Ennisbönd, fjaðrir, pallíettur og vatnsgreiddir herrar
Farandviðburðurinn Party like a Gatsby var haldinn í Gamla bíói á laugardagskvöldið. Partíið hefur verið sett upp víðs vegar um Evrópu og er í anda tísku og tónlistar þriðja áratugar síðustu aldar.
Bíómyndin, The Great Gatsby, með Leonardo DiCaprio í aðalhlutverki, byggir á samnefndri skáldsögu frá 1925 eftir F. Scott Fitzgerald. Sagan fjallar um partíljónið Jay Gatsby ástir, örlög og að sjálfsögðu eftirminnilegar veislur hans.
Mikið var um dýrðir í glæsilegum salarkynnum Gamla bíós, en gestir mættu í sínu fínasta pússi – allt í anda þriðja áratugarins.
„Þetta var skemmtileg upplifun,“ segir Svanhvít Thea Árnadóttir, sem var á staðnum. „Það var farið alla leið með þetta. Starfsfólk í búningum og öll umgjörð góð.“
Ljósmyndari DV leit líka við og náði þessum myndum af hressum og glæsilegum gestum.