Dansinn í útrás – Snýst um húmor og heilindi
Margréti Erlu Maack er ýmislegt til lista lagt, en eitt af því sem hún gerir í lífinu er að kenna dans í Kramhúsinu. Húsfyllir hefur verið í tímum hennar í maga-, Beyoncé- og Bollywood-dönsum um árabil. Sýningarhópur Margrétar í Bollywood-dönsum lagði land undir fót á dögunum og fór til Spánar, þar sem hann hvort tveggja sýndi dans og lærði. Blaðakona DV náði tali af Margréti og komst á snoðir um ýmis ævintýri sem hópurinn upplifði í spænska vorinu.
Segðu mér Margrét, hvað er Bollywood–dans?
„Bollywood-dans er indverskur dans sem er saminn sérstaklega fyrir kvikmyndaformið. Í grunninn eru þetta hefðbundin indversk spor en svo er alls konar blandað inn í, bæði eftir myndum og tíðaranda hverju sinni. Það er til Bollywood-útgáfa af Thriller til dæmis, og diskótímabilið í Bollywood er frábært. Dansinn er mun frjálsari og má blanda meiru inn í hann en t.d. í magadansinum.“
Hvernig komst þú í kynni við hann og hversu lengi hefur þú stundað hann?
„Ég var að læra magadans í New York hjá Yousry Sharif sem hvatti mig til að bæta Bolly-inu við mig, sagði að það myndi margborga sig á svona litlum markaði eins og Íslandi að vera með mörg danstromp á hendi. „And boy was he right“.“
Hvað voruð þið að þvælast til Spánar?
„Fyrir ári flutti ein okkar, Berta, til Spánar. Hún var búin að fá nóg af því að vinna yfir sig á Íslandi og var hætt að sjá börnin sín. Hún og mamma hennar áttu íbúð í Orihuela Costa á Spáni svo hún ákvað að láta slag standa og fara út og vinna sem zumba- og Bollywood-kennari. Hún er líka gamall meistari í samkvæmisdönsum svo hún gat kennt ýmislegt og nú er hún í einkaþjálfaranámi og búin að bæta við sig spinning-gráðu líka.
Í janúar eða febrúar kom kall frá Bertu um að hún saknaði okkar – svo við drifum í að plana ferðina. Við borguðum hver og ein flugfarið og svo skemmtum við eins og brjálaðar á árshátíðum, kvennakvöldum og á Barnamenningarhátíð. Ferðasjóðurinn dekkaði alls konar ferðakostnað; leiguna á íbúðinni, kvöldmat, drykki, hand- og fótsnyrtikonu á sundlaugarbakkanum, flæðandi cava, ávexti, serranoskinkur og osta alla daga, og danskennslu sem við fórum í úti. Þess vegna var ferðin svona vel heppnuð – við gátum leyft okkur lúxus og ferðasjóðurinn borgaði.“
Hvaða ævintýrum lentuð þið í?
„Aðalheiður Santos Sveinsdóttir sá að mestu um tengslamyndun fyrir okkar hönd, undir lokin vorum við farin að kalla hana ferðafíflið. Hún byrjaði ferðina á því að Bollywood-dansa í gegnum öryggisleitarhliðið í Keflavík, sem er venjulega harðbannað, en öryggisvörðurinn var svo hrifinn af sporunum að hann ákvað að leyfa dansinn. Fyrsta kvöldið fékk hún vinnu við kokkteilagerð á karókíbar.
Við fórum í flamenco-tíma hjá Professor Jay sem var með ævintýralegt tagl. Hann sagði að við værum fyrsti hópurinn sem hann hefur kennt sem náði að klára allan Sevillanas-dansinn í einum tíma, enda erum við „framhalds“ og ótrúlega fljótar að ná sporum.
Svo fórum við á salsa-klúbb þar sem við lærðum hina ýmsu dansa, bæði salsa, merengue og það sem við kölluðum rassrassrass. Þar voru barþjónar með kúabjöllur og alls kyns áslátt og nokkrir fastapiltar sem sáu um að halda uppi stuðinu, og til dæmis að bjóða heldri konum upp í dans, svona eins og í Dirty Dancing.
Orihuela Costa er frekar ævintýralegur bær, mikið af Bretum og ellilífeyrisþegum, og stundum fengum við svona Little Britain-stemningu beint í æð, sem var gríðarlega gaman. Við slógum í gegn á karókíbörum, en minna á fótboltabörum því við vorum með svo mikil ófótboltatengd læti.
Á golfklúbbnum beint á móti húsinu þar sem við gistum var komið fram við okkur eins og drottningar. Sundlaugarbakkinn var samt ævintýralegastur, trúnóin og systrasamfélagið sem myndaðist, því við þekktumst mismikið fyrir og þetta gat farið hvernig sem er því við erum allar stórir karakterar, allar dívur í aðalhlutverki – alltaf. Þær sem hafa verið lengst hjá mér eru búnar að vera í sex ár (og sumar þeirra eru æskuvinkonur). Við erum mjög ólíkar og erum á aldrinum 26 til 42 ára.
Við erum ennþá að klóra okkur í hausnum yfir því hvað ferðasjóðurinn var drjúgur og hvað allt heppnaðist vel. Okkur er enn örlítið illt í lifrinni, með haus- og magaverk eftir hláturinn og komnar með góðan grunnlit.“
Eru íslenskir Bollywood-dansarar sem sagt á heimsmælikvarða?
„Já, og ekki bara í dansinum heldur líka í manngæðum.“
Geta allir orðið Bollywood-dansarar?
„Bollywood er svo ótal margt, og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Tónlistin kveikir í mjaðmarhnykkjunum og brosunum. Og engin er taktlaus – ef fólk getur gengið eða gat lært að tala þá hefur það takt. Bollywood snýst um húmor fyrir sjálfum sér, glettni í augunum og heilindi. Ég vel inn í Sýningarhóp Bollywood (framhalds) og það skiptir bæði máli að dansa vel og að falla inn í þann hóp, og vera ógeðslega fyndin, eftir að hafa klárað 1–2 venjuleg námskeið.“
Hvað er svo á döfinni hjá dansdívunni Margréti í sumar?
„Aðallega að hrista gæsapartí í Kramhúsinu, DJ-a í brúðkaupum og drekka sangríur á Reykjavík Highline. Ég er að fara til New York með Improv Ísland til að sýna þar í lok júní og nýti ferðina til að sirkusstrippa á Slipper Room. Annars er sumarið nokkuð opið fyrir ævintýrum af ýmsu tagi. Og við Bolly-bínurnar getum enn bætt við okkur giggum – við erum byrjaðar að plana ferð til Indlands í Bollywood-tíma og að skoða kvikmyndaver og slíkt eftir tvö ár. Eðlilega.“