Dagurinn byrjar aftur að styttast á morgun
Sumarsólstöður eru í dag, mánudaginn 20. júní, en þá er sólargangur lengstur. Nýliðin nótt var því sú stysta á árinu. Sólstöður eru klukkan 22:34 í kvöld. Þetta kemur fram í Almanaki Háskóla Íslands.
Sólstöður verða þegar stefna mönduláss jarðar er til miðju sólar. Gerist þetta tvisvar sinnum á ári, sumarsólstöður á tímabilinu 20. til 22. júní, þegar sólargangurinn er lengstur, og vetrarsólstöður 20. til 23. desember, þegar sólargangurinn er stystur. Þetta kemur fram á Vísindavef Háskóla Íslands.
Breytileiki dagsetninganna stafar fyrst og fremst af hlaupársdögum. Nafnið sólstöður vísar til þess að sólin stendur kyrr, það er hættir að hækka eða lækka á lofti.
Eftir daginn í dag fer sólin því aftur að lækka á lofti. Dagarnir munu því styttast jafnt og þétt þangað til á vetrarsólstöðum sem verða í ár þann 21. desember.