fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024

Úr hverju sprettum við?

Óperan UR_ eftir Önnu Þorvaldsdóttur í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 8. júní 2016 23:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óperan UR_ eftir Önnu Þorvaldsdóttur var sýnd í fyrsta skipti á Íslandi á Listahátíð í Reykjavík um síðustu helgi. Kammeróperan var frumsýnd í leikhúsinu í Trier í Þýskalandi í fyrrahaust, og hefur meðal annars verið sýnd í Noregi og Sviss síðan þá.

Um er að ræða fyrstu óperu Önnu en hún hefur vakið athygli heima og á alþjóðlegum vettvangi á undanförnum árum fyrir tónsmíðar sínar, meðal annars plöturnar Rhízōma, In the Light of Air og Aerial sem kom út hjá hinu virta útgáfufyrirtæki Deutsche Grammophon. Hún er rísandi stjarna í heimi samtímatónlistar.

Óperan er framleidd undir merkjum Far North, en það ku vera samstarfsnet og vettvangur til eflingar og framþróunar við framleiðslu samtímatónleikhúss á norðurhjara jarðkúlunnar. Grænlendingar, Norðmenn, Svíar, Finnar, Þjóðverjar og Íslendingar koma meðal annars að uppsetningunni sem er leikstýrt af Þorleifi Erni Arnarssyni. Bjarni Frímann Bjarnason stýrir hljóðfæraleikurunum úr CAPUT Ensemble, Tinna Þorsteinsdóttir leikur á strengina innan í flygli, en auk hennar eru fimm aðrar persónur á sviðinu.

Ef einhverjir broddborgarar hafa mætt í Norðurljós og búist við hefðbundinni búningaóperu hafa þeir eflaust hrokkið í kút enda var verkið tilraunakennt og abstrakt 70 mínútna framúrstefnuverk.

Ef einhverjir broddborgarar hafa mætt í Norðurljós og búist við hefðbundinni búningaóperu hafa þeir eflaust hrokkið í kút enda var verkið tilraunakennt og abstrakt 70 mínútna framúrstefnuverk. Þar sem undirritaður hefur lítið vit á „klassík“ og óperuforminu kom þetta ekki að sök fyrir hans upplifun, heldur gerði hana þvert á móti þeim mun áhugaverðari og sterkari.

Í upphafi var …

Orðið Ur táknar hið upprunalega, upphaflega, þýska orðið Ursprung þýðir uppspretta og í ensku er forskeytið ur- notað til að tákna að fyrirbæri sé upphaflegt eða ævafornt, frum-eitthvað. Íslenska atviksorðið „úr“ getur einmitt snúist um uppruna, fyrri dvalarstað eða ástand, upphaf eða þá þætti sem mynda fyrirbæri. Þetta er eitt af viðfangsefnum verksins, úr hverju er manneskjan, hver er uppruni lífs og upphaf sjálfsins.

Ekki síður en hin hugtakalega merking er það þó hljóðmyndin sjálf, Úhurr, sem situr eftir. Í upphafi verksins var nefnilega ekki orðið heldur myrkur. UR_ hefst með algjöru myrkri og ómstríðu hljóði frá hljóðfærum og röddum, eins og daufur rólegur niður. En svo kviknar lítil ljóstýra, sem leiðir hugann að miklahvelli, fæðingu nýs lífs eða vitund sem vaknar. Lítið vasaljós færist um rýmið og þrefaldaðist og aðalsöngvararnir þrír taka hver við sínu ljósinu úr höndum Tinnu Þorsteinsdóttur. Úr tónlausum næðingnum birtust þrjár raddir, í hvítum skyrtum og svörtum jökkum. Messósópranrödd Melis Jattinen, baritónn Joa Helgesson og dýrsleg hljóð frá hinni mögnuðu sænsk-eþíópísku raddlistakonu Sofiu Jernberg. Verkið er mjög óhlutbundið en framvindu og óræða frásögn má greina í röddunum þremur, í tónlistinni og hinu sjónræna.

Kannski er það strax í upphafi tilverunnar sem vandamál mannkyns byrja, óróleikinn og ójafnvægið sem þarf að leita leiða til að sætta. Verurnar vita ekki hverjar þær eru og leit hinnar þreföldu aðalpersónu, hverrar þeirra og allra í senn, að rödd sinni og samhljómi, er leitin að upprunanum og eðli.

Í leitinni fara persónurnar þrjár í gegnum mismunandi stig án orða: hvísl, stunur, öskur, stam og svo framvegis. Orð mótast og myndast en þegar þau renna út eru þau samhengislaus, tungumálið er tákn um skilning og röklega hugsun, en hún er ófær um að fást við hið formannlega og náttúrulega.

Maður verðandi dýr

Höfundareinkenni Þorleifs Arnar í sviðsetningunni eru augljós og henta verkinu vel, nakin sviðsetning þar sem galsakennt sköpunarferlið er dregið fram í sviðsljósið og áhersla er lögð á hið skynræna frekar en rökvísa. Flippaðir búningar eru notaðir – pelsar, apagrímur, hárkollur, sjálflýsandi samfestingar – en engin tilraun gerð til að skapa blekkingu eða heildstæðan heim sem maður gæti sokkið inn í.

Tesa verksins virðist vera að til að þekkja okkur sjálf verðum við að tengjast umhverfinu sem við sprettum úr, skynja (frekar en skilja) samhljóminn í manni og umhverfinu. Ræturnar liggja í hinu náttúrulega, ekki í einhverri rómantískri náttúru heldur með því að finna hið óheflaða og dýrslega í líkamanum, í hugtakalausri skynjun á sjálfum sér og heiminum.

