Markmið Hringsjár er að veita náms- og starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga 18 ára og eldri sem vegna sjúkdóma, slysa, fötlunar eða annarra áfalla þurfa á endurhæfingu að halda til að takast á við nám og sem vill komast aftur út á vinnumarkaðinn. Námið hentar einnig þeim sem hafa litla grunnmenntun eða eru með sértæka námserfiðleika. Einnig eru í boði fjölbreytt styttri námskeið sem hafa hjálpað mörgum að komast aftur af stað, eða í fyrsta sinn, til meiri virkni í lífinu og betri lífsgæða.
Helga Eysteinsdóttir veitir Hringsjá forstöðu og að hennar sögn er stefna þjónustunnar sú að einstaklingar sem útskrifist frá Hringsjá séu færir um að takast á við nám í almennum framhaldsskólum og finna störf við hæfi á almennum vinnumarkaði.
„Starf okkar felst fyrst og fremst í aðstoð til sjálfshjálpar og byggir á námi, ráðgjöf, stuðningi og samvinnu,“ segir Helga.
Næsta útskrift hjá Hringsjá verður haldin með pomp og pragt 19. maí. Þá útskrifast 16 nemendur eftir 3 anna nám en flestir þeirra hafa þegar skipulagt áframhaldandi nám eða atvinnuþátttöku og aðrir nemendur fá afhentar einkunnir.
Þrír af útskriftarnemum Hringsjár þessa vors settust niður á kaffihúsi með blaðamanni DV.is og deildu reynslu sinni og upplifun af skólanum.
Gefum Frey Jóhannessyni, útskriftarnema, orðið:
„Sérstaða Hringsjár felst til dæmis í einstaklingsmiðuðu nám. Auk kennslu er í boði sérfræðileg ráðgjöf og í sumum tilvikum er hægt að fá einstaklingsmiðaða einkakennslu. Á fyrstu og annarri önn fórum við í almennt nám eins og íslensku, ensku og tölvunotkun, m.a. kennslu í excel og power point. Svo eru ýmis námskeið/fög eins og hópefli og íþróttir sem við getum tekið í val. Sumir velja sund og aðrir jóga. Námið hér hjá Hringsjá er mjög einstaklingsmiðað og því ólíkt öðrum skólum hvað það varðar og það getur hentað sumum afar vel. Kennararnir eru ótrúlega flottir og kunna heldur betur sitt fag. Þeir eru vel meðvitaðir um að staða nemenda misjöfn; sumir hafa kannski verið eitthvað í skóla, aðrir flosnað alveg upp frá námi. Hjá Hringsjá byrjar maður á undirbúningsnámskeiði áður en sjálft námið hefst, og er ýmislegt í boði eins og t.d. sjálfstyrkingarnámskeið, tölvunámskeið og námskeið í núvitund, svo dæmi séu tekin. Leið mín lá hingað þegar ég var að bíða eftir því að komast í langtímameðferð. Ég var í sambandi við félagsráðgjafann minn og vildi endilega hafa eitthvað fyrir stafni. Hann kom mér á námskeið og áður en ég vissi af var búið að skrá mig á fyrstu önnina.Starfsfólkið og kennararnir vita hvað þeir geta fengið út úr okkur nemendunum og ná með einhverjum hætti að ná fram því besta í okkur. Þau eru snillingar í því að virkja hvern og einn! Ég ætla að halda áfram í námi eftir útskriftina héðan og sótti um á íþróttabraut í FB og ÍAK námið hjá Keili. Mér þykir mikil öryggistilfinning í því að vita að ég get sótt um eftirfylgni hjá Hringsjá eftir að ég byrja í nýja náminu og get leitað til þeirra eftir útskrift. Okkur er ekki bara fleygt út í djúpu laugina heldur er takinu sleppt af okkur hægt og rólega og það er ég þakklátur fyrir,“ segir Freyr, sem hlakkar til útskriftarinnar.“
Kristín Laufey Bryndísardóttir segir að hún hafi verið að vinna frá því hún man eftir sér en fékk á tímapunkti heiftarlegt kvíða- og taugaáfall:
„Samkvæmt læknisráði sagði ég upp störfum og fór í Virk þar sem ég vann í mínum málum með aðstoð sálfræðings sem síðan sendi mig áfram í Hringsjá. Þannig er ég hingað komin. Hér er allt utanumhald til fyrirmyndar og persónulegt andrúmsloft sem maður skynjar þegar í upphafi. Þú sem einstaklingur skiptir svo sannarlega máli. Ritararnir þekkja okkur nánast strax með nafni og allt umhverfi er notalegt. Maður verður svo tengur öllum.
Mér finnst Hringsjá vera mjög góður undirbúningur fyrir framhaldsnám og ég ætla ótrauð í nám við Borgarholtsskóla næsta haust. Þegar ég byrjaði í Hringsjá hafði ég ekki hugmynd um hvað ég vildi gera í lífinu – það hefur aldeilis breyst! Þetta er búið að vera frábær tími hér. Auðvitað koma upp tímar þar sem maður missir kannski aðeins móðinn, en svo með dyggum stuðningi kennara og annars starfsfólks Hringsjár þá heldur maður bara áfram og hugsar jákvætt.“
Berglind Ósk Sigurjónsdóttir tekur undir orð félaga sinna og bætir við að Hringsjá sé algjört hreiður; þar sé fólk bókstaflega að blómstra og finna sig:
„Við sem stundum nám hér höfum glímt við mismundandi erfiðleika í lífinu og komum úr ólíkum áttum. Meðal þess sem fólk hefur verið að kljást við er að hafa lent í mjög miklu einelti og búið við mikla einangrun, eða verið heima vegna veikinda í lengri tíma og þarf virkilega á stuðningi að halda. Eftir útskrift mína héðan stefni ég á sjúkraliðanám í FB. Ég hefði ekki að óreyndu trúað því að ég kæmist svona langt áfram, þetta er algjör sigur fyrir mann. Þegar við byrjum hér erum við auðvitað öll á mismunandi stað en með leiðsögn þessara frábæru kennara hér náum við markmiðum okkar, hvert og eitt.“
Hringsjá – náms– og starfsendurhæfing, Hátúni 10d, 105 Reykjavík.
Sími: 510 – 9380. Tölvupóstur: hringsja@hringsja.is