fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Fókus

„Hann var einn svakalegasti töffarinn í hverfinu og ég vissi alltaf af honum“

Bubbi fagnar

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Mánudaginn 6. júní 2016 09:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bubbi Morthens er sextugur í dag. Fagnar hann með því að halda tónleika í Hörpu. Þar fær hann til liðs við sig ýmsa tónlistarmenn. Uppselt er á tónleikanna eins og við var að búast.

Bubbi er fæddur þennan dag árið 1956. Var hann skírður Ásbjörn Kristinsson Morthens og er yngstur fjögurra bræðra. Bubbi mun hafa spilað í fyrsta sinn fyrir áhorfendur, 15 ára gamall, árið 1971 í Saltvík. Bubbi hefur verið einn allra vinsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar um árabil, en einnig verið umdeildur.

Bubbi getur vart beðið eftir að fagna stóra deginum með aðdáendum sínum í Hörpu.

„Í kvöld verða tónleikar í troðfullri Hörpu. Ég er byrjaður að gíra mig upp og hlakka til að spila lög með hljómsveit sem hafa ekki verið spiluð áður“

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur sendir tónlistarmanninum kveðju:

„Hann var einn svakalegasti töffarinn í hverfinu og ég vissi alltaf af honum; við áttum líka sameiginlega vini og svo sá ég hann einhvern tímann troða upp í skólanum. Maður frétti af honum í Eyjum þegar ég var þar og einhvern tímann átti ég leið um verbúð þar sem hann var að spila eitthvað og raula. Ég vissi alltaf að Bubbi var einstakur, öðruvísi, útvalinn. Og þegar platan hans kom út stökk ég út í búð og keypti hana (ó dagar þegar við gerðum slíkt!). Mig rak í rogastans; ég vissi alltaf að hann væri góður – en ekki svona rosalegur! Önnur eins rödd hafði ekki heyrst, orkan skall á manni, andrúmsloftið kringum hann og músíkina var hrátt og satt og greip mann heljartökum, textarnir voru með afbrigðum myndrænir („þúsund þorskar á færibandinu þokast nær“ er með flottari ljóðlínum 20. aldarinnar) og lagasmíðarnar vitnuðu um óvenju ríka gáfu til að búa til melódíur. Hann var fyrsti Íslendingurinn sem söng blús eins og maður í lífsháska, gat beljað eins og Leadbelly. Þunglyndisleg ljóðræna skandínavanna gat streymt frá honum – og þegar sá gállinn var á honum breyttist hann í suðuramerískan andfasista og kvennaljóma.“

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=WSn8rd4GNZ4&w=640&h=480]

Jafnframt segir Guðmundur Andri:

„Gat svo gerst gargandi nýbylgjurokkari í beinu framhaldi eins og allt væri þetta í eðlilegu samhengi. Sem það var – hjá honum. Og síðan hefur Bubbi fært okkur óteljandi verk úr sínum þrotlausa brunni, allt til þessa dags, skáld með gítar í heiminum andspænis mönnunum, og það verður áfram spennandi að fylgjast með honum vinna úr því sem að höndum ber og hann sækir sér. Svo er alltaf jafn gaman að hitta hann – heyra sögur, diskútera Dylan, Kalman og öll hin skáldin, finna lífskraftinn. Hann er einn svakalegasti töffarinn á landinu. Hann er sextugur! Til hamingju með daginn!“

Mynd: Mynd Vera Pálsdóttir

Annar rithöfundur, Illugi Jökulsson, sem þekkir vel til Bubba segir:

„Hvað skal segja um hann á þessum afmælisdegi? Ég gæti rifjað upp sögur frá því í gamla daga af villtustu tónleikum sem ég hef á ævinni farið á. Eða dregið upp myndir af sjálfum mér þar sem ég sat einn heima og hlustaði með tárin í augunum á hin tregafyllri lög skáldsins. Ég gæti gert svo margt. En aðallega þyrmir yfir mig þegar mér dettur í hug hvað líf okkar og tónlist hefði nú verið skelfilega fátækari þessa síðustu áratugi ef Bubbi hefði ekki verið með okkur. Til lukku með daginn, vinur!“

Hér má sjá myndskeið þegar Bubbi fagnaði 50 ára afmæli í Laugardalshöll

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=mwiJ_Qf6G8E&w=640&h=360]

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Áslaug Arna skar sig úr í 28 þúsund króna peysu

Áslaug Arna skar sig úr í 28 þúsund króna peysu
Fókus
Í gær

Magnús Hlynur miður sín þegar hann kom inn á N1 á Ártúnshöfða í morgun

Magnús Hlynur miður sín þegar hann kom inn á N1 á Ártúnshöfða í morgun
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur í áfalli yfir þyngdartapi söngkonunnar

Aðdáendur í áfalli yfir þyngdartapi söngkonunnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Pabbi alræmdu hjákonunnar missti vinnuna – „Gerði hún HVAÐ á meðan hann svaf?!“

Pabbi alræmdu hjákonunnar missti vinnuna – „Gerði hún HVAÐ á meðan hann svaf?!“