fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Fókus

„Fólk mun fá nýja sýn á liðið“

Sölvi Tryggvason fylgdi strákunum okkar í gegnum undankeppnina – Jökullinn logar frumsýnd 3. júní

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 29. maí 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það eru í myndinni hjartnæm „móment“, þar sem menn eru mjög innilegir,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Sölvi Tryggvason. Hann er nú að leggja lokahönd á Jökullinn logar, heimildamynd um undankeppni íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Sölvi fylgdi strákunum okkar í gegnum alla leiki undankeppninnar ásamt leikstjóranum Sævari Guðmundssyni. „Þetta hefur verið langt ferðalag og mikið vatn runnið til sjávar,“ segir Sölvi, sem fékk hugmyndina þegar HM í knattspyrnu fór fram 2014 – mót sem Íslendingar misstu naumlega af.

„Myndin er sagan af gullkynslóð íslenskrar knattspyrnu sem skráði sig í sögubækurnar með því að verða fámennasta þjóð sögunnar til að komast í lokakeppni stórmóts í vinsælustu íþrótt heims,“ segir í kynningu um myndina.
Sölvi viðurkennir að hafa þurft að beita fortölum til að fá óheftan aðgang að liðinu. Um aðgengið gilda skýrar reglur, bæði frá UEFA og FIFA, ásamt þeim reglum sem þjálfarar og KSÍ setja. „Ég þurfti að byrja á því að sannfæra Lars og Heimi,“ segir Sölvi.

Sölvi og félagar höfðu meiri aðgang að liðinu en gengur og gerist.
Nuddað á hóteli Sölvi og félagar höfðu meiri aðgang að liðinu en gengur og gerist.

Stigu stundum á línuna

Í fyrstu keppnisferðinni var hann einn síns liðs en fékk síðar – þegar reynsla var komin á samskiptin – að hafa með sér leikstjóra og tökumann. Sölvi segir við DV að fyrst um sinn hafi strákarnir verið mjög varir um sig í kringum myndavélina en þegar líða tók á samstarfið varð andrúmloftið léttara og hann fékk betri og dýpri viðtöl. „Við náðum að dansa þessa línu býsna vel,“ segir hann um mörkin sem þjálfararnir og leikmenn settu þeim. „Við stigum stundum aðeins á línuna en vorum þá tilbúnir að bakka. Það hjálpaði auðvitað hvað þeim gekk vel í leikjunum,“ segir hann og telur að andrúmsloftið hefði verið öðruvísi ef liðið hefði ekki verið á sigurbraut.

Blanda af léttleika og alvöru

Sölvi segir aðspurður að í myndinni kynnist áhorfendur ákveðnum leikmönnum nánar en áður. Hann segir að andinn í hópnum sé einstakur og að það skíni úr andlitum strákanna hversu gaman þeim þykir að vera saman. Á bak við tjöldin séu ferðirnar hárrétt blanda af léttleika og alvöru. „Ég hugsaði stundum með mér hvernig það væri að vera inni á hótelinu hjá hinum liðunum. Ég geri mér í hugarlund að það hefði verið svolítið öðruvísi. Þeim finnst, mjög einlæglega, gaman að hittast og njóta þessa að vera saman.“

Til marks um samkenndina nefnir hann viðhorf þeirra sem höfðu það hlutskipti að sitja á bekknum í undankeppninni. „Varamennirnir sem spiluðu aldrei voru aldrei að væla. Þeir styðja félagana í þeirra stöðu inni á vellinum. Og það er raunverulegur stuðningur. Fyrir mér var magnað að fylgjast með þessu. Það er óvenjulegt hve vel þeir ná saman.“

Ekki sýnd í sjónvarpinu

Fréttir bárust af því í vetur að fjármögnun myndarinnar gengi erfiðlega. Sölvi segir að með mikill þrautseigju hafi þeim tekist að fá styrk frá Kvikmyndasjóði en þeir eigi töluvert undir því að myndin verði vel sótt í kvikmyndahúsum – auk þess sem þeir munu reyna að selja myndina til útlanda. Hann segir að þeir Sævar hafi lengi vel unnið við myndina alveg launalaust en hún verður frumsýnd þann 3. júní næstkomandi. Hún verður ekki sýnd í sjónvarpinu fyrir EM. „Við eigum mikið undir því að fólk mæti í bíó,“ segir hann.

Sölvi fylgdi íslenska landsliðinu á alla leiki undankeppninnar.
Með Þorgrími Þráins Sölvi fylgdi íslenska landsliðinu á alla leiki undankeppninnar.

Mynd: Úr einkasafni

Ný sýn á liðið

„Já og nei,“ svarar Sölvi spurður hvort stiklan fyrir myndina gefi áhorfendum glögga mynd af verkinu. Hann segir að fyrst hafi þeir gert stiklu sem sýndi meira hvaða aðgang þeir höfðu að leikmönnum en í endanlegri útgáfu er meiri áhersla lögð á gleðina og „hetjufílinginn“. „Myndin sjálf mun sýna betri innsýn inn í þann aðgang sem við höfðum. Fólk mun fá nýja sýn á liðið.“ Hann segir að eftir því sem á keppnina hafi liðið hafi strákarnir farið að sýna á sér léttari hliðar – og kannski fellt grímu fagmennskunnar utan vallar. „Það tók tíma að fá þá til að vera rólega í kringum mig. Það var mjög gaman þegar maður fann að þeir treystu mér nógu vel til að tala opinskátt í kringum mig. Þá fóru þeir að leyfa sér þennan fíflagang, þennan léttleika, sem einkennir hópinn og er hluti af árangrinum.“

Eins og heyra má í stiklunni sem birt hefur verið eru tekin einlæg viðtöl við leikmenn. Sölvi segir að einn leikmaður tali til dæmis um það hvernig fótboltinn bjargaði honum úr viðjum ofvirkni- og athyglisbrests auk þess sem þeir ræða um drauma sína og markmið. Þá birtist jafnframt áður óbirt myndefni frá æskuárum landsliðsmannanna.

Spurður hvernig hann upplifði hlutverk Lars og Heimis segir hann að strákarnir beri mikla virðingu fyrir þeim og séu meðvitaðir um að Lars „er gæinn sem sendi Zlatan heim þegar hann var með stæla“. Hann segir að í grunninn gildi ákveðnar reglur sem séu ófrávíkjanlegar, svo sem eins og um áfengisneyslu, en að mikill slaki sé þess fyrir utan. Sölvi heillaðist mjög af stjórnunarstílnum. Reglurnar séu fáar en afar skýrar. „Síðan mega menn vera í friði utan þess ramma og þjálfararnir eru alltaf tilbúnir að ræða málin. Mönnum er treyst – enda eru þetta fullorðnir menn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Aþena Sól var frelsissvipt og pyntuð en vitnið þagði – „Ég elska að sjá þig þjást“

Aþena Sól var frelsissvipt og pyntuð en vitnið þagði – „Ég elska að sjá þig þjást“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ritdómur: Óljós eftir Geir Sigurðsson

Ritdómur: Óljós eftir Geir Sigurðsson
Fókus
Fyrir 4 dögum

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna