Í verslun Nespresso í Boston starfar ungur maður sem tekið hefur ástfóstri við íslenskra rapptónlist og er mikill aðdáandi Emmsjé Gauta, Friðriks Dórs og Jóns Jónssonar. Það er Jón Jónsson sjálfur sem hitti afgreiðslumanninn á dögunum og birti myndskeið af fundinum á Twitter.
Myndskeiðið birtir Jón eftir að mosfellingurinn Stefán Pálsson sagði frá kynnum sínum af starfsmanninum á Twitter en sá ber nafnið Connor. Mun Connor hafa tjáð Stefáni að hann elskaði nýju plötuna með Jóa Pé og Króla og væri þar að auki mikill aðdáandi Emmsjé Gauta og bræðranna Friðrik Dórs og Jóns Jónssonar.
„Hann talar ekki stakt orð í íslensku og hefur aldrei komið til Íslands. Hann elskar bara íslenskt rapp,“ ritaði Stefán og birti Jón þá athugasemd undir með orðunum: „Connor er maðurinn!“
Greinilegt er að vel fór á með þeim Jóni og Connor en Connor kveðst meðal annars hlusta á íslenska rapparann KÁ-AKÁ eða „Kaka“ eins og ber nafnið fram. Þá heldur hann mikið upp á lagið „Keyrumettaígang“ í flutningi Friðriks Dórs.
Connor er maðurinn..! pic.twitter.com/jBZPy4WnTR
— Jón Jónsson (@jonjonssonmusic) October 8, 2017