Það viðhorf mannsins að hann sé yfir umhverfi sitt hafinn og það sé aðeins viðfang til hans eigin nota er að breyta náttúrunni, grafa undan möguleikum alls lífs og móta jörðina á fordæmalausan hátt.

Það viðhorf mannsins að hann sé yfir umhverfi sitt hafinn og það sé aðeins viðfang til hans eigin nota er að breyta náttúrunni, grafa undan möguleikum alls lífs og móta jörðina á fordæmalausan hátt. Þannig eru komnar fram kenningar um að við lifum í raun á mannöld (e. anthropocene), áhrifatímabili mannskepnunnar í jarðsögunni. Þetta sést kannski hvað skýrast á stöðum þar sem fólk hefur í árþúsund lifað í nánum tengslum við óvæg náttúruöflin, eins og á Grænlandi þar sem hugmyndavinna fyrir óperuna er unnin að hluta. Jöklarnir eru að bráðna, höfin súrna og tilvistargrundvöllur dýra og mannfélags brestur.

Það er dáleiðandi þegar grænlenski leikarinn Miké Phillip Fencker Thomsen sest niður og segir sögu, líklega á móðurtungu sinni. Án þess að skilja orð ímyndar maður sér að hann sé að segja frá eigin upphafi, upphafi mannskepnunnar, upphafi Grænlendinga, áður en hann heldur áfram að segja frá sjálfum sér sem einstaklingi, frá getnaði til dagsins í dag.

Fyrirbærafræði andans

Sýningin er útópísk og bjartsýn að því leyti að persónunum tekst undir lokin að ná nýjum samhljómi.

Persónunum þremur tekst auðvitað ekki að snúa aftur, en sýningin er útópísk og bjartsýn að því leyti að persónunum tekst undir lokin að ná nýjum samhljómi, verða að einu í tónlistinni. Raddirnar þrjár og hljómsveitin sameinast í ofurmelódískri harmóníu. Flygill snýst á stöpli á miðju sviðsins, ísbjörn slakar á með kokteil við pálmatré, reykvél blæs á sviðið og blindandi baklýsing lýsir upp reykinn. Uppi á flyglinum undir söngnum stendur maður og veifar fána fagnandi, á fánastönginni blaktir sjálflýsandi samfestingur. Endalokin eru samt á einhvern hátt óræð. Reykurinn gæti gefið eyðileggingu og rústir til kynna. Fáninn getur verið byltingarfáni, sigurfáni eða jafnvel fáni uppgjafar, fáni úr skinni manneskjunnar.

Þegar maður fylgist með þessari sjálfsleit mannkyns í hljóðum dettur manni helst í hug Fyrirbærafræði andans, öndvegisrit þýska heimspekingsins G.W.F. Hegel, sem rekur sögu mannsandans frá einfaldri skynjun einstaklings til sjálfsmeðvitundar, hugsunar og þróunar til flókins samfélags og svo algjörs samhljóms, þegar heimurinn hefur lært af fyrri mistökum sínum.

5.500 króna snúningur

Það má velta fyrir sér hvort að hugtakið „ópera“ fæli ungt fólk frá eða hvort miðaverðið sem var 5.500 krónur hafi útilokað flesta nema boðsgesti, vel stæða og þá allra áhugasömustu.

Anna endurnýjar og snýr algjörlega upp á hið hefðbundna óperuform. Hér er ekki fullkomna hetjan sem þarf að kljást við illmennið til að öðlast ástarviðfangið – heldur er aðalpersónan þríeina allt í senn. Þessi færsla minnir eiginlega á hvernig teiknimyndin Inside Out sneri upp á strúktúr Disney-myndanna í fyrra. Illskan snerist ekki lengur um vonda persónu eða manneskju heldur var aðalpersónan margræð – persónurnar aðeins hliðar á sömu manneskju – og vandræðin fólust í ójafnvægi í sálarlífi hennar. Anna leitar að frumkraftinum í hinu hámenningarlega formi óperunnar og nær að skapa mjög eftirminnilegt og sterkt verk.

Það er frábært að margar ólíkar stofnanir á norðurhjaranum taki sig saman og geri listamönnum kleift að skapa jafn metnaðarfullt verkefni og UR_, verk sem er ólíklegt að geti staðið undir sér fjárhagslega en hvers listrænt gildi mun vafalaust hafa mikil áhrif. Það var hins vegar leiðinlegt að sjá hversu meðalaldur áhorfenda var hár (með fullri virðingu fyrir eldra fólki). Það má velta fyrir sér hvort að hugtakið „ópera“ fæli ungt fólk frá eða hvort miðaverðið sem var 5.500 krónur – og enginn möguleiki á afslætti fyrir námsmenn – hafi útilokað flesta nema boðsgesti, vel stæða og þá allra áhugasömustu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Sér alls ekki eftir því að hafa yfirgefið Manchester United – ,,Kom inn í lið sem var í vandræðum“

Sér alls ekki eftir því að hafa yfirgefið Manchester United – ,,Kom inn í lið sem var í vandræðum“
Pressan
Fyrir 12 klukkutímum

Skiptir máli þótt maður gleymi að tannbursta stöku sinnum?

Skiptir máli þótt maður gleymi að tannbursta stöku sinnum?
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

England: Brentford tapaði á heimavelli – Isak skoraði þrennu

England: Brentford tapaði á heimavelli – Isak skoraði þrennu
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Gaf öllum liðsfélögunum 42 þúsund króna jólagjöf

Gaf öllum liðsfélögunum 42 þúsund króna jólagjöf
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum
Laufey skákar Bítlunum
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Manchester City án lykilmanns næsta mánuðinn

Manchester City án lykilmanns næsta mánuðinn
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka