Hittu stuðningsmenn íslenska liðsins í Frakklandi eftir hádegi
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hitti Guðna Th. Jóhannesson, verðandi forseta, í Nice í Frakklandi nú rétt eftir hádegið en þangað eru þeir komnir til að horfa á leik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í fótbolta.
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að Guðni var kjörin forseti í forsetakosningunum um helgina. Hann hlaut 39,1 prósents fylgi og tekur hann við embættinu þann 1. ágúst næstkomandi af Ólafi Ragnari sem setið hefur á stóli forseta frá árinu 1996.
„Þeir voru flottir saman. Það fór vel á með þeim,“ segir Vignir Már Lýðsson sem tók meðfylgjandi mynd á Fan Zone í Nice í dag. Þar er fjöldi stuðningsmanna Íslands og Englands samankominn til að fylgjast með leik liðanna sem hefst klukkan 19 að íslenskum tíma.
Óhætt er að segja að vera þeirra Ólafs og Guðna, sem báðir voru með eiginkonum sínum, hafi vakið athygli nærstaddra. Að sögn Vignis ríkir sannkölluð þjóðhátíðarstemning í Nice og bætir Vignir við að allir á svæðinu haldi með Íslandi, nema þá helst Englendingarnir.