fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Fókus

Bíóin koma til sögunnar

Fjörutíu stiga hiti inni í salnum – Fyrstu talmyndirnar

Kolbrún Bergþórsdóttir
Laugardaginn 7. maí 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bíóferðir hafa verið meðal allra vinsælustu skemmtana Reykvíkinga allt frá árinu 1906, en svo snemma hófust skipulegar kvikmyndasýningar hér á landi. Framan af öldinni sem leið voru aðeins tvö kvikmyndahús í bænum, en á fimmta áratugnum fjölgaði þeim í sjö og síðar áttu fleiri eftir að bætast við.

Björn Jón Bragason skrifar:

Handknúnar vélar og mikill hiti

Áður en skipulegar kvikmyndasýningar hófust voru stöku sinnum til sýninga kvikmyndir í Bárubúð og Iðnó, þær fyrstu árið 1903. Forgöngu að fyrstu kvikmyndasýningunum hafði Fr. Warburg, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn, en athyglisvert er til þess að hugsa að á sama tíma voru aðeins þrjú kvikmyndahús starfrækt þar í borg og ekki nema fáein ár frá því að skipulagðar sýningar kvikmynda hófust í Lundúnum og París.

Warburg keypti áhöld til sýninga og litla olíuknúna rafstöð og sendi hingað mann til að hefja sýningar. Breiðfjörðshús við Aðalstræti 8 varð fyrir valinu sem sýningarsalur, en það hús var síðar þekkt undir nafninu Fjalakötturinn. Sæti þar í salnum voru um 300 og flest á lausum bekkjum. Fyrirtækið fékk nafnið Reykjavíkur Biograftheater, en í daglegu tali var brátt farið að kalla það Bíó. Þetta fyrsta kvikmyndahús bæjarins naut frá fyrstu tíð gríðarlegra vinsælda og ýmsir framámenn í bæjarlífinu áttu þar sín föstu sæti.

Flest var afar frumstætt í kvikmyndatækni þessa tíma, en sýningarvélin var handknúin fyrstu árin og lagði mikinn hita frá henni. Á sama tíma var engin loftræsting í salnum, svo hitinn fór hæglega upp í fjörutíu stig þar inni.

Kvikmyndasýningarnar voru eðlilega auglýstar í dagblöðum bæjarins og heiti kvikmynda þýdd frá fyrstu tíð. Þar þótti misvel takast til, en eitt sérstæðasta dæmið þar um er „Sjórekna barnið“ sem var þýðing á heiti myndarinnar „Home Sweet Home“.

„Hljóm- og tal-mynd í 11 þáttum,“ sagði í auglýsingunni. Al Jolson var í aðalhlutverki.
Fyrsta talmynd Nýja bíós „Hljóm- og tal-mynd í 11 þáttum,“ sagði í auglýsingunni. Al Jolson var í aðalhlutverki.

Nýja Bíó

Fram til ársins 1912 var Reykjavíkur Biograftheater eina kvikmyndahúsið í bænum, en það ár var stofnað annað kvikmyndahús í sal Hótel Íslands sem fékk nafnið Nýja Bíó hf. Nafnið Gamla Bíó festist því fljótt við eldra fyrirtækið. Stofnendur Nýja Bíós voru Sveinn Björnsson yfirdómslögmaður, Friðrik og Sturla Jónssynir kaupmenn, Ólafur Johnson stórkaupmaður, Carl Sæmundsson stórkaupmaður og Pétur Brynjólfsson ljósmyndari.

Salurinn á Hótel Íslandi var útbúinn með upphækkuðum sætaröðum og lyftanlegum sætum. Bjarni Jónsson gerðist framkvæmdastjóri kvikmyndahússins árið 1914 og gegndi því starfi um langt skeið, en hann eignaðist brátt fyrirtækið og rak það lengi í félagi við Guðmund Jensson. Árið 1919 hófst bygging nýs og glæsilegs kvikmyndahúss Nýja Bíós við Austurstræti og hófust sýningar þar árið eftir.

Veglegasta samkomuhús bæjarins

Árið 1913 lést Warburg og þá keypti maður að nafni Petersen öll tæki Gamla Bíós af dánarbúi hans, en Petersen hafði starfað við kvikmyndahúsið frá upphafi. Umfang starfseminnar óx ár frá ári og 1925 hófst bygging nýs kvikmyndahúss við Ingólfsstræti. Húsið var vígt 1927 og var mikið til þess vandað, svo sem sjá má enn þann dag í dag. Þar var meðal annars komið fyrir fullkomnum loftræstibúnaði, svo bíógestir þurftu ekki að stikna út hita. Þetta veglega samkomuhús varð brátt aðalsamkomuhús bæjarbúa og fjölmargir fundir og hljómleikar þar haldnir. Húsið er lítið breytt frá upphaflegri gerð, þrátt fyrir að þar sé því miður ekki lengur rekið kvikmyndahús.

Talið kemur til sögunnar

Ein stórkostlegasta breyting í kvikmyndagerðinni var tilkoma talmyndanna. Tíðindamaður Vísis fór á fund Petersen bíóstjóra til að leita fregna af þessu máli í maímánuði 1930. Petersen hafði þá nýlega ferðast um Bretland og Danmörku og skoðað fjölda kvikmyndahúsa er sýndu talmyndir, en hann lét þess getið að miklar framfarir væru á þessu sviði um þær mundir.

Stjórnendur Nýja Bíós létu ekki sitt eftir liggja og urðu sér líka úti um hin fullkomnustu áhöld til talmyndasýninga sem völ var á. Nýju hljóð- og talmyndatæki kvikmyndahúsanna kostuðu alls 96 þúsund krónur, sem var gríðarmikið fé á þeim tíma. Blaðamaður Alþýðublaðsins tók þessari byltingu fagnandi, ekki hvað síst fyrir þá sök að meirihluti kvikmynda undangenginna ára hefði verið „af verstu tegund, glæpamyndir tilbúnar í þeim tilgangi einum að æsa og skemma fólk“. Nú hillti aftur á móti undir betri tíð – nýja kvikmyndaöld – og víst væri að bíóhúsin hefðu aflað sér góðra talmynda.

Húsið var vígt 1927 og var mikið til þess vandað.
Gamla Bíó Húsið var vígt 1927 og var mikið til þess vandað.

Tungur stórþjóðanna fá að heyrast

Í Fálkanum sagði um talmyndirnar að söngurinn og hljóðfæraslátturinn gerði þær „miklu fjörugri og líflegri en venjulegar hljóðlausar kvikmyndir, sem menn hafa átt að venjast hingað til. Því þótt margar af þeim myndum hafi þótt fallegar og hrífandi, mun fólk brátt komast að raun um að þær hefðu verið ennþá lífrænni og skemmtilegri, ef það hefði einnig heyrst, sem fram fór“. Síðan sagði að í talmyndunum heyrðust greinilega öll samtöl „nákvæmlega eins og á leiksviði“.

Bíóhúsin frumsýndu fyrstu talmyndirnar nákvæmlega á sama degi eða hinn 1. september 1930. Fyrsta talmynd Nýja Bíós var „Sonny Boy“ eða „The singing Fool“, en Gamla Bíó sýndi „Hollywood-revýuna“ frá Metro Goldwyn, sem var auglýst sem „skrautlegasta revýu-kvikmynd sem gerð hefur verið“. Tvö hundruð dansmeyjar komu fram í myndinni og hundrað manna hljómsveit.

Raunar hafði Gamla Bíó efnt til sérstakrar talfrumsýningar fyrir blaðamenn nokkrum dögum áður, en þá var sýndur Hollywood-gamanleikurinn „Söngur í regni“. Þar var að sögn Alþýðublaðsins um að ræða „afar skrautlega og skemmtilega“ sýningu. Á blaðamannasýningu Nýja Bíós var sýnd kvikmyndin „Sonny Boy“. Þar heyrðust fá samtöl, en þeim mun meira var sungið.

Kvikmyndir þær sem sýndar voru hér á þeim tíma voru aðallega á ensku, en einnig nokkuð á þýsku. Frá upphafi talmyndanna var þó danskur texti neðst á sjálfri myndinni, enda skildu bæjarbúar almennt dönsku á þeim tíma. Það var þó talinn kostur við talmyndirnar að Íslendingar gætu nú fengið ágætt tækifæri til að nema tungur stórþjóðanna af munni vel æfðra leikara.

Frekari tækniundur og nýir tímar

Menn voru eðlilega upprifnir af hinni nýju tækni. En blöðin sögðu einnig frá öðru tækniundri. Aðeins fáeinum vikum áður hafði verið sýnd kvikmynd í Lundúnum án kvikmyndatækja. Myndin hafði verið sýnd samtímis í New York og var send þaðan til Lundúna og tekið við henni þar með „fjarsýnitækjum“. Blaðamaður Alþýðublaðsins gerði þessu vel skil og sagði svo: „Jafnvel verður þess ekki langt að bíða, að menn geti jafnvel setið heima hjá sér og horft á kvikmyndirnar.“

Nýja Bíó og Gamla Bíó voru einu kvikmyndahús borgarinnar allt þar til Sáttmálasjóður fékk leyfi til reksturs kvikmyndahúss við Tjörnina árið 1939 til fjáröflunar fyrir Háskóla Íslands og síðan fjölgaði kvikmyndahúsum mikið. Undir lok níunda áratugar síðustu aldar hurfu hin gamalgrónu kvikmyndahús, Nýja Bíó og Gamla Bíó, af sjónarsviðinu í kjölfar breyttrar tísku í kvikmyndahúsum með fjölsalabíóum, en mikill skortur á bílastæðum stóð rekstri þeirra einnig fyrir þrifum. Hús Gamla Bíós er enn á sínum stað, glæsilegur minnisvarði um stórhug Bíó-Petersen. Nýja Bíó er löngu horfið, en þegar hornið á Lækjargötu og Austurstræti var endurreist eftir brunann 2007, var tekið mið af útliti Nýja Bíós, sem þótti eitt fallegasta hús bæjarins.

Birt í DV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Gaf Díegó í jólagjöf

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum glamúrfyrirsæta veltir fyrir sér hvort henni hafi yfir höfuð langað að eignast börn – „Þetta var bara eitthvað sem allir gera“

Fyrrum glamúrfyrirsæta veltir fyrir sér hvort henni hafi yfir höfuð langað að eignast börn – „Þetta var bara eitthvað sem allir gera“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tvær skærustu tennisstjörnur heims í rómantískri ferð á Íslandi – Gistu á hóteli þar sem nóttin kostar hálfa milljón

Tvær skærustu tennisstjörnur heims í rómantískri ferð á Íslandi – Gistu á hóteli þar sem nóttin kostar hálfa milljón
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – Athyglissjúk stjörnuhjón og bótox

Vikan á Instagram – Athyglissjúk stjörnuhjón og bótox
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aþena Sól var frelsissvipt og pyntuð en vitnið þagði – „Ég elska að sjá þig þjást“

Aþena Sól var frelsissvipt og pyntuð en vitnið þagði – „Ég elska að sjá þig þjást“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Blómstrar í fyrirtækjarekstri eftir atvinnumennskuna

Blómstrar í fyrirtækjarekstri eftir atvinnumennskuna