Prjónauppskrift úr nýrri bók Prjónafjelagsins
Forlagið gaf nýverið út bókina Leikskólaföt, en í henni eru 14 uppskriftir að fallegum prjónafötum fyrir börn á leikskólaaldri. Höfundar bókarinnar eru þær Eva Mjöll EInarsdóttir, G. Dagbjört Guðmundsdóttir, Heiðrún Erla Guðbjörnsdóttir og Sigurlaug Elín Þórhallsdóttir, en saman mynda þær Prjónafjelagið. Allar eru þær þaulvanar prjónakonur, en Dagbjört rekur að auki Litlu prjónabúðina að Faxafeni 9.
Okkur er sönn ánægja að birta hér eina uppskrift úr bókinni. Lambhúshettan Búkolla minnir okkur á gamla tíma. Margir sem eru fæddir fyrir upphaf níunda áratugar síðustu aldar eiga að minnsta kosti ljósmynd af sér með lambhúshettu!
Hönnun: Heiðrún Erla Guðbjörnsdóttir
Stærðir: 1–2 ára (3–4 ára) 5–6 ára
Lengd (cm): 27–29 (30–32) 33–35
Dýpt með stroffi (cm): 18 (19) 20
Ummál á stroffi við andlit (cm): 24 (28) 32
Efni:
Merino Soft DK – 50 g/125 m
A – túrkis 2 (2) 2
B – dökkblár 1 (1) 1
Áhöld:
Sokkaprjónar eða hringprjónn nr. 4, 40 cm eða lengri (ef „magic loop“-aðferðin er notuð)
Prjónfesta:
10 x 10 cm munsturprjón = 20 L og 26 umf.
Sannreynið prjónfestu og skiptið um prjónastærð ef þarf.
Aðferð
Prjónað er stroff í hálsmáli, svo tekur munsturprjón við, fellt er af við höku. Prjónað er munsturprjón fram og til baka og að lokum er lykkjað saman ofan á kolli. Lykkjur eru teknar upp við andlit og prjónað stroff. Kantar stroffsins eru saumaðir saman við affellingu við höku.
Stroff í hálsmáli
Fitjið upp 80 (88) 96 L með lit A og tengið í hring. Prjónið 2×2 stroff alls 6 (7) 8 cm.
Húfan að hökuaffellingu
Prjónið 1 umf sl og takið um leið úr 12 L jafnt yfir umf = 68 (76) 84 L. Þessi umf er jafnframt sú fyrsta í munsturprjóni (mp) hér í næsta skrefi.
Prjónið mp (gengur upp í 4 L). Prjónið 1.–5. umf sl.
6. umf: Prjónið 1 L sl, fellið niður næstu L (gerið lykkjufall) þannig að fjögur bönd séu fyrir ofan hana, prjónið niðurfelldu L og böndin fjögur saman, prjónið 3 L. Endurtakið frá * til * út umf, athugið að umf endar á 2 sl L.
Prjónið 7.–11. umf sl.
12. umf: Prjónið 3 L sl, fellið niður næstu L þannig að fjögur bönd séu fyrir ofan hana, prjónið niðurfelldu L og böndin fjögur saman. Endurtakið frá * til * út umf.
Prjónið mp 3 (4) 5 cm.
Húfan eftir hökuaffellingu
Lesið þessa málsgrein áður en haldið er áfram að prjóna. Í upphafi umf skal fella af 11 L undir höku og hafið þá umf annaðhvort í 2. eða 8. umf mp svo 6. og 12. umf verði prjónaðar sl á réttunni. Prjónið mp áfram út umf, athuga þarf að byrja á réttum stað í mp aftur eftir affellingu. Samkvæmt munstri ætti að byrja á að fella niður L í byrjun umf, prjónið hana hins vegar sl án þess að fella hana niður (prjónið 4 L í byrjun, fellið niður L, prjónið 3, fellið niður, prjónið 3 o.s.frv.). Þá er auðveldara að prjóna upp L þegar stroff við andlit er prjónað.
Prjónið mp fram og til baka, sl á réttu og br á röngu þar til stykkið mælist 21 (23) 25 cm frá hökuaffellingu. Lykkið saman ofan á kolli eftir f yrstu umf mp.
Stroff við andlit
Takið upp lykkjur til hliðar og ofan við andlit með aðallit, 20 L á hverja 10 cm en skiljið affelldu L undir höku eftir, stroffið verður saumað niður þar. Prjónið 1×1 stroff með uppteknu lykkjunum, samtals 5 umf. Skiptið yfir í lit B, prjónið 5 umf. Skiptið yfir í lit A og prjónið 4 umf.
Fellið laust af; sl prjón ef fellt er af á réttunni en br á röngu.
Frágangur
Fellið annan hluta stroffs yfir hinn eins og það nær án þess að teygja það til og saumið við affelldu L við höku. Gangið frá endum, skolið og leggið til þerris.