Óhætt er að segja að forsetaframbjóðandinn Andri Snær Magnason hafi verið í góðum gír á styrktartónleikum sem haldnir voru á Húrra í gærkvöldi. Á meðfylgjandi myndbandi má sjá Andra stíga trylltan dans uppi á sviði við lagið Underwear með hljómsveitinni FM Belfast.
Veislan á Húrra í gærkvöldi var haldin til stuðnings framboðs Andra Snæs Magnasonar til forseta Íslands og komu margir af fremstu tónlistarmönnum landsins saman á skemmtistaðnum Húrra. Auk FM Belfast komu Bubbi Morthens, Mammút, KK Band, Valdimar Guðmundsson og Asdfhg fram.
Miðaverð á tónleikana var valfrjálst á bilinu 2.000 krónur til 50.000 krónur. Enginn einn einstaklingur mátti kaupa miða fyrir meira en 400 þúsund krónur og var reglum um fjárframlög til forsetaframboðs þannig fylgt.