Emmessís
Elsta og vinsælasta varan frá Emmessís er Toppur sem kom á markaðinn árið 1968. Fólk á miðjum aldri og þar yfir þekkir hann vel frá æskudögum sínum og fólk á öllum aldri nýtur hans í dag en hann selst ennþá gríðarlega vel. „Vissulega eru til dæmi um slíkar, sívinsælar vörutegundir erlendis en engu að síður er þetta fremur fágætt. Að eiga svona vöru sem selst ár eftir ár er mjög gott. Þetta er klárlega vinsælasta einstaka varan okkar,“ segir Ragnar Birgisson, framkvæmdastjóri Emmessíss.
Fjórar tegundir af Toppum eru í boði núna, þar sem hnetutoppurinn heldur áfram að standa sína plikt eins og hann hefur gert allar götur síðan 1968, en auk hans eru það Smarttoppur, sem er með Smartískúlum og hjúp, Daimtoppur, með Daim-kúlum og súkkulaðihjúp, og Karamellutoppur, sem kom aftur til sögunnar í fyrra eftir nokkurt hlé og sló í gegn á ný.
„Daim-vörurnar okkar eru mjög vinsælar, en auk toppsins eru það Daimpinnar og Daimís í boxum.,“ segir Ragnar. Hann bendir á að nokkur tilfærsla hafi orðið á lausasölu pinnaíssins. Hér áður fyrr hafi þeir fyrst og fremst verið seldir í sjoppum en þeim hefur fækkað mjög mikið. Emmess-pinnaísinn er vissulega vinsæll í sjoppum víða á landsbyggðinni sem og á öllum sölustöðum N1 og Olís en að öðru leyti hefur hann mikið færst í heimilispakkningar í stórmörkuðum og selst þar best. Sem dæmi má nefna að Karamellutoppurinn vinsæli fór fyrst í lausasölu en sló mun betur í gegn eftir að hann fór einnig í heimilispakkningar.
Meðal annarra vinsælla pinnaísa má nefna Galdrastaf og Karnival-stöng, hvort tveggja nýjungar sem komu fram í fyrra og mæltust þá mjög vel fyrir; Vanillustöng sem er í EM-búning í sumar, Trúðaísinn sívinsæla, og svo lurkana, en það eru frostpinnar; þeir eru vitanlega án mjólkur og því góður kostur fyrir þá sem eru með mjólkuróþol.
Emmessís teflir fram spennandi nýjung í heimilispakkningum núna í vor en það er tilboðskassi með sjö Djæfpinnum á verði fimm. Þetta eru pinnar með hrískúlum, súkkulaðibragði og hnetukurli. Búast má við að þessi pakki eigi eftir að slá hressilega í gegn hjá þeim mörgu sem elska Djæfpinna.
Önnur, ekki síður spennandi nýjung, er nýr Djæfpinni með pipardufti, hinu vinsæla „Turkish Pepper“-dufti. Það er örugglega tilhlökkunarefni fyrir marga að bragða á honum.
Emmessís rekur ekki ísbúðir lengur en er í samstarfi við margar ísbúðir sem selja ís úr vél, til dæmis N1-keðjuna og IKEA, sem er mjög vaxandi aðili í íssölu. Ragnar segir að í grófum dráttum megi segja að Emmessís og Kjörís skipti ísmarkaðnum á milli sín:
„Þá undanskiljum við ísbúðirnar sem margar eru reknar af aðilum sem framleiða sinn ís sjálfir, og enn fremur nokkar dýrar og vinsælar innfluttar tegundir. Það sem gefur okkur sérstöðu í þessari samkeppni er að við erum rjómaíssfyrirtæki. Við framleiðum ekki ís úr jurtafeiti heldur rjóma – þetta er beint af kúnni. Það er sagt að mjólk sé góð og við segjum hiklaust að rjómi er góður. Mér finnst mikilvægt að undirstrika þetta því það gera sér ekki allir grein fyrir þessari sérstöðu Emmessíss.“
Á heimasíðu Emmessíss www.emmessis.is, er að finna ítarlegar upplýsingar um vöruframboðið, fróðleik um sögu fyrirtækisins og margt fleira.
Emmessís er einnig með lifandi og skemmtilega síðu á Facebook. Þar eru ýmsir fróðleiksmolar og reglulega er brugðið á leik þar sem fylgjendur geta unnið vegleg ís-verðlaun