„Pétur Marteinsson var ein stór hörmung,“ segir Benedikt Bóas
„Mig vantar nördaþáttinn. Mig vantar taktíkina,“ segir Benedikt Bóas Hinriksson, blaðamaður á Morgunblaðinu og sérlegur áhugamaður um fótbolta. Benedikt er ekki par hrifinn af umfjöllun Símans um Evrópumótið í fótbolta sem hófst á föstudag. Hann var gestur í útvarpsþættinum Brennslan á FM957 í morgun þar sem hann gagnrýndi hvernig staðið er að málum hjá Sjónvarpi Símans.
Benedikt starfar sem fyrr segir á Morgunblaðinu og sagði hann í þættinum í morgun að gleymst hafi að kaupa áskrift að mótinu á vinnustað hans. Því hafi starfsmenn gert sér að góðu að horfa á umfjöllun BBC að hluta um helgina. Benedikt sagði að þá hefði hann fengið allt annað sjónarhorn á mótið, þar hefði verið kafað ofan í öll smáatriði og fótboltaaðdáendur fengið eitthvað fyrir sinn snúð.
„Í grunninn er þetta fótboltamót, ekki mannlífsrannsóknir,“ segir Benedikt sem benti á að umfjöllun Sumarmessunnar á Stöð 2 Sport í gærkvöldi hefði verið miklu betri en þáttur Símans, EM 2016 á 30 mínútum. Þar hefði Arnar Grétarsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í fótbolta, farið vandlega yfir atriði sem komu leiknum við. Til samanburðar hafi Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska landsliðsins, farið yfir myndirnar sínar á Instagram í þætti Símans.
„Það sem mér finnst vanta í þetta EM á 30 mínútum er að þau sleppa svo auðveldlega. Þau fara „the easy way out“. Þetta er ekkert vandað og þetta er bara lélegt,“ sagði Benedikt. Hann kvaðst þó skilja það að fjölmargir, ekki bara forfallnir fótboltafíklar, horfi á EM í fótbolta og því þurfi dagskrárgerðin að taka mið af því. „Þú mátt samt alveg vera með einhvern fótboltamann sem bendir á að Toni Kroos hafi átt fótboltaleik allra fótboltaleikja í gær. Það má alveg líka,“ sagði Benedikt.
Það vakti athygli þegar Guðmundur Benediktsson og Pétur Marteinsson lýstu opnunarleik mótsins í sameiningu. Guðmundur er þekktur fyrir fjörugar lýsingar í enska boltanum og í Meistaradeild Evrópu á Stöð 2 Sport.
„Gummi Ben er náttúrulega í sérklassa þegar kemur að því að lýsa. Pétur Marteinsson var ein stór hörmung. Um það verður held ég ekki deilt. Það var svo augljóst að þeir voru ekki búnir að æfa sig,“ sagði Benedikt sem benti á að þeir Guðmundur og Pétur virðist ekki hafa samhæft sig, það er komið upp merkjum sín á milli um hvenær Pétur ætti að koma inn í lýsinguna. „Það er búið að kosta miklu til og þá þýðir ekki að segja bara: „Vá, ég er hipster og ég er með mottu og ég á Kaffi Vest og allir elska mig. Það er ekki þannig,“ sagði Benedikt.
Loks ræddi Benedikt um þátt Gísla Marteins í lýsingunni á leik Englands og Rússlands.
„Ég var einmitt að hugsa þegar það kom, ég fæ svona á tilfinninguna eins og að þeir hafi verið að hittast hipseterarnir, með buxurnar upp og vel girtir og hjálmlausir á borgarhjólum og segja: „Svo er EM og við vinirnir ætlum að tækla þetta,“ sagði Benedikt. Benedikt fannst þó ekki allt vonlaust. Hann og stjórnendur Brennslunnar, þeir Hjörvar Hafliðason og Kjartan Atli Kjartansson, sammæltust um að það væri vel heppnað að senda út frá miðbænum, þar sem Þorsteinn Joð og gestir hans koma sér fyrir undir berum himni á þaki hótels í miðborginni. „Þetta er svolítið töff. Þetta kemur vel út.“