„Sem betur fer virðist þú ekki hafa mikið fylgi en bara það ef ein kona týnir lífi sínu af því að hún ákveður að prófa heilun í staðinn fyrir hefðbundin læknavísindi vegna þín, þá er skaðinn af þessu framboði þínu orðinn óbætanlegur,“ segir Bjarney Bjarnadóttir og ávarpar þar Hildi Þórðardóttur forsetaframbjóðanda í grein á Bleikt. Hildur birti umdeilda færslu á bloggsíðu sinni þar sem hún meðal annars gagnrýndi nútíma læknavísindi og þær konur sem láta fjarlægja brjóst sín vegna krabbameins. Sjálf missti Bjarney móður sína úr brjóstakrabbameini, auk þess sem hún er BRCA arfberi og gagnrýnir hún því þessi ummæli Hildar.
Líkt og fram kemur í grein Stundarinnar í janúar greinir Hildur frá því í bloggfærslunni að nútíma vísindi séu á villigötum og uppruna krabbameins megi finna í „orkulíkamanum.“
Þá telur hún að „orkustíflur í hjartastöð“ geti átt rót sína í fyrri lífum. Segir hún að orsakir krabbameins megi ekki til genamengis heldur tilfinninga og „orku“. Þá sagðist hún telja að ekki væri hægt að koma í veg fyrir brjóstakrabbamein með því að fjarlæga brjóst. Krabbameinið leiti annað þar sem vandamálið sé í „orkustöðinni“:
„Því er sorglegt þegar konur láta fjarlægja brjóstin af ótta við brjóstakrabbamein þótt hið meinta brjóstakrabbameinsgen finnist í þeirra mengi. Þar sem vandamálið er í orkustöðinni mun það bara finna sér annan farveg á þessu svæði ef ekkert er gert. Konur fá þá lungnakrabbamein í staðinn eða hjartaáfall. Genarannsóknir eru á villigötum því það eru engin gen sem valda sjúkdómum. Niðurstöður þeirra valda fólki óþarfa ótta og hvetja til misþyrminga á líkamanum. Eftir einhvern tíma munu vísindamenn komast að því að þeir höfðu rangt fyrir sér, en þá verður það of seint fyrir þær konur sem létu fjarlægja brjóstin með alls kyns eftirkvillum,“
ritaði forsetaframbjóðann meðal annars en í viðtali við útvarpsþáttinn Harmageddon kvaðst hún standa við hvert orð í færslunni.
DV greindi einnig frá því í janúar síðastliðnum að Hildur hefði eytt færslu af bloggi sínu eftir að hún tilkynnti um forsetaframboðsitt en í þeirri færlsu fjallaði hún um fyrra líf sitt á Englandi fyrir 200 árum:
„Nýlega varð ég þeirrar reynslu aðnjótandi að upplifa næstum 200 ára sorg vegna makamissis úr fyrra lífi í Englandi. Það kom mér á óvart hvað sorgin var mikil og ég grét og grét og hleypti öllu út og var hreinlega ekki viss um að ég kæmist út að borða með vinum mínum um kvöldið,“
ritaði Hildur og bætti svo við: „Þetta sannar enn og aftur fyrir mér að við geymum í ljóslíkamanum sorg og allar tilfinningar sem við upplifum og vinnum ekki úr á milli lífa. Við fæðumst hins vegar ekki með alla fyrri lífa reynslu og tilfinningar, heldur veljum við úr þær tilfinningar úr fyrri lífum sem við sjáum fram á að hafa tækifæri til að vinna úr í þessu lífi. Sálin geymir allt fyrir okkur sem við ekki fæðumst með það skiptið.“
„Þegar þú bauðst þig fram til forseta þá las ég bloggfærslu eftir þig þar sem þú gagnrýndir læknavísindin og það að konur létu fjarlægja brjóst sín af ótta við brjóstakrabbamein. Þá vaktir þú sérstaka athygli mína, sennilega vegna þess að ég er BRCA arfberi. Á þeim tíma varstu líka nýbúin að vera í ástarsorg útaf manni sem þú misstir í fyrra lífi,“ segir Bjarney í grein á Bleikt og beinir hún þar orðum sínum til Hildar.
Bjarney var í viðtali við Pressuna í september í fyrra en móðir hennar hafði þá greinst fyrr á árinu með brjóstakrabbamein sem síðar kom í ljós að hafði dreift sér í beinin. Hún lést þann 8.ágúst síðastliðinn.
„Til að byrja með hló ég að þessu, en eftir því sem rödd þín fær að hljóma oftar, þeim mun minna umburðarlyndi hef ég fyrir þessum skoðunum þínum. Þú segir að brjóstin séu heilbrigður líkamspartur þó að BRCA genið sé til staðar og algjörlega ástæðulaust að fjarlægja þau. Brjóstin á mömmu, ömmu og öllum frænkum mínum sem hafa látist úr brjóstakrabbameini, voru auðvitað alheilbrigð, alveg þar til þau fengu krabbamein“ segir Bjarney í bréfi sínu til Hildar og bætir við: „Fólk eins og þú er hreinlega hættulegt. Spurðu bara Steve Jobs.“
„Sem betur fer virðist þú ekki hafa mikið fylgi en bara það ef ein kona týnir lífi sínu af því að hún ákveður að prófa heilun í staðinn fyrir hefðbundin læknavísindi vegna þín, þá er skaðinn af þessu framboði þínu orðinn óbætanlegur. Fyrir utan það, þá kemur hvorki þér né öðrum það við hvað ég, og aðrar konur, gerum við brjóstin á okkur, og satt að segja finnst mér þetta furðulegur slagur að taka í forsetaframboði.
Ég er viss um að þú meinar vel, þú ert að segja þetta af því að þú virkilega trúir þessu sjálf. En mitt ráð til þín er að halda áfram að gera það sem þú gerir best sem þjóðfræðingur, og leyfðu læknunum að gera það sem þeir gera best, þeir eru allavega með rannsóknir á bakvið sig.“