Galisíumaðurinn Elías Knörr hefur gefið út tvær ljóðabækur á íslensku – Hefur hlotið stærstu ljóðaverðlaun Galisíu
Í upphafi sumars kom út bókin Greitt í liljum eftir Elías Knörr í meðgönguljóðaseríu grasrótarforlagsins Partus Press.
Þetta er önnur ljóðabókin á íslensku eftir Elías sem er fæddur í Galisíu, tæplega þriggja milljón manna sjálfstjórnarhéraði á Norðvestur-Spáni, en þar hefur hann gefið út þrjár bækur og hlotið stærstu ljóðaverðlaun málsvæðisins. Þar gefur hann út undir skírnarnafni sínu, Elias Portela.
DV náði raddlausum Elíasi á milli upplestrarferða og ræddi við hann um tungumál, ljóðlistina, skáldanöfn og hamskipti.
Sjálfum finnst mér jákvætt fyrir menningarkerfið að íslenskir rithöfundar geti líka verið útlendingar.
„Þetta var spurning um vandamál í skriffinnsku og námsmöguleika frekar en þessi markaðssetta rómantík sem margir ferðamenn setja í bakpokann sinn,“ segir Elías um ástæður þess að hann kom upphaflega til Íslands.
„Ég var í háskólanámi í rómönskum fræðum og reyndar kom ég hingað fyrst til að læra ítölsku. Svo lenti ég í því að gera rannsókn í íslenskri setningafræði og hún heppnaðist allt of vel til að geta snúið mér frá þessari braut, þannig að allt í einu var ég dottinn í gildruna. Síðast en ekki síst datt ég líka í það að yrkja á íslensku … þannig að hér er ég!“ segir Elías.
Hann segir þó erfitt að reikna út hversu lengi hann hafi verið á landinu enda hafi hann stöðugt verið að koma og fara: „Segjum að ég sé búinn að vera nógu lengi á Fróni til að geta sótt um íslenskt vegabréf, en ég hef samt ekki gert það því svo vildi til að ég er Schengen-borgari og sjálfum finnst mér jákvætt fyrir menningarkerfið að íslenskir rithöfundar geti líka verið útlendingar.“
Elías Knörr flytur ljóðið Gráthommar úr ljóðabókinni Greitt í liljum
Það hefði ekki verið sérstaklega gott fyrir texta mína að ég færi að birta þá á íslensku sem Elías Portela, þannig að ég ákvað að nota gælunafnið sem dulnefni.
Fyrsta ljóðabók Elíasar á íslensku, Sjóarinn með morgunhesta undir kjólnum, kom út árið 2010 og hafði hann þá tekið sér skáldanafnið Elías Knörr.
„Knörr er gælunafn eða uppnefni sem bara kom til greina á sínum tíma og ég ákvað að nota það sem skáldanafn, því ég hef alltaf verið mikill fardrengur og líka vegna þess að nafnið ber miðaldakeim og ómar af siglingum og sögum milli stranda. Knörr er drengjanafn og landnámsskip, en líka baskneskt ættarnafn, og pabbi var Baski og ég hef líka oft sótt innblástur í saltfisksmenninguna. Það hefði ekki verið sérstaklega gott fyrir texta mína að ég færi að birta þá á íslensku sem Elías Portela, þannig að ég ákvað að nota gælunafnið sem dulnefni. En tæknilega séð var þetta „heteróným,“ því ég skapaði líka annan persónuleika á bak við nafnið,“ útskýrir Elías.
Þannig að þú setur þig í sérstakar stellingar eða skiptir um ham – hættir að vera Portela og verður Knörr – þegar þú semur ljóð?
„Ljóðakenningar mínar hafa alltaf snúist um að „neutralisera“ yrkjandi egóið, þannig að heterónýmið var mjög eðlilegt skref og líka aðferð til að fela sig! Ég skapaði persónuleika sem var bæði krefjandi og hvetjandi og niðurstaðan/útkoman var ævintýrakona eða satt að segja koníkall-trans sem sótti til sjávar til að vinna sér frelsi og afla ljóð,“ segir Elías og kveðst nánast fyllast söknuði eftir þessum tíma, enda hafi verið skemmtilegt að setja sig í sjóarastellingar og yrkja.
Í nýju bókinni, Greitt í liljum, fer Elías af sjónum og upp á land – þar fæst hann við dauðann, kynlíf, kyngervi, vorið og ýmislegt fleira.
„Ég vinn alltaf með mörgum mismunandi röddum en textarnir voru úrvaldir til þess að endurspegla meira og minna sama andrúmsloftið,“ segir hann um ljóðin í Greitt í liljum. „Í gegnum bókina má líka lesa sögur um hvað maður á að borga af sér til að geta ort ljóð, til að geta skapað sjálfsmynd og örlög sín, eða til að komast yfir veturinn að vorinu og breytingum, eða um hvernig maður á að finna og skapa sitt eigið skáld … Það á alltaf að vera fleiri en einn vegur til að þræða textana,“ segir hann.
Hann segir bókina vera opna ferð sem lesandinn fari. „Lesendur eiga að reynast víðförlir og glöggeygðir gestir í bókunum. Íslenska á ekki að vera heimamál heldur vítt og sveigjanlegt, eins og til dæmis á miðöldum, og þessar löngu ferðir í leit að ljóðum hafa líka í för með sér að bækur mínar séu býsna mósaíkkenndar.“
Ljóð almennt eru æfing sem hjálpar að brjóta niður fordóma; heilinn fer að hugsa öðruvísi og verður opnari fyrir að sjá hlutina í nýju ljósi.
Elías segir ýmsar ástæður fyrir því að hann laðist að ljóðlistinni, hann skynji tímann og línulegar seríur illa og sé gleyminn á flest annað en ljóðareynslur. Þá segir hann það í raun vera pólitíska afstöðu að gerast skáld, þannig vinni maður fyrir menningarkerfið, og að senda frá sér ljóðabók geti verið jafnmikil ástundun á lýðræðinu og það að krossa við á kjörseðli.
„Í bókum mínum vinn ég alltaf með því að skapa óvænt hugtök og kategóríur til að snúa þeim og brjóta, og skapa svo eitthvað nýtt aftur … því það er hollt fyrir heilann. Ljóð almennt eru æfing sem hjálpar að brjóta niður fordóma; heilinn fer að hugsa öðruvísi og verður opnari fyrir að sjá hlutina í nýju ljósi. Þetta getur verið svolítið abstrakt hjá mér því textar mínir eru ekki beinlínis félagslegir, en æfingin er þar og hvað hinsegin og transgender-mál varðar hefur efnið heppnast frekar vel,“ segir hann.
„Í stuttu máli er ég sannfærður um að skáldskapur sé öflugasta tól sem mannverum er látið í té til að verða að skárri skepnum og hamingjusamari. Með skáldskapnum getum við lært og hrifist af öllu því góða og illa sem til er í heiminum, og ljóð eru hrein hrifning.“
„Ergi“ er hugtak sem óhægt væri að yrkja um á öðru máli en á íslensku
Elías hefur reynslu af því að yrkja á tveimur ólíkum málum og því forvitnilegt að spyrja hvort það sé munur hvernig hann yrkir á íslensku og galisísku.
„Þegar maður fer að vinna á tilteknu máli þá vinnur maður á því máli og sýslar með þeim málfræðilegu tólum sem eru í boði; tungumálið á ekki að skipta miklu máli um leið og maður kann það. Samt, ef maður byrjar með því að hugsa um málefni til að fjalla um, þá reynist kannski erfiðara að yrkja um það í tilteknum málheimi en í öðrum … Vínið er til dæmis flóknara á íslensku, og þótt ég hafi ort um áfengi þá er mér miklu auðveldara að gera það á útlensku. En „ergi“ þvert á móti er hugtak sem óhægt væri að yrkja um á öðru máli en á íslensku,“ segir hann.
Staða íslensku tungunnar er ansi veik í samfélaginu og því fylgir ákveðin ábyrgð að yrkja á íslensku.
„Pólitíska ábyrgðin sem fylgir textunum er ólík í hvoru landi, aðallega af því að löglega staðan mín er líka ólík. Hér er ég óþekktur erlendur ríkisborgari án vandamanna, sem á alls ekki að vera neitt neikvætt, og þessi kreppuhikstandi saga Íslands 21. aldarinnar hefur haft mikil áhrif á samfélagið og á hvernig nokkrir textar mínir voru túlkaðir. En staða íslensku tungunnar er ansi veik í samfélaginu og því fylgir ákveðin ábyrgð að yrkja á íslensku. Ég hef samt ekki þurft að birta undir dulnefni í Galisíu – þótt ég hafi auðvitað gert það í ljóðakeppnum – en löglega séð er ég þegn konungs í þversagnaríki sem telur annað móðurmálið mitt vera alltof hættulegt, þannig að sem rithöfundur á galisísku á ég að vera pólitískt virkari með beinni hætti,“ segir hann.
Elías segir að vegna þess hversu fáir skilji íslensku ljóðin hafi hann farið að tónsetja nokkur þeirra þegar hann flutti þau utan landsteinanna. Það var einmitt eitt slíkt tónsett ljóð sem undirritaður heyrði þegar hann komst fyrst í tæri við ljóð Elíasar.
Sumt hljómar býsna miðaldalegt, en annað eins og drukkinn kráarsöngur eða lírukassatónar.
„Lög eftir mig eru svolítið ólík eftir textanum. Sumt hljómar býsna miðaldalegt, en annað eins og drukkinn kráarsöngur eða lírukassatónar. Ég er aðallega tengdur folk-tónlist (í evrópskum skilningi) og ólst upp í ansi keltneskri menningu, en vals og tangó eru líka þar og einu sinni meira að segja var ég spurður hvort drungalegur texti sem ég söng væri gyðingavísa … þannig að það er engin ákveðin tónlistargerð sem ég nota sérstaklega,“ segir hann.
Það er nóg að gera hjá Elíasi um þessar mundir, hann er nýkominn heim úr stórri ljóðaferð um Þýskaland með CROWD-verkefninu, er að leggja lokahönd á galisíska þýðingu á Mánasteini eftir Sjón, og verður viðstaddur frumsýningu á „skálduðu“ heimildarmyndinni ContraFaces í lok júní, en þar fylgja kvikmyndagerðarmenn eftir hliðarsjálfum Elíasar og hinnar virtu kanadísku skáldkonu Erin Moure. Myndin er að hefja flakk milli kvikmyndahátíða beggja vegna Atlantshafsins og segist Elías vonast til að hún rati að lokum til Íslands.
Stikla fyrir skálduðu heimildamyndina ContraFaces eftir Fon Cortizo .