„Sama hvort menn vilji stimpla þessi hræðilegu fjöldadráp í Orlando með stimpli hryðjuverka, ISIS, trúarbragða eða byssueignar þá er drifkrafturinn bara einn. Hatur,“ segir Birgir Örn Guðjónsson, sem flestir landsmenn þekkja sem Bigga löggu. 50 manns létust og 53 særðust í gær í mannskæðustu skotárás í sögu Bandaríkjann en árásin átti sér stað á skemmtistaðnum Pulse í Orlando í gær. Segir Biggi hryðjuverkin vera drifin áfram af „hatri í sinni ljótustu mynd og ekkert annað.“
Lögreglumaðurinn landskunni ritar opna færslu á Facebook þar sem hann segir hatur og ótta vera eyðandi afl sem étur upp einstaklinga, fjölskyldur og samfélög.
„Þeir sem hagnast á hatri eru að sjálfsögðu fljótir að stökkva á vagninn með stríðsöskrum og varnaðarorðum um að vígbúast og koma með. Koma með í haturslestina sem er vel merkt réttlátri reiði og göfugum málstað. Þeir sem fylgja ISIS nærast á hatri því þeir vita að aukið hatur andstæðinga þeirra eykur andúð á öllum múslimum sem á endanum fjölgar meðlimum í þeirra röðum. Pottþétt plan.“
Segir Biggi að í hinni lestinni séu síðan menn á borð við auðjöfurinn Donald Trump, sem séu tilbúnir til að grípa til vopna og halda til orrustu. „Tilbúnir til orustu sem þjónar þeirra hagsmunum, eins og að komast í valdamestu stöðu jarðarinnar. Hann þakkaði fylgjendum sínum meira að segja fyrir hamingjuóskirnar í morgun fyrir að hafa haft rétt fyrir sér varðandi öfgafull íslömsk hryðjuverk. Hversu sjúk er þessi barátta orðin? Hversu blint getur fólk verið?“
Þá segir Biggi að á meðan sjálfsagt sé að verjast brjáluðum ofbeldismönnum á allan mögulegan hátt þá sé vert að hafa í huga að okkar stærsta barátta er við slíka menn.
„Aðal baráttan er milli okkar. „Venjulega“ fólksins á götunni. Sú barátta á sér stað í fjölskyldum, á vinnustöðum, á pöbbnum á horninu og á internetinu. Þar er öflugasta vopnið ekki AR-15 hríðskotabyssa eins og notuð var í Orlando í nótt, í barnaskólanum í Newton og í kvikmyndahúsinu í Aurora. Þar er lang öflugasta vopnið kærleikur. Það hljómar kannski einfalt en ég get lofað ykkur því að það er auðveldara að hoppa bara með á hatursvagninn. Það er nefnilega svo auðvelt og freistandi að láta tilfinningarnar toga okkur upp á hann. En sá vagn mun því miður halda áfram endalaust, sama hversu mörgum ósigrum hann mætir.
Þar sem ég á börn sem ég elska meira en lífið sjálft þá verð ég að halda í vonina um bjarta framtíð fyrir okkur öll. Þess vegna verð ég líka að reyna að leggja mitt af mörkum til þess að svo geti orðið. Ég vona að þú komið með í þá vegferð. Þitt er valið.“