Lars Lagerbäck er í guðatölu á Íslandi, eftir frábært gengi knattspyrnulandsliðsins. Grínast hefur verið með að Lars sé svo vinsæll að hann gæti orðið forseti lýðveldisins. Lars hefur, svo vitað sé, ekki nokkurn áhuga á því, enda ekki íslenskur ríkisborgari. Hátt í þrjátíu íslenskir kjósendur létu þó þær staðreyndir ekki á sig fá og kusu Lars, að því er Vísir greinir frá og hefur eftir formönnum yfirkjörstjórna um land allt. Fleiri Norðurlandabúar fengu atkvæði því Margrét Þórhildur Danadrottning er sögð hafa fengið að minnsta kosti tvö.