fbpx
Fimmtudagur 15.ágúst 2024
Fókus

Árni Páll: Óbærileg staða

Árni Páll Árnason í viðtali um Samfylkinguna, miðjufylgið og framtíðarsýnina

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 13. maí 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni Páll Árnason hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs sem formaður Samfylkingarinnar, en hann hafði áður lýst yfir framboði. Ákvörðun hans kom því á óvart. Framtíð hans innan Samfylkingarinnar er óráðin og hann íhugar stöðu sína. Árni er fyrst spurður hvort hann ætli að vera áfram í Samfylkingunni og hvort hann ætli að bjóða sig fram til þings fyrir flokkinn.

„Ég hætti ekki að vera jafnaðarmaður. Svo lengi sem Samfylkingin talar fyrir jafnaðarstefnu þá er hún minn flokkur,“ segir Árni Páll. „Næstu skref ætla ég að hugsa í rólegheitum í sumar. Ég er með fullt af hugmyndum og mig langar til að finna þeim farveg. Ef það er eftirspurn eftir því í kjördæmi mínu þá get ég vel hugsað mér að gefa kost á mér aftur.“

Hættirðu við formannsframboðið vegna þess að þú taldi víst að þú myndir tapa?

„Nei. Ég vissi að ég gæti tapað en ég sannfærðist um það á þessum vikum sem ég kannaði stöðuna að ég gæti líka unnið. Ég hafði lengi verið tilbúinn að tapa en ég var ekki tilbúinn að vinna ef áfram yrði erfitt að fá starfsfrið. Mér leið mjög illa sem formaður flokksins allt frá síðasta landsfundi og fram á vetur þegar ég sendi flokksmönnum bréf þar sem ég fjallaði opinskátt um það sem mér fyndist að Samfylkingin yrði að gera ætlaði hún að ná árangri. En þá sagði ég líka að ég gæti ekki hugsað mér að halda áfram ef ekkert myndi breytast. Eftir að ég sendi bréfið var eins og létt væri blýkápu af herðum mér. Mér fannst ég aftur geta um frjálst höfuð strokið í þessu embætti og geta sagt það sem mér bjó í brjósti. En þegar ég dró framboð mitt til baka þá var það vegna þess að ég vildi ekki ganga aftur inn í það hlutverk að bera ábyrgð á sundruðum hópi. Þá var betri tilhugsun að stíga til hliðar og leyfa öðrum að spreyta sig á því að ná aftur samstöðunni og laða fylgið aftur til flokksins.“

Virðingarleysi gagnvart félögum

Er einhver í þingflokki Samfylkingarinnar sem þú hefur getað treyst eða treystir þér? Nefndu mér einhvern.

„Ég ætla ekki að gefa félögum mínum einkunn, en það hefur ekki farið framhjá neinum að ásýnd flokksins hefur ekki verið samhent. Ég á einhverja sök á því og ætla ekki að kasta ábyrgðinni alfarið á aðra. En frá síðasta landsfundi var staða mín algjörlega óbærileg og það hafði áhrif jafnt innan þingflokksins sem almennt innan flokksins. Ég held að skortur á tiltrú á flokkinn síðustu misseri skýrist allra helst af þessari sundruðu ásýnd.

Það gekk mjög vel hjá okkur á fyrri hluta kjörtímabilsins. Við snerum hratt við stöðunni og tvöfölduðum meðalfylgið í landinu frá því sem það var í þingkosningunum árið áður. Í könnunum í framhaldinu fórum við í 20–23 prósent fylgi á landsvísu. En frá og með síðasta landsfundi súnkaði fylgið og okkur hefur gengið erfiðlega að finna taktinn á nýjan leik. Það hefur veikt mig og alveg örugglega dregið úr tiltrú á mér innan flokks, innan þingflokks og annars staðar. Þess vegna var það markmið mitt að koma málum svo fyrir að það gæti farið fram allsherjaratkvæðagreiðsla þannig að flokksmenn fengju tækifæri til þess að kjósa formann beinni kosningu og það gerist núna.“

Hvernig var fyrir þig að koma inn á þingflokksfund og sitja á móti fólki sem þú vissir að vildi losna við þig?

„Í mannlegu samfélagi sjáum við alltaf einhverja flokkadrætti. Samstarfið í þingflokknum hefur oft gengið með ágætum en það var mér mjög mikið áfall að fá fyrirvaralaust mótframboð á síðasta landsfundi án þess að nokkur umræða hefði verið um það í flokknum að formennska mín væri vandamál.“

Hafði engin umræða um óánægju með þig farið fram í þingflokknum?

„Nei. Hjá okkur var einhver áherslumunur eins og alltaf er í stjórnmálum, en ekkert sem réttlætti fyrirvaralaust mótframboð. Það kom mér í opna skjöldu að sjá forystufólk sem ég hafði fundað með reglulega og aldrei tjáð við mig ágreining standa allt í einu að mótframboði gegn mér.

Lykillinn að lýðræðislegri fjöldahreyfingu er að ræða hlutina opinskátt og koma framan að fólki og rökræða. Ömurlegustu tímarnir í gamla Alþýðubandalaginu voru þegar fundir drógust fram á nótt og maður þorði ekki heim að sofa því þeir sem lengst sátu tóku þá fundinn yfir og fóru að álykta í allar áttir í nafni hans og berja á félögum sínum fjarstöddum. Aðalkostur Samfylkingarinnar var að við ákváðum að standa saman um lausn sem allir gætu sætt sig við og virða ólík sjónarmið. Þessi atburðarás fól í sér fráhvarf frá þessari stefnu og hafði ekki góð áhrif á flokkinn og það held ég að allir hafi séð í eftirleiknum. Það snýst ekkert um mig eða mína persónu, heldur þessi vinnubrögð og virðingarleysi gagnvart öðrum félögum. Flokksmenn úti á landi tóku þessu fyrirvaralausa mótframboði til dæmis mjög illa því þeir voru búnir að ráðstafa tíma sínum miðað við boðaða dagskrá landsfundarins og gátu ekki gert ráðstafanir til að koma á landsfundinn. Þetta fólk upplifði að það hefði verið svipt atkvæðisrétti sínum.
Það er mikilvægt að við komum í veg fyrir að atburðarás eins og þessi endurtaki sig. Hún var engum til góðs.“

„Ég mun ekki finna mig í því hlutverki að vera fyrrverandi formaður í þingflokki og grafa undan eftirmanni mínum.“
Ábyrgð „Ég mun ekki finna mig í því hlutverki að vera fyrrverandi formaður í þingflokki og grafa undan eftirmanni mínum.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Vill vera í Samfylkingunni

Skortir Samfylkinguna ekki einhverja sérstöðu, er hún ekki að verða of keimlík öðrum flokkum?

„Ég held að Samfylkingin hafi mikla sérstöðu, en ekki nýtt hana með nægilega skýrum hætti. Við höfum stefnu sem hefur virkað betur en nokkuð annað síðustu 100 árin og við höfum sýnt einstakan árangur þegar okkur hefur verið treyst fyrir ábyrgðarhlutverki, eins og hér í kjölfar hruns. Samfylkingin stóð að öllum mikilvægustu ákvörðunum og stóð oft ein gegn allra handa lýðskrumi og töfralausnum. Ef þú kýst Samfylkinguna ertu því að kjósa fólk með reynslu. Það er okkar að útskýra fyrir fólki að við skiljum þau mistök sem við höfum gert á fyrri tíð og höfum lært af þeim. Við eigum líka að byggja á því besta úr glímunni við hrunið, þegar við áttum mikil og árangursrík samskipti og rökræður við verkalýðshreyfinguna, atvinnulífið og við fjölbreyttan hóp fólks.“

Heldurðu að þú gætir átt samleið með Viðreisn?

„Það er margt í stefnu þeirra sem er samhljóma stefnu Samfylkingarinnar, en Viðreisn er ekki jafnaðarflokkur. Þrátt fyrir það er í raun meiri munur á stefnu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, en á stefnu Samfylkingarinnar og Viðreisnar og það er örugglega hægt að eiga gott samstarf og samhljóm með Viðreisn sem umbótaafli eins og hinum flokkunum sem við störfum með í stjórnarandstöðunni í dag. Það á að efla sjálfstraust Samfylkingarinnar og verða henni hvatning til góðra verka að sjá að Píratar, Björt framtíð og nú Viðreisn tefla fram stefnu sem er að flestu leyti í samhljómi við stefnu Samfylkingarinnar.“

Gætirðu hugsað þér að ganga úr Samfylkingunni og í Viðreisn?

„Nei, ég vil vera í Samfylkingunni og ég vil vera í jafnaðarmannaflokki sem hefur metnað til að vera þessi stóri flokkur sem rúmar ólík sjónarmið, treystir sér til að byggja sig upp sem fjöldahreyfingu, er tilbúinn að vinna með verkalýðshreyfingunni, tekur sér stöðu í miðju samfélagsins og setur sér að vera málsvari ólíkra hópa í samfélaginu.
Stóra spurningin sem Samfylkingin þarf að svara skýrt á næsta landsfundi er hvort hún sé tilbúin að vera jafnaðarflokkur sem endurreisir sambandið við verkalýðshreyfinguna og umfaðmar aðrar hreyfingar sem vilja breyta samfélaginu til góðs. Það er grafalvarlegt ef ekki er til flokkur sem lítur á það sem hlutverk sitt að standa fyrir samfélagsbaráttu með verkalýðshreyfingunni og leggja upp sameiginleg markmið með henni. Ég finn áhuga á því í verkalýðshreyfingunni að til sé alvöru jafnaðarmannaflokkur.“

Steikt útlegging Egils

Hefur Samfylkingin ekki færst of mikið til vinstri í stað þess að höfða til miðjunnar?

„Egill Helgason skrifaði nýlega pistil og segir að það að ég tali um miðjuna sýni að ég sé ekki jafnaðarmaður. Ég hef aldrei séð jafn steikta útleggingu á nokkrum hlut. Jafnaðarflokkar leggja sig alltaf fram um að ná miðjufylginu, því ef þeir taka sér stöðu úti á vinstri kanti og skilja miðjufylgið eftir fyrir aðra þá komast þeir ekki til áhrifa. Í skilgreiningu sænskra jafnaðarmanna á framtíðarflokknum er talað um flokk sem taki sér stöðu í miðju samfélagsins. Ástæðan er einfaldlega sú að ef menn ætla að stjórna landinu og leiða meirihlutastjórn verða þeir að geta átt samtal við ólíka hópa í samfélaginu en geta ekki úthrópað þessa eða hina. Víðtækt bandalag um samfélagsbætur er forsenda árangurs í efnahagsstefnunni. Ef það hins vegar gerist, eins og hefur gerst núna, að alltof margir á vinstri kanti stjórnmálanna tala niður samstarf og heilbrigða rökræðu milli ólíkra hópa, þá skilja þeir eftir stóran hóp fólks sem ekki finnur sig í þeirra hópi.

Jafnaðarflokkur eins og Samfylkingin á að styðjast við hugmyndafræði en líka að hafa metnað til að tala við fólk á forsendum þess sjálfs. Ef við nálgumst ekki fólk sem ekki kýs okkur í dag, þá komumst við ekkert áfram. Og ef það á að þurfa að samþykkja fyrirfram allt sem við erum sammála um, þá komumst við heldur ekkert áfram. Ég hef alla tíð fundið mikinn stuðning við þessi sjónarmið sem ég hef sett fram um frjálslyndan, opinn flokk í miðju samfélagsins innan Samfylkingarinnar. Ég fékk yfirburðakjör í formannskjöri fyrir þessum sjónarmiðum fyrir þremur árum og skynja að þau eiga enn sterkan hljómgrunn.“

Ert þú búinn að ákveða hvern þú ætlar að kjósa í formannskjöri?

„Mér finnst að fráfarandi formaður flokksins eigi að sýna flokksmönnum þá virðingu að skipta sér ekki af því kjöri.“

Finnst þér líklegt að Samfylkingin rétti úr kútnum við það eitt að skipta um formann?

„Nei. Viðsnúningurinn þarf líka að snúast um endurnýjun á vinnubrögðum og nálgun. Kosning nýs formanns getur verið hluti af því, sem og endurnýjun í forystusveit og þingliði. Ef þessi flokkur hefur metnað til þess að vera ekki aukahjól í stjórnmálum heldur leiða ríkisstjórn þá verðum við að geta náð til breiðs hóps fólks með ólíkar skoðanir en sama markmið. Það mun VG ekki gera, það munu Píratar heldur ekki gera til fulls. Þetta þarf Samfylkingin að geta gert og á ekki að skilja þetta hlutverk eftir fyrir aðra að grípa.

Ég finn á fólki að því finnst við gera margt vel og er sátt við margt sem við höfum talað fyrir. Ég hef fundið jákvæð viðbrögð þegar við höfum talað um að halda framhaldsskólunum opnum fyrir fólki yfir 25 ára aldri, þegar við börðumst fyrir því að aldraðir og öryrkjar fengju kjarabætur með sama hætti og launamenn og svo framvegis.
Samfylkingunni hefur tekist best þegar hún hefur rætt um framtíðina, um velferðarmál og lífskjaramál venjulegs fólks.

Núna skiptir mestu máli fyrir okkur að tala um húsnæðismál, jöfn tækifæri til náms, hagsmuni barnafjölskyldna og heilbrigðisþjónustu. Kosningarnar eiga af okkar hálfu að snúast um samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Um lífskjör og velferð og þær mikilvægu grundvallarbreytingar sem þarf að gera í viðskiptalífi þannig að allir fái tækifæri og útvaldir menn hætti að auðgast á viðskiptum með annarra manna fé. Jafnaðarmenn hafa um áratugi verið einu boðberar frjálsrar samkeppni og þess að verðleikar en ekki ættgöfgi eigi að ráða gengi fólks í samfélaginu. Reynsla síðustu missera sýnir okkur svart á hvítu mikilvægi þess að halda þeirri baráttu áfram. Við eigum líka að stilla leikreglur viðskiptalífsins þannig af að við setjum alvöru verðmætasköpun í öndvegi, ekki bólugróða örfáa einstaklinga á kostnað hinna.

Ég held að það sé hollt að það verði umtalsverð endurnýjun í hópi frambjóðenda til Alþingis. Þeir sem bjóða sig fram þurfa að stimpla sig og flokkinn inn með þeim hætti að enginn efist um að þarna sé komin sveit sem sé tilbúin að tala við fólkið í landinu um það sem máli skiptir og fá fylgi alls þorra fólks sem vill breyta samfélaginu og jafna leikinn. Það er óþarfi að skilja allt það fólk eftir fyrir Viðreisn og Bjarta framtíð.“

Plan B alltaf verið til

Mig langar til að fara aftur í tímann. Segðu mér í einlægni, hvernig voru samskipti ykkar Jóhönnu Sigurðardóttur? Hún ýtti þér út úr ríkisstjórn, var mikil togstreita á milli ykkar?

„Í einlægni get ég sagt að samskipti okkar Jóhönnu voru alltaf góð. Hún treysti mér fyrir félagsmálaráðuneytinu og þar með glímunni við niðurskurð og atvinnuleysi og flutti mig síðan í efnahags- og viðskiptaráðuneytið til að eiga þar við flókin og erfið mál. Við vorum ekki alltaf sammála, sérstaklega ekki undir lokin þegar kom að ólíkri sýn á það hvernig ætti að haga efnahagsstjórninni. Svo fór ég út úr ríkisstjórn og hún skýrði það þannig að verið væri að fækka ráðherrum. Það fór síðan ekkert framhjá mér þegar ég var í formannsframboði að ég naut ekki stuðnings hennar.

Ég tók svo við sem formaður rétt fyrir kosningar og sat ekki í ríkisstjórn. Það var ófær staða, enda nýttist stjórnarsamstarfið flokknum lítið sem ekkert til að leggja upp mál í aðdraganda kosninga. Áherslumál ríkisstjórnarinnar síðustu vikurnar voru þvert á móti til þess fallin að valda vandræðum í baklandinu, eins og gerð fríverslunarsamnings við Kína. Og um sumar umdeildar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar las ég í blöðum, en á sama tíma var ég að leiða kosningabaráttu flokksins og átti að sækja fram. Dæmi um það var ákvörðun um að koma á nýju greiðslufyrirkomulagi varðandi lyf nokkrum dögum eftir kosningar. Í dag eru flestir sammála um að nýja greiðslukerfið hafi verið gott skref, en á þessum tíma skapaði þetta eðlilega mikinn ótta meðal viðkvæmasta kjósendahóps okkar, eldri borgara og öryrkja. Við áttum fullt í fangi með að útskýra breytingarnar og fá atkvæði þeirra. Ríkisstjórnin var því að taka ákvarðanir sem nýttust ekki endilega til að auka fylgi við flokkinn.“

Getur ekki verið að Samfylkingin hafi of lengi einblínt á aðild að Evrópusambandinu sem töfralausn? Það var eins og hún væri ekki með Plan B og nú er enginn lengur að tala um þetta helsta áhugamál hennar, aðild að Evrópusambandinu. Það er enginn áhugi á því meðal landsmanna.

„Áhuginn er fyrir hendi og það sést á nýju framboði sem leggur mikla áherslu á samninga við ESB, en hann sveiflast í takt við efnahagsástandið. Alvöru flokkur getur ekki sveiflast með tíðarandanum. Við höfum alltaf haft Plan B og sem efnahagsráðherra lagði ég upp það plan hvernig við næðum efnahagslegum stöðugleika án aðildar að nýjum gjaldmiðli og ég hef engan séð mótmæla því með rökum. Það kallar til langframa á meiri aga í ríkisútgjöldum, meiri og hraðari niðurgreiðslu opinberra skulda, hærra innlent vaxtastig og þar af leiðandi minna fé til velferðarþjónustu, heilbrigðismála og menntamála. Það er fær leið, en hún mun skaða samkeppnisstöðu okkar til langframa. Vandinn við umræðuna er að allir hinir flokkarnir hafa ekkert Plan A. Á meðan erum við enn í höftum og aðstöðumunurinn milli þeirra sem mega og geta notað aðra gjaldmiðla og þeirra sem geta það ekki fer stöðugt vaxandi. Ungt fólk greiðir tvöfalt hærri fjármagnskostnað fyrir íbúðakaup en í grannlöndunum og alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki vaxa utan Íslands. Ef við höfum áhyggjur af landflótta vegna lágra launa, fárra þekkingarstarfa og hás húsnæðiskostnaðar getum við ekki neitað að hugsa um einu haldbæru lausnina.“

Óttast um miðjufylgið

Aftur til dagsins í dag. Finnst þér fýsilegur kostur að Samfylkingin fari í einhvers konar kosningabandalag við stjórnarandstöðuflokkana?

„Mér finnst allavega að þessir flokkar eigi að stilla saman strengi og lofa þjóðinni því að ef þeir fái meirihluta þá muni þeir vinna saman eftir kosningar. Ég óttast hins vegar að miðjufylgið fari aftur til stjórnarflokkanna á meðan við í Samfylkingunni búum ekki til trúverðugan valkost. Það er mikið í húfi að Samfylkingin nái vopnum sínum og stöðvi flæðið yfir til stjórnarflokkanna og tryggi meirihluta umbótasinnaðra afla eftir kosningar.“

„Ég hef hugmyndir, vil tala og berjast fyrir þeim og er tilbúinn að gera það svo lengi sem ég finn hljómgrunn fyrir því að ég sé að gera gagn.“
Framtíðin „Ég hef hugmyndir, vil tala og berjast fyrir þeim og er tilbúinn að gera það svo lengi sem ég finn hljómgrunn fyrir því að ég sé að gera gagn.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Magnús Orri Schram hefur komið með þá hugmynd að leggja Samfylkinguna niður og ný stjórnmálahreyfing verði stofnuð – hvað finnst þér um þá hugmynd?

„Ég vil ekki stíga inn í baráttu formannsefna um hugmyndir um leiðina áfram. Ég skil hugmyndina um að fylkja fólki saman og um hana var Samfylkingin stofnuð. Ég hef viljað líta svo að þetta væri viðvarandi verkefni sem Samfylkingin ætti að leggja höfuðáherslu á alla daga – að samfylkja ávallt með öllum umbótaöflum.“

Ef þú heldur áfram á þingi, finnst þér það þá vera þægileg hugsun að sitja í þingflokki með nýjum formanni, manneskju sem vildi losna við þig úr þeim stól?

„Ég mun ekki finna mig í því hlutverki að vera fyrrverandi formaður í þingflokki og grafa undan eftirmanni mínum. Það fylgir því ábyrgð að vera fyrrverandi formaður og maður þarf að vanda sig í því hlutverki. Það eru alltof mörg dæmi um að fyrrverandi formenn stjórnmálaflokka séu helsti vandi sitjandi formanns og óþarfi að bæta á það.

Ég sé mig ekki fyrir mér sem eilífan augnakarl á þingi. Ég hef hugmyndir, vil tala og berjast fyrir þeim og er tilbúinn að gera það svo lengi sem ég finn hljómgrunn fyrir því að ég sé að gera gagn. Ég held að framtíðin muni ráðast af mati á því. Svo lengi sem Samfylkingin vill vera jafnaðarmannaflokkur sem tekur sér stöðu í miðju samfélagsins og sættir sig ekki við að afhenda hægri öflunum frumkvæðið og lykilstöðu í samfélaginu þá á ég heima þar.“

En ef hún vill það ekki, gætirðu þá hugsað þér aðrar pólitískar vistarverur, annan flokk?

„Samfylkingin á að verða sterkur og fjölmennur jafnaðarmannaflokkur þannig að formaður hennar standi ekki frammi fyrir spurningum um það hvort hann eigi að fara í aðra flokka vegna þess að fólk sé farið að efast um að Samfylkingin sé alvöru jafnaðarflokkur. Það að ég fái þessa spurningu á að vera flokksfólki áhyggjuefni og hvetja okkur öll til dáða.
Samfylkingin verður að sýna að hún sé tilbúin til samstarfs. Annars breytist hún í smáflokk.

Ég gekk til liðs við Samfylkinguna vegna þess að ég heillaðist af þeirri hugmynd að hún væri alvöru valkostur fyrir allan þann fjölda fólks sem vill ekki aðhyllast einn smáflokkinn umfram annan og vill skapa jákvætt og uppbyggilegt samfélag þar sem væru jöfn tækifæri og frjáls samkeppni. Meðan Samfylkingin gegnir þessu hlutverki þá er hún að mæta væntingum mínum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Þessir staðir og fyrirbrigði á Íslandi segja ferðamenn að séu ofmetin

Þessir staðir og fyrirbrigði á Íslandi segja ferðamenn að séu ofmetin
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnhildur segir marga klóra sér í skallananum yfir orkuefnunum – „Miklu meira valdeflandi að nálgast mat en að forðast mat“

Ragnhildur segir marga klóra sér í skallananum yfir orkuefnunum – „Miklu meira valdeflandi að nálgast mat en að forðast mat“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýjar vendingar í „hvarfi“ Nökkva Fjalars

Nýjar vendingar í „hvarfi“ Nökkva Fjalars
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – Ástin, fjölbreytileikinn og kelerí í Skógarböðunum

Vikan á Instagram – Ástin, fjölbreytileikinn og kelerí í Skógarböðunum