fbpx
Mánudagur 16.desember 2024
Fréttir

Framkvæmdastjórinn fékk nýjan lúxus-Benz

Ríkisstofnunin VTÍ skipti út nýlegum VW Tiguan fyrir glæsilegan Mercedes-Benz GLC – Kostaði hátt í 7 milljónir

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 3. maí 2016 06:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framkvæmdastjóri ríkisstofnunarinnar Viðlagatrygging Íslands (VTÍ) fékk í síðasta mánuði nýjan og glæsilegan Mercedes-Benz GLC jeppling til afnota sem hluta af starfskjörum sínum. Ákveðið var að skipta út tæplega fjögurra ára Volkswagen Tiguan R Line-jeppling og leita tilboða í nýjan. Hagstæðasta tilboðið í örútboði VTÍ reyndist hinn glæsilegi GLC-jepplingur og var hann keyptur á tæpar sjö milljónir króna. Ríkiskaup reynir nú að selja gamla framkvæmdastjórabílinn á uppboði upp í kaupverðið.

Gamli bíllinn nýlegur

Ekki er hægt að segja að gamli bíllinn, sem nú er reynt að selja, líti út fyrir að vera í slæmu ásigkomulagi. Um er að ræða 2012 árgerð af VW Tiguan R Line, sportútgáfu með low profile-felgum og sóllúgu yfir allt þakið. Bifreiðin var keypt ný fyrir VTÍ í árslok 2012 og er því tæplega fjögurra ára gömul og ekin 85 þúsund kílómetra.

Aðspurð um hvers vegna ákveðið var að selja þennan tiltölulega nýlega bíl vísar Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri VTÍ, til stefnu ríkisins í þessum efnum.

„Það er stefna hjá ríkinu að endurnýja svona bíla á þriggja ára fresti, yfirleitt.“

Seldist ekki á uppboði

Eins og vanalega þegar skipt er um bifreiðar hjá fyrirtækjum og stofnunum ríkisins þá reyna Ríkiskaup nú að selja gamla bílinn upp í kostnaðinn af þeim nýja. Tiguan-bifreiðin seldist ekki á bílauppboði sem lauk í síðustu viku og þarf því að fara aðra umferð. Hæsta tilboð sem barst í síðasta uppboði nam 3,3 milljónum króna en náði ekki lágmarksverði. Í uppboðinu sem nú stendur yfir hefur borist tilboð upp á 3,7 milljónir, en lágmarksverði ekki náð. Ljóst er því að VTÍ vill meira fyrir bílinn.

Framkvæmdastjóri VTÍ hafði þennan VW Tiguan R Line-sportjeppling til afnota en hann var keyptur nýr í árslok 2012. Reynt er að selja hann núna á bílauppboði.
Sá gamli Framkvæmdastjóri VTÍ hafði þennan VW Tiguan R Line-sportjeppling til afnota en hann var keyptur nýr í árslok 2012. Reynt er að selja hann núna á bílauppboði.

Mynd: Bilauppbod.is

Nýir VW Tiguan R Line-jepplingar kosta í dag frá tæplega 5 milljónum króna. Á vefnum Bílasölur.is er að finna sambærilega bíla, 2012 árgerð en talsvert minna ekna en bifreið Viðlagatryggingar á allt að 4,4 milljónir.

GLC á hátt í sjö milljónir

En hvers vegna þarf framkvæmdastjóri VTÍ nýjan Mercedes-Benz GLC-jeppling? Hulda Ragnheiður segir að bíllinn hafi komið hagstæðast út úr fimm bílum sem uppfyllt hafi skilyrði útboðsins. Hún segir að tilboðið sem tekið var hafi hljóðað upp á 6.798.000 krónur. Samkvæmt ökutækjaskrá var hann keyptur 12. apríl síðastliðinn. Eins og við er að búast næst að jafnaði ágætt hagræði með útboði í gegnum Ríkiskaup. Samkvæmt verðlista Öskju fyrir Mercedes-Benz GLC-jepplinga kosta þeir nýir frá tæplega 8 milljónum upp í ríflega 12 milljónir króna.

„Hann er ekki búinn neinum aukabúnaði, hann er alveg strípaður,“ segir Hulda Ragnheiður um bílinn en bendir á að hún hafi ekki bifreiðakaupin á sinni könnu sem framkvæmdastjóri. Miðað við kaupverðið er ljóst að ríkisstofnunin hefur náð að kaupa glæsibifreiðina á um eina milljón undir markaðsvirði samkvæmt verðlista Öskju. Engu að síður er ljóst að VTÍ keypti mun dýrari og veglegri bifreið en fyrir var. Og mismunurinn á því sem fæst fyrir gamla bílinn og því sem nýi var keyptur á kemur af almannafé.

Svona eru nýir bílar keyptir

Til að kaupa nýja bifreið fyrir hönd stofnana eða ríkisfyrirtækja þar að fylla út umsókn til Bílanefndar ríkisins þar sem koma þarf fram meðal annars lýsing á hlutverki og þörfum, áætlaður akstur á ári og óskir um sérbúnað og aukabúnað.

Framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands.
Hulda Ragnheiður Árnadóttir Framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands.

Þegar væntanlegir kaupendur hafa fengið heimild hjá Bílanefnd ríkisins til bílakaupa efna kaupendur til örútboðs um þær bifreiðar sem kaupa skal. Í kjölfar örútboðs, þar sem leitað er skriflegra tilboða meðal samningshafa þar sem besta tilboðið, á grundvelli þeirra krafna og óska sem gerðar voru, sendir kaupandi inn pöntunarbeiðni til Ríkiskaupa. Ríkiskaup panta síðan bifreiðina fyrir viðkomandi stofnun eða ríkisfyrirtæki sem skráð verður fyrir bifreiðinni.

Að sögn Huldu var það stjórn VTÍ sem tók ákvörðun um kaupin að loknu útboði. Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrverandi þingmaður, er formaður stjórnar VTÍ. Ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar þar sem hann er staddur erlendis.

Geta gert óþarfa kröfur

Samkvæmt heimildum DV eru ákveðnar glufur fyrir kaupendur bíla í umsóknarferlinu til bílanefndar. Nánar tiltekið þar sem forsvarsmenn stofnana og ríkisfyrirtækja geta gert óskir um sérbúnað og aukabúnað bifreiða. Þó það sé síður en svo algengt, þá eru dæmi þess í gegnum tíðina að með því að gera tilteknar kröfur um ýmsan „óþarfa“ lúxus, vélarafl og/eða togkraft sem útilokar með því ódýrari og minni bifreiðar en þrengir möguleikana niður í dýrari, flottari lúxusbifreiðar – ef vilji er fyrir hendi. Þrátt fyrir að ráðgjöf sé veitt herma heimildir DV að Ríkiskaup og bílanefnd hafi í raun ekki vald til að banna stofnunum og ríkisfyrirtækjum þetta, þrátt fyrir eftirlitshlutverk sitt. Komið getur athugasemd frá þeim sem sér um að panta bílinn, telji hann eitthvað óeðlilegt á ferðinni, en það getur brugðist. Bílanefndin er samkvæmt heimildum DV berskjölduð gagnvart þessu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Orri taldi 27 lundabúðir á Laugaveginum – Ríkið þurfi að innheimta meiri gjöld af ferðaþjónustunni

Orri taldi 27 lundabúðir á Laugaveginum – Ríkið þurfi að innheimta meiri gjöld af ferðaþjónustunni
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum
Sagt upp á jólunum
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Skiptar skoðanir á Bíladögum á Akureyri – Karlar mun jákvæðari en konur

Skiptar skoðanir á Bíladögum á Akureyri – Karlar mun jákvæðari en konur
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Fékk vægan dóm fyrir að misþyrma leigubílstjóra

Fékk vægan dóm fyrir að misþyrma leigubílstjóra
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Snorri segir ýmislegt benda til þess að samstarfið geti súrnað hratt

Snorri segir ýmislegt benda til þess að samstarfið geti súrnað hratt
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

„Nú virðast formennirnir vera að setja upp leikrit“

„Nú virðast formennirnir vera að setja upp leikrit“