Gríðarlegt áfall að missa móður sína ung að aldri
„Við vorum í fullkominni afneitun. Dauðinn kemur kanski alltaf á óvart en ég tárast enn þegar ég tala um þetta. Þetta var mikið áfall,“ segir Oddný Harðardóttir nýkjörin formaður Samfylkingarinnar en hún var á þrítugsaldri og nýbyrjuð að búa þegar móðir hennar féll frá.
Í viðtali við Mannamál lýsir Oddný meðal annars uppeldisárum sínum í Garðinum. Hún lýsir sjálfri sér sem „Suðurnesjastelpu.“ Segir hún foreldra sína hafa verið mikið jafnaðarfólk.
„Ég er komin af venjulegu fólki sem þurfti að berjast fyrir sínu. Þegar mamma og pabbi voru að alast upp var alvöru barátta um brauð. Þau voru miklir jafnaðarmenn bæði tvö.“
Eftir að foreldrar Oddnýjar skildu var móðir hennar ein með börnin. Hún vann í fiski og gekk í flest verk. Oddný tekur undir það að hún þekki „streðið“ frá fyrstu tíð, og hafi það mótað hana. „Ég þekki það allavega að eiga ekki mikið af peningum, og það var ekki hægt að gera hvað sem var,“ segir hún og bætir við að hún og systkini hennar hafi á þennan hátt lært að fara með fé.
Oddný kynntist Eiríki manni sínum 19 ára gömul og hafa þau verið saman allar götur síðan. Enn þann dag í dag eru þau líkt og ástfangnir unglingar, en Oddný hefur einnig fengið sinn skerf af áföllum í gegnum ævina. Hún var einungis 25 ára gömul þegar móðir hennar féll frá, eftir áralanga baráttu við við krabbamein. Oddný lýsir móður sinni sem sannkölluðu kjarnorkukvendi sem hafi tekist á við veikindin af mikilli hörku.
„Fyrsta berið í brjóstinu er tekið úr henni þegar hún er rétt um 35 ára gömul. Stundum var hún veik og svo átti hún góða tíma inni á milli. Mamma var mjög sterk kona og kjaftfor og kát. Hún fór kanski í krabbameinsmeðferð að morgni og í vinnu að kvöldi. Hún var svona hörkukelling.
„Við trúðum því bara ekki að hún væri að deyja þegar að því kom.“
Oddný átti erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum þegar fráfall móður hennar barst í tal.
„Ég er orðin 25 ára þegar hún deyr þannig að ég er ekki barn. Ég sakna hennar á hverjum degi.“
Viðtalið við Oddný má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=AiHqPPK8Po0&w=600&h=550]