfarið var ákveðið að við úthlutun bréfanna til starfsmanna yrði tekið mið af reglum FME um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja. Þær reglur kveða meðal annars á um að starfsmenn megi ekki fá meira en sem nemur 25% af árslaunum sínum í bónusgreiðslur á ári hverju. Fjöldi afhentra hluta til starfsmanna bankans var hlutfallslegur og miðaðist við föst laun og þann tíma sem hver starfsmaður hafði unnið hjá Landsbankanum frá 15. desember 2009 til 31. mars 2013. Í einhverjum tilfellum var verðmæti þess hluta, sem starfsmönnum var úthlutað, umfram 25% af árslaunum þeirra og var sá mismunur því afhentur til þeirra árið eftir.

Breytingin „tiltölulega skýr“

Fjármálaeftirlitið tilkynnti um hinar nýju reglur um kaupaukakerfi á vefsíðu sinni þann 23. maí en þær koma í kjölfar frumvarps fjármálaráðherra um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, sem byggðist á heildarendurskoðun ESB á regluverki um starfsemi fjármálastofnana (CRD IV), sem var samþykkt á Alþingi síðastliðið sumar. Auk þess að starfsmönnum er núna gert óheimilt að fá kaupauka fyrir tilstilli þriðja aðila þá fela breytingarnar meðal annars í sér að starfsmenn eignarhaldsfélaga á fjármálasviði eru felldir undir reglur FME um kaupaukakerfi. Þá er hámarksgreiðsla við ráðningu starfsmanns fjármálafyrirtækis lækkuð úr 60% af árslaunum í 25%.

Í svari við skriflegri fyrirspurn DV vildi FME ekki svara því beint hvort þeir einstaklingar, sem voru starfandi hjá fjármálafyrirtækjum þegar milljarða kaupaukagreiðslur ALMC voru inntar af hendi í lok síðasta árs, hefði verið óheimilt að taka við slíkum greiðslum ef hinar nýju reglur FME hefðu þá þegar tekið gildi. Fjármálaeftirlitið segir hins vegar í svari sínu að þessi breyting á reglunum sé „tiltölulega skýr“ þar sem þær þýði að „starfsmönnum fjármálafyrirtækja sem undir reglurnar heyra er óheimilt að taka á móti kaupaukagreiðslu frá þriðja aðila.“ Þá bendir FME á að þetta nýja ákvæði eigi sér skírskotun í kafla 10.2, sem fjallar um sniðgöngu við reglur um kaupaukakerfi, í viðmiðunarreglum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA).

FME taldi ekki þörf á reglum 2013

Við afhendingu hlutabréfa til starfsmanna Landsbankans var ákveðið að taka mið af reglum FME sem giltu um kaupakerfi fjármálafyrirtækja. Þess var hins vegar í reynd ekki þörf enda var það þriðji aðili, slitabú gamla Landsbankans (LBI), sem framseldi þessa hluti til starfsmanna en ekki nýi Landsbankinn.

Í tillögum um reglur um afhendingu bréfanna til starfsmanna, sem var lögð fram til samþykktar á hluthafafundi þann 17. júlí árið 2013, var þannig sérstaklega bent á að FME hefði „staðfest við Landsbankann að það líti ekki svo á að um sé að ræða formlegt kaupaukakerfi í skilningi reglna Fjármálaeftirlitsins […] Samt sem áður fer afhending hlutabréfa fram í samræmi við kaupaukareglur FME eins og þær eru á hverjum tíma“. Þremur árum síðar hefur FME komist að þeirri niðurstöðu að slíkar kaupaukagreiðslur til starfsmanna fjármálafyrirtækja frá þriðja aðila séu með öllu óheimilar.

Í aðdraganda þess að afhending hlutabréfanna fór fram höfðu stjórnendur Landsbankans væntingar um að fá hlutfallslega mun stærri eignarhlut í bankanum en varð niðurstaðan þar sem slíkt hefði ekki brotið í bága við þágildandi reglur um kaupauka fjármálafyrirtækja. Samkvæmt heimildum DV var það hins vegar eindregin afstaða Bankasýslu ríkisins, sem heldur utan um 98% hlut ríkissjóðs í bankanum, að miða skyldi við reglur FME um að slíkar bónusgreiðslur mættu ekki nema meira en 25% af árslaunum og eins að allir starfsmenn myndu eignast hlut í bankanum.

Þeir starfsmenn Landsbankans sem eiga stærstan hlut í bankanum í dag eru þeir Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála, Helgi Teitur Helgason, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs, og Árni Þór Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Í árslok 2015 áttu þeir hver um sig 528.732 hluti í bankanum en miðað við bókfært eigið fé bankans er sá hlutur metinn á um sex milljónir króna.

Engar reglur um bónusa ALMC

Bónusgreiðslur til fjölda núverandi og fyrrverandi starfsmanna ALMC námu samtals um 3,6 milljörðum króna. Fjórir æðstu stjórnendur félagsins, eins og upplýst var um í DV þann 6. maí síðastliðinn, fengu næstum helminginn af allri þeirri fjárhæð. Þar var um að ræða forstjórann Daniel Svanström auk stjórnarmannanna Óttars Pálssonar, Christophers Perrin og Andrews Bernhardt. Á meðal þeirra sem fengu hlutfallslega hæstu bónusgreiðslurnar frá ALMC var Jakob Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingabanka, en hann gegndi starfi fjármálastjóra ALMC fram til ársins 2013. Jakob hætti sem forstjóri Straums í júní 2015 en áður hafði náðst samkomulag um að hann yrði annar af tveimur forstjórum sameinaðs banka MP og Straums.

Ólíkt því sem á við um íslensk fjármálafyrirtæki þá gilda engar reglur um bónusgreiðslur til starfsfólks eignaumsýslufélags á borð við ALMC. Í hópi þeirra sem voru hluti af kaupaukakerfi ALMC voru hins vegar, sem fyrr segir, einnig starfsmenn fjármálafyrirtækja þegar bónusinn var greiddur út um miðjan desembermánuð síðastliðinn. Þar er meðal annars um að ræða Birnu Hlín Káradóttir, yfirlögfræðing Fossa markaða, og Magnús Inga Einarsson, framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarsviðs Kviku fjárfestingabanka. Með hinum nýju reglum FME hefur núna verið girt fyrir þann möguleika að sambærileg staða komi upp að nýju þar sem starfsmenn fjármálafyrirtækja geta tekið á móti slíkum bónusgreiðslum frá þriðja aðila.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Gaf Díegó í jólagjöf

Nýlegt

Bellingham valinn bestur
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Birna átti von á 40 gestum í veislu þegar hún kom að læstum dyrum – „Hefði drepið einhvern þarna á BlackBox Pizzeria að láta mig vita?“

Birna átti von á 40 gestum í veislu þegar hún kom að læstum dyrum – „Hefði drepið einhvern þarna á BlackBox Pizzeria að láta mig vita?“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum
Díegó fundinn
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Martröð í París: Óprúttnir aðilar hirtu rúma hálfa milljón af debetkorti Íslendings – Góðverkið dró dilk á eftir sér

Martröð í París: Óprúttnir aðilar hirtu rúma hálfa milljón af debetkorti Íslendings – Góðverkið dró dilk á eftir sér
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Missti firmaheitið sitt í hendur Kynnisferða og ásakar ráðuneytið – „Ótrúlega ábyrgðalaus stjórnsýsla“

Missti firmaheitið sitt í hendur Kynnisferða og ásakar ráðuneytið – „Ótrúlega ábyrgðalaus stjórnsýsla“
Fréttir
Í gær

Fjölskylda í sárum eftir stórþjófnað í nótt – Tóku bíl sonarins og hreinsuðu verðmæti úr bíl fjölskylduföðurins

Fjölskylda í sárum eftir stórþjófnað í nótt – Tóku bíl sonarins og hreinsuðu verðmæti úr bíl fjölskylduföðurins
Fréttir
Í gær

Lögreglumenn ráku upp stór augu á Sæbraut og fengu skýringar á fyrirbærinu frá Stjörnu-Sævari –

Lögreglumenn ráku upp stór augu á Sæbraut og fengu skýringar á fyrirbærinu frá Stjörnu-Sævari –