fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
FókusKynning

Mýrmann: Ferðalag umbreytinga

Kynning

Listnaðurinn opnar sýninguna Constructive/Uppbyggilegt laugardaginn 7. maí

Ritstjórn DV
Föstudaginn 6. maí 2016 06:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Listamaðurinn Mýrmann opnar sýninguna Constructive/Uppbyggilegt í Gallerí Fold, Rauðarárstíg, laugardaginn 7. maí n.k. kl. 15. Mýrmann heitir réttu nafni Víðir Ingólfur Þrastarson og þetta 17. einkasýning hans en hann hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Mýrmann hefur lagt stund á myndlist frá unga aldri. Hann á einnig hönnunarnám að baki en lærði svo hjá listmálaranum Odd Nerdrum í Noregi árið 2011. Ég hitti Mýrmann þegar hann var að stilla upp sýningunni við Rauðarárstíginn.

Á sýningunni eru 11 stór og kraftmikil olíuverk og Mýrmann segir mér að hann líti svo á að þetta séu allt landslagsverk. Þau birta þó tvo ólíka heima sem mynda andstæður. Annars vegar eru það kröftugar myndir af ósnortinn náttúru Íslands og svo myndir af borgarlandslagi.

Mynd: // / / /

„Þetta er svona eins og ég sé Ísland. Ég sé Ísland alltaf fyrir mér eins og það sé skrímsli, hættulegt skrímsli sem er tilbúið að éta allt og alla ef fólk leyfir því það. Ég sé landið okkar ekki eins og það sé sætt og fallegt, eins það er oft auglýst. Ég skynja náttúruna okkar allt öðruvísi en það.“ Mýrmann bendir á að þetta séu nokkuð gróf verk þótt þau séu unnin upp í lögum. „Ég er alltaf að reyna að ná fram þessari orku sem býr í landinu.“ Náttúran í þessum myndum er ósnortin og það er ekkert sem bendir til þess að maðurinn hafi komið þar nærri.

Í uppbyggingunni fellst alltaf niðurrif og umbreyting

Mynd: // / / /

Mýrmann snýr sér svo að hinum verkunum á sýningunni sem eru mun fleiri. Myndirnar sýna iðnaðarsvæði og borgarlandslag í uppbyggingu. „Það sem ég er í raun að sýna með þessum myndum er uppbygging og í uppbyggingunni fellst alltaf niðurrif og umbreyting. Það er auðvitað viss ádeila á okkur mennina og græðgina sem fer um allt. Verksmiðjurnar birtast sem ófreskjur. Mér þykir líka gaman að draga fram fegurðina í ljótleikanum. Það sem grípur augað mitt er ekki endilega hlutir sem flestu fólki finnast fallegir en þeir eru að reyna að segja mér eitthvað. Segja ákveðna sögu.“

Mýrmann vill þó ekki gefa of mikið uppi um merkingu verkanna. Áhorfandinn á að fá frelsi til að upplifa verkin sjálfur.

Verk Mýrmanns hafa yfir sér blæ liðinna tíma þótt myndefnið sé úr nútímanum. Hann útskýrir fyrir mér að það tengist tækninni. Hann noti mikið eldri málaratækni en brjóti þó allar reglur þegar honum sýnist eftir því sem verkin krefjist. Ef verkin séu of akademísk skorti þau oft einhverja snertingu listamannsins sem kveiki í þeim líf.

Mýrmann segir mér að hann leyfi sér að láta tilfinninguna taka stjórnina þegar hann vinni verkin sín. Hann byggi þó á einhverri grunnhugmynd en svo ráðist það í ferlinu hvaða stefnu verkið taki. „Þegar ég er að vinna verkin leyfi ég þeim svolítið að taka mig með sér.“

Verkin birta ekki einungis andstæður villtrar náttúru og borgarlandslags heldur einnig myrkurs og ljóss. „Ég mála mikið ljósaskiptin. Mér finnst eitthvað heillandi við breytingar og það er það sem ég er auðvitað að reyna að fanga á þessari sýningu. Breytingaferli.“

Sýningin stendur til 30. maí. Allir velkomnir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
19.03.2024

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“
Kynning
27.10.2023

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